Veiðileyfið frá Borgarnesi
Vettvangur í Morgunblaðinu, 8. mars, 2003.
Davíð Oddsson forsætisráðherra lýsti „frétt“ Fréttablaðsins um að hann hefði rætt um fyrirtækið Nordica og Jón Gerald Sullenberger við Hrein Loftsson á fundi þeirra í London staðlausa. Færði hann fyrir því skýr rök. „Fréttin“ hefur næstum gleymst, eftir að Davíð sagði frá því, að Hreinn hefði nefnt hugmynd Jóns Ásgeirs Jóhannessonar, forstjóra Baugs, um að gera mætti Davíð að vini Baugs með því að greiða honum 300 milljónir króna inn á leynireikning erlendis.
Morgunumferðin mánudaginn 3. mars, þegar morgunvakt RÚV hóf göngu sína með viðtali við Davíð, hægði á sér vegna dramatískra svara Davíðs við spurningum Óðins Jónssonar fréttamanns um „frétt“ Fréttablaðsins. Með öndina í hálsinum hlustuðu ökumenn og trúðu vart eigin eyrum. Í umræðuþáttum sjónvarpsstöðvanna um kvöldið ítrekaði Davíð frásögn sína. Hann dró alveg skýr mörk milli stjórnmála og viðskipta og talaði tæpitungulaust. Davíð flutti mál sitt beint til allra hlustenda og skýrði þeim frá einstæðri reynslu af samskiptum við mann, sem áður hafði verið náinn samstarfsmaður, en var gerður út af örkinni sem stjórnarformaður Baugs til að viðra ákveðna hugmynd með hagsmuni fyrirtækisins í huga. Síðan hafa pólitískar umræður fengið á sig nýjan blæ.
Atburðir daglegs lífs eru oft ótrúlegri en það, sem sagt er frá í skáldsögum. Er undir hverjum og einum komið, hvort hann trúir því, sem sagt er. Margir eru í sporum Tómasar og vilja fá að þreifa á sárinu til að sannfærast. Öðrum nægir að lesa og heyra það, sem trúverðugir menn segja. Þeir, sem hafa starfað í áratugi með Davíð Oddssyni, vita, að orðum hans má treysta.
***
Ástæðulaust er að gleyma „frétt“ Fréttablaðsins. Bestu úttekt á henni gerði Páll Vilhjálmsson hér í Morgunblaðinu síðastliðinn miðvikudag. Orð Páls verða ekki vegin og metin á þeirri forsendu, að hann sé handgenginn Davíð Oddssyni með sama hætti og til dæmis ég, sem hef lengi átt með honum samleið í Sjálfstæðisflokknum og verið ráðherra í ríkisstjórn hans. Páll hefur látið að sér kveða á vettvangi Samfylkingarinnar. Hann segir „frétt“ Fréttablaðsins geta hafa verið skrifaða af almannatengli á launum hjá Baugi. Páll segir síðan:
„Til að flétta Baugsmanna gengi upp þurfti utanaðkomandi aðstoð. Ingibjörg Sólrún Gísladóttir forsætisráðherraefni Samfylkingarinnar bauð sig fram sem nytsaman sakleysingja þegar hún í alræmdri Borgarnesræðu í febrúar bar blak af þrem nafngreindum fyrirtækjum sem tæplega eru fyrirmyndardæmi um atvinnurekstur, svo ekki sé meira sagt, og ásakaði forsætisráðherra fyrir að leggja fyrirtækin í einelti. Eitt þeirra er Baugur og annað Norðurljós/Jón Ólafsson.“
Páll tekur með þessum orðum undir rök Davíðs Oddssonar í samtalinu við Óðinn, þegar Davíð sagði:
„Ég held þetta sé allt saman gert til þess að reyna að ýta undir það sem að talsmaður Samfylkingarinnar byrjaði svo óheppilega á í Borgarnesi að fjalla um það sem hún kallaði orðróm eða gróusögur og byggja ræður sínar á því. Að reyna að sanna það að ég hefði hlotið að hafa þekkt þetta nafn á þessum manni og þar með sé komin einhver sönnun fyrir því að ég hafi undirbúið allar þessar innrásir í öll þessi fyrirtæki.“
***
Í ljósi þessa er sérkennilegt að heyra samfylkingarmenn kveinka sér undan því undanfarna daga, að stjórnmálaumræður í aðdraganda þingkosninga snúist ekki um pólitík heldur hafi breyst í einskonar „leðjuslag“, svo að endurtekin sé tuggan, sem hver þeirra étur upp eftir öðrum. Í ritstjórnardálki Viðskiptablaðsins síðastliðinn miðvikudag mátti meðal annars lesa þetta:
„Raunin er sú að Ingibjörgu stafar mest ógn af sjálfri sér og sínum ráðgjöfum. Og þessi hætta er mjög raunveruleg. Svo má heita að Ingibjörg hafi gert ein mistök á viku hverri frá áramótum. Fyrir þremur vikum lýsti hún nánast yfir stuðningi við Jón Ólafsson á fundinum fræga í Borgarnesi, degi áður en skattamál Jóns voru lögð fyrir þjóðina…..Og nú í þessari viku lét Ingibjörg það eftir sér að lýsa yfir óbeinum stuðningi við þá Baugsfeðga í mútumáli þeirra og Davíðs….“
Þeir, sem taka upp hanskann fyrir Ingibjörgu Sólrúnu, vegna hinnar dæmalausu ræðu í Borgarnesi, segja, að hún hafi verið að boða nýjar leikreglur. Þegar ræðan er lesin er erfitt að finna því stað, en hún talar hins vegar mikið um nauðsyn þess að fara eftir gegnsæjum leikreglum og gefur síðan til kynna í hálfkveðnum vísum að á það skorti hjá Sjálfstæðisflokknum undir forystu Davíðs Oddssonar. Ingibjörg Sólrún sagði:
„Stjórnmálamennirnir bera ábyrgð á leikreglunum en leikendur bera ábyrgð á því að fara eftir þeim. Það má leiða að því rök að afskiptasemi stjórnmálamanna af fyrirtækum landsins sé ein aðalmeinsemd íslensks efnahags- og atvinnulífs. Þannig má segja að það sé orðstír fyrirtækja jafnskaðlegt að lenda undir verndarvæng Davíðs Oddssonar eins og það er að verða að skotspæni hans. Ég vil þannig leyfa mér að halda því fram að það hafi skaðað faglega umfjöllun um Íslenska erfðagreiningu, bæði hérlendis og erlendis, að sú skoðun er útbreidd að fyrirtækið njóti sérstaks dálætis hjá forsætisráðherranum. Það vekur upp umræðu og tortryggni um að gagnagrunnur fyrirtækisins og ríkisábyrgðin byggist á málefnalegum og faglegum forsendum en ekki flokkspólitískum. Sama má segja um Baug, Norðurljós og Kaupþing. Byggist gagnrýni og eftir atvikum rannsókn á þessum fyrirtækjum á málefnalegum og faglegum forsendum eða flokkspólitískum? Ertu í liði forsætisráðherrans eða ekki – þarna er efinn og hann verður ekki upprættur nema hinum pólitísku afskiptum linni og hinar almennu gegnsæju leikreglur lýðræðisins taki við.“
***
Þegar leitað var skýringa á þessum orðum hjá Ingibjörgu Sólrúnu, vitnaði hún meðal annars í orð Björgólfs Thors Björgólfssonar. Hann baðst hins vegar undan því í Morgunblaðsviðtali 16. febrúar, að orð sín væru mistúlkuð á þann hátt af Ingibjörgu Sólrúnu. „Mér finnst frekar að fyrirtækin séu að troða sér inn í pólitíkina og halda því fram að þau séu skotspónn eða fórnarlömb stjórnvalda. ...Ég er ekki fyrir svona samsæriskenningar,“ sagði hann í viðtalinu.
Viðskiptablaðið leitaði í vikunni svara Steinþórs Ólafssonar, forstjóra Sæplasts, Björgólfs Jóhannssonar, forstjóra Síldarvinnslunnar, Gunnars Svavarssonar, forstjóra SH, og Steinþórs Skúlasonar, forstjóra Sláturfélagsins, á því hvort afskipti stjórnmálamanna af viðskiptalífinu væru of mikil. Er það samdóma álit þeirra allra, að svo sé ekki. Steinþór tekur á hinn bóginn í sama streng og Björgólfur Thor, þegar hann segir:
„Þvert á móti hef ég oft orðið var við að hagsmunaaðilar og aðilar innan viðskiptalífsins reyna að nýta sér ítök innan stjórnmálanna sjálfum sér og sínum hagsmunum til framdráttar. Í því felst að þeir eru að leitast við að nota stjórnmálamenn til að fá einhverja niðurstöðu sem er þeim þóknanleg...“
Þetta skyldu ekki vera einu kynni Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur af viðskiptalífinu? Þetta skyldi ekki ráða því, hvernig hún dró fyrirtæki í dilka í Borgarnesi?
bjorn@centrum.is