29.5.1999

Kvennaskólinn í Reykjavík 125 ára

Kvennaskólinn í Reykjavík
125 ára
29. maí 1999


Mér er það mikið ánægjuefni, að fyrsta opinbera embættisverk mitt sem menntamálaráðherra í þriðja ráðuneyti Davíðs Oddssonar sé að flytja Kvennaskólanum í Reykjavík heillaóskir á 125 ára afmæli skólans.

Íslendingar voru fullir bjartsýni árið 1874, árið sem Kvennaskólinn var stofnaður. Þeir fögnuðu 1000 ára byggð í landi sínu með meiri hátíðarhöldum en áður höfðu þekkst. Konungur sté í fyrsta sinn fæti á landið og afhenti þjóðinni fyrstu stjórnarskrá hennar. Vindar breytinga, lýðræðis og frelsis léku um þjóðlífið.

Í þessu andrúmslofti lögðu íslenskar konur grunn að því að fá rétt sinn til menntunar viðurkenndan með því að stofna Kvennaskólann í Reykjavík.

Þjóðin hefur sótt fram á öllum sviðum á grunninum, sem var lagður á merkisárinu 1874. Hlutur kvenna í öllu skólastarfi er til dæmis orðinn mun meiri en karla. Án þeirra væri íslenska skólakerfið svipur hjá sjón.

Þóra Melsted beitti sér fyrir því að stofna Kvennaskólann í Reykjavík í andstöðu við fordóma. Skólinn hefur ekki aðeins sannað gildi sitt og ágæti fyrir konur. Hann stendur á 125 ára afmæli sínu í fremstu röð framhaldsskóla á Íslandi.

Bragur og andi starfsins í Kvennaskólanum í Reykjavík hefur löngum verið rómaður langt út fyrir veggi hans. Er einstakt að heyra gamla nemendur lýsa þeim fröken Ingibjörgu H. Bjarnason, fröken Ragnheiði Jónsdóttur og frú Guðrúnu P. Helgadóttur og hversu afbragðs fyrirmyndir þær voru.

Undir forystu Aðalsteins Eiríkssonar skólameistara hefur skólinn síðan orðið fyrirmynd við rekstur ríkisstofnana eins og fólst í nýlegri viðurkenningu fjármálaráðuneytisins.

Stefnuyfirlýsing ríkisstjórnarinnar, sem var mynduð í gær, ber heitið Í fremstu röð á nýrri öld. Við náum ekki því marki nema með því að leggja áherslu á menntun, rannsóknir og vísindi. Ísland er og á að vera land tækifæranna, ekki síst fyrir ungt og velmenntað fólk.

Á síðustu árum hefur verið lagður grunnur að nýskipan náms í leikskólum, grunnskólum og framhaldsskólum. Nýjar námskrár eru að koma til framkvæmda.

Aldrei fyrr hefur í íslenskri skólasögu verið staðið að verki með þessum hætti. Ástæða er til að binda miklar vonir við að framsæknir skólar á borð við Kvennaskólann í Reykjavík nýti sér til hins ýtrasta þau tækifæri, sem felast í nýjum námskrám. Skólinn hefur sýnt, að hann óttast ekki breytingar heldur nýtir sér tækifærin, sem í þeim felast.

Í 90 ár hefur Kvennaskólinn starfað við Tjörnina, í hjarta Reykjavíkur. Skólinn er órjúfanlegur þáttur í borgarmyndinni. Nemendur hans gæða miðbæinn lífi. Á 125 ára afmæli skólans er brýnt að búa honum góða framtíðaraðstöðu. Vafalaust eru skiptar skoðanir um það, hvar hún á að vera eins og ávallt, þegar rætt er um slík mál. Hér skal ekki tekin önnur afstaða til þess en að æskilegast sé að skólinn og nemendur hans setji áfram sem mestan svip á hjarta Reykjavíkur. Hitt er ljóst, að stjórnendur skólans, stjórnvöld Reykjavíkur og menntamálaráðuneytið verða að taka höndum saman og ná samkomulagi um áætlun um húsnæðismál Kvennaskólans í Reykjavík. Mér er það kappsmál að sem best sé að hinu merka starfi skólans og nemenda hans búið.

Góðir áheyrendur!

Á 125 ára afmæli sínu getur Kvennaskólinn í Reykjavík með stolti fagnað góðum árangri. Nemendur skólans, framganga þeirra og dugnaður, eru besti vitnisburðurinn um hið góða starf, sem þar er unnið. Ingibjörg Guðmundsdóttir settur skólameistari og samstarfsmenn hennar halda hinu metnaðarfulla merki skólans hátt á loft.

Megi Kvennaskólinn í Reykjavík eflast og dafna enn um langan aldur. Megi hann áfram vera í fremstu röð á nýrri öld eins og hann hefur verið síðustu 125 árin.