8.1.2010

Sömu lagarök í Whitehall og í stjórnar­ráði Íslands – skipta verður um málsvara.

Þeim fjölgar sífellt, sem kveðja sér hljóðs á erlendum vettvangi og lýsa þeirri skoðun, að ekki sé neinn lagagrundvöllur fyrir því að krefjast þess af Íslendingum, að þeir beri Icesave-skuldirnar.

Eva Joly, þingmaður á Evrópusambandsþinginu og sérlegur lögfræðilegur ráðgjafi ríkisstjórnarinnar við sakamálarannsókn bankahrunsins, hefur skýrt frá viðræðum sínum við höfunda þeirrar tilskipunar Evrópusambandsins, sem heimilar bankaviðskipti á borð við þau, sem Landsbanki Íslands stundaðí Bretlandi og Hollandi undir merkjum Icesave. Þeir hafi sagt sér, að reglurnar um ábyrgð á innistæðum ættu ekki við, þegar um hrun bankakerfis þjóðar, eins og hér varð, væri að ræða.

Í The Financial Times birtist 8. janúar lesendabréf eftir dr. Michael Waibel, British Academy Postdoctoral Fellow, Lauterpacht Centre for International Law, við Cambridge háskóla í Bretlandi.

Hann segir embættismenn breska stjórnarráðsins, Whitehall, halda því fram, að ákvæði Icesave-samnings Bretlands og Íslands séu „generous“, það er drenglynd í garð Íslendinga. Dr. Waibel segir fáa Íslendinga og raunar einnig fáa sérfróða menn fallast á þetta mat.

Telur dr. Waibel, að oft gleymist í þessum harmleik, að Íslendingum beri engin skýr alþjóðaréttarleg skylda til að inna þessar greiðslur af hendi – Fitch matsfyrirtækið virðist ekki átta sig á þessu í ótímabærri lækkun sinni á lánshæfismati Íslands 5. janúar. Bretar glímdu við verulegan vanda í málinu frammi fyrir dómara. Líkur á því, að þeir ynnu málið séu ekki meiri en 60%, og þá er ólíklegt, að Bretar fengju meira í sinn hlut en samkvæmt Icesave-samningnum.

Langvinn lagaþræta yrði ekki neinum til góðs. Bretar og Hollendingar verði að líta í eigin barm og sýna sáttavilja í stað þess að beita pólitískum aflsmun í Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og annars staðar til að ná fram sínum ýtrustu kröfum. Allir samningar um málið verði að endurspegla þá staðreynd, að alls sé óvíst, hvað Íslendingum beri í raun og veru að greiða. Þessi óvissa ætti að birtast í verulegum afslætti af höfuðstólnum og hóflegum vöxtum.

Skilmálar í núgildandi lánasamningi séu andstæðir ráðum, sem Elihu Root, fyrrverandi utanríkisáðherra Bandaríkjanna og friðarverðlaunahafi Nóbels, gaf James Brown Scott, lögfræðilegum ráðgjafa sínum:

„ Við verðum ávallt að sýna varúð og einkum í samskiptum okkar við minni ríki, þeim megum við aldrei bjóða neina lausn, sem við gætum ekki sjálfir unað, ef staðan yrði öfug.“

Hér hafa lögfræðingarnir Stefán Már Stefánsson, prófessor, og Lárus L. Blöndal, hrl., haldið fram sviðupum sjónarmiðum um hina lögfræðilegu óvissu um greiðsluskyldu Íslendinga. Þá ritaði Magnús Ingi Karlsson, lögfræðingur við Seðlabanka Íslands, grein í Morgunblaðið hinn 29. desember undir fyrirsögninni: Ríkisábyrgð á rakalausum skuldbindingum. Þar segir hann meðal annars:

„Ríkisábyrgð á innstæðutryggingum er í eðli sínu brot á samkeppnisrétti þar sem hún felur í sér ríkisaðstoð til einkarekinna fjármálastofnana. Væri slík ábyrgð almennt viðurkennd myndu innstæðueigendur leggja innstæður sínar hjá fjármálastofnun sem ætti heimilisfesti þar sem ríki stæðu best að vígi - væru efnuðust - og hefðu minnsta fjármálakerfið til þess að bera ábyrgð á. Frjálsri samkeppni fjármálastofnana á evrópska efnahagssvæðinu væri í einu vetfangi skipt út fyrir ríkisstyrkta fjármálastarfsemi væri slík ábyrgð talin felast í óljósum markmiðslýsingum Evróputilskipunar um innstæðutryggingar. Þá er ljóst að gera þyrfti ráð fyrir slíkri ábyrgð í ríkisreikningum aðildarríkja. Það er því niðurstaða hafin yfir vafa að ríkisábyrgð á Icesave-skuldbindingum sjálfseignastofnunar á ekki við rök að styðjast.“

Hið dapurlega í þessu máli er, að rökin, sem notuð eru í breska stjórnarráðinu og utanríkisráðuneyti Breta til að setja Íslendingum afarkosti, eru hin sömu sem embættismenn í utanríkisráðuneyti Íslands og embættismenn ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur nota. Þeir láta enn eins og þeir hafi aldrei heyrt í neinum lögfræðingi, sem telji óvissu ríkja um greiðsluskyldu Íslendinga að Evrópurétti.

Að málum skuli háttað á þennan veg er með ólíkindum. Að svo er, ræður mestu um þá erfiðu stöðu, sem skapast hefur vegna Icesave-málsins fyrir íslensku þjóðina. Eigi að skapa nýja stöðu í Icesave-viðræðum er fyrsta verkefnið að skipta um málsvara Íslands í málinu.