26.1.2002

Framtíð Reykjavíkur - ákvörðun um framboð



Framtíð Reykjavíkur,
kjördæmisþing sjálfstæðismanna,
26. janúar, 2002.


Um síðustu helgi var ég norður í Eyjafirði og það var þungt yfir og rigning, þegar við flugum frá Akureyri um hádegi á sunnudag en eftir því sem nær dró Reykjavík birti yfir og sól skein á sundin.

Þegar borgin blasti við okkur - böðuð janúarsólinni – varð mér hugsað til þessarar stundar hér í dag og ræðunnar, sem ég ætti að flytja. Efnistök hennar voru enn í huga mér á stuttri gönguferð síðdegis þennan sama dag. Í vetrarblíðunni rann upp fyrir mér, að í raun væri nóg, að lýsa því, sem við blasti á göngunni, til að skýra, hvers vegna valdamissir R-listans og sigur Sjálfstæðisflokksins eru höfuðforsendur þess, að framtíðarþróun Reykjavíkur verði jafnbjört og þessi dagur var.

Ég gekk fram hjá Menntaskólanum við Hamrahlíð, en hann hefur síðan 1966 verið meðal bestu framhaldsskóla landsins. Byggingu skólans hefur þó aldrei verið lokið - þar hefur ekki enn verið reist langþráð íþróttahús, þrátt fyrir að alþingi hafi samþykkt fjárveitingu til þess að tillögu minni. Ekki hefur reynst unnt að nýta hana, vegna þess að borgarstjóri telur uppbyggingu skólans ekki vera á verksviði borgarinnar. Rökin byggjast á lagaflækjum í stað þess að taka af skarið í þágu skólans, nemenda hans og kennara.

MH er ekki eini framhaldsskólinn, sem geldur fyrir þvermóðsku R-listans, því að í Menntaskólanum í Reykjavík bíða frekari endurbætur eftir grænu ljósi frá borgarstjóra, sem virðist helst sjá rautt, þegar hún ræðir málefni skólans.

Í Suðurhlíðum fór ég framhjá Suðurhlíðaskólanum, einkareknum grunnskóla, en miðstýringarárátta R-listans stangast á við rekstur slíkra skóla hvort sem þeir eru leikskólar, grunnskólar eða tónlistarskólar, og þessi árátta veldur miklum áhyggjum hjá forráðamönnum skólanna og foreldrum barna, sem þar stunda nám. Óttast málsvarar skólanna um framtíð þeirra vegna skilningsleysis hjá R-listanum auk þess sem erfitt sé að fá úr því skorið, hvað í raun vaki fyrir fræðsluyfirvöldum borgarinnar gagnvart skólunum. Er ljóst, að R-listinn heimilar hvorki aukið sjálfstæði skóla eða þróun í þá átt né gefur foreldrum færi á að velja skóla án tillits til fastmótaðrar hverfaskiptingar.

Rétt fyrir neðan Suðurhlíðaskóla standa byggingakranar aðgerðarlausir vegna vondra vinnubragða skipulagsyfirvalda, sem hafa leitt til deilna bæði við íbúa í Suðurhlíðum og lóðareigendur. Enn eitt málið til marks um harðar deilur, þegar R-listinn stofnar til ágreinings með offorsi í skipulagsmálum.

Leið mín lá að þessu sinni um Fossvogskirkjugarð að Perlunni, en hún var auglýst til sölu, þegar Alfreð Þorsteinsson, stjórnarformaður Orkuveitu Reykjavíkur, komst í rökþrot í umræðum um hóflaust fjárstreymi úr sjóðum borgarbúa í hít Línu.nets. Fjárausturinn í Línu.net er orðinn svo mikill, að borgarstjóri nær ekki upp í tölurnar nema í áföngum, því að hún hélt þær vera 100 milljónir króna en fékk síðar að vita, að milljónirnar eru orðnar 1000 eða einn milljarður. Snúa verður tafarlaust frá beinni þátttöku borgarinnar í slíkum samkeppnisrekstri.

Frá Perlunni leit ég yfir flugvallarsvæðið og velti fyrir mér ótrúlegum vandræðagangi um framtíð þess undir forystu R-listans, sem náði hámarki í atkvæðagreiðslunni um Vatnsmýrina. Lýðræðisleg þátttaka borgaranna í töku ákvarðana er mikilvæg en til þessarar rúmlega 30 milljón króna atkvæðagreiðslu var stofnað í því eina skyni, að R-listinn gæti skotið sér undan ábyrgð. Aldrei lá fyrir hvernig niðurstaðan yrði nýtt og rangtúlkanir borgarstjóra á úrslitum hennar gera lýðræðislegar umræður að skrípaleik.

Um svipað leyti og ég var að ljúka göngu minni skýrði borgarstjóri frá því við hátíðlega athöfn í Ráðhúsinu hver hefði hlotið verðlaun í samkeppni um skipulag vegna tónlistarhúss og ráðstefnumiðstöðvar við höfnina, í hjarta Reykjavíkur. Frumkvæðið, sem leiddi til þessarar niðurstöðu, kom ekki frá R-listanum heldur menntamálaráðuneytinu og samgönguráðuneytinu, sem lögðu mest af mörkum við að skilgreina þörfina fyrir þau mannvirki, sem munu móta norðurvæng miðborgar Reykjavíkur.

Hið sama á við um suðurvæng miðborgarinnar, frumkvæði að miklum mannvirkjum þar kemur ekki frá R-listanum. Háskóli Íslands hefur með samþykki menntamálaráðuneytisins lagt grunn að þekkingarþorpi í Vatnsmýrinni og nú er unnið að því að smíða tillögur um framtíðaraðstöðu Landspítala – háskólasjúkrahúss og mælir flest með því, að hún tengist háskólasvæðinu.

Undanfarin ár hefur stefnumarkandi frumkvæði að því að ramma inn miðborgarmynd Reykjavíkur ekki komið frá R-listanum heldur frá ríkisstjórn. Og samt heyrum við reglulega kveinstafi um að ríkið geri ekki hitt eða þetta, og ef eitthvað fer aflaga, er það að sjálfsögðu ráðherrunum að kenna.

Góðir fundarmenn!

Ef ég hefði gengið stærri hring, mundi listinn yfir vandræðamálin og deilur borgaryfirvalda við íbúana út af stóru sem smáu aðeins lengjast.

En hvað er sameiginlegt með þessum atriðum öllum? Jú, svarið er einfalt, R-ið í heiti R-listans stendur ekki fyrir Reykjavík heldur fyrir ráðleysi.

Ráðleysið blasir alls staðar við okkur Reykvíkingum sama hvar við búum eða hvert við lítum. Og þess sjást vissulega lítil merki hvert afraksturinn af sífellt þyngri álögum á okkur borgarbúa hefur runnið.

Á dögunum fékk ég tölvubréf frá athafnamanni hér í borginni og þar segir meðal annars:

„Ég hef á liðnum fáum árum fyrst og fremst unnið að verkefnum tengdum skipulags- og byggingarmálum og af þeim ástæðum m.a. haft umtalsverð
samskipti við borgaryfirvöld. Í þeim samskiptum greini ég ráðleysi meirihlutans og stefnuleysi, sem birtist í tilviljanakenndum vinnubrögðum, en helgast annars vegar af viljanum til að halda í völdin og hins vegar hræðslu við sjálfstæðismenn. R-listinn er auðvitað ekkert annað en hræðslu-og valdabandalag, og geta vinnubrögðin aldrei orðið önnur en í samræmi við þá staðreynd.”

Hér ekki töluð nein tæpitunga. Við Reykvíkingar finnum sífellt meira fyrir átta ára óstjórn R-listans – af stöðnun í borgarlífinu leiðir hnignun. Gamalkunn vinstri valdapólitík og úrræði eru ekki til þess fallin

að eyða biðlistum við leikskóla;

að auka fjölbreytni í skólastarfi;

að fjölga og lækka verð á íbúðalóðum;

að styrkja stoðir atvinnulífsins.

Vinstri úrræðin mynda ekki kjöraðstæður fyrir fyrirtæki.

Vinstri úrræðin leysa ekki skipulagsmál á skynsamlegum forsendum.

Vinstri úrræðin hafa ekki létt áhyggjum af húsnæðislausum, aldrei hafa verið lengri biðlistar eftir félagslegu húsnæði.

Valdapólitík R-listans hefur skapað lengri biðlista eftir hjúkrunarrými en nokkru sinni fyrr og þjónustugjöld á aldraða hafa stórhækkað.

Ráðdeild er ekki í heiðri höfð og á hverjum einasta degi á valdatíma R-listans hafa skuldir borgarinnar hækkað um 8 til 9 milljónir króna, hreinar skuldir borgarinnar hafa áttfaldast frá árslokum 1993.

Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hefur hælt sér af því, að hún stjórni með fólki. Hið sanna er, að hvarvetna kvarta borgarbúar undan því að ná engu sambandi við borgarstjóra.

Millistjórnendum á kostnað borgarbúa hefur fjölgað og sífellt meiri tími fer í að handlanga skjöl á milli þeirra án þess að ákvarðanir séu teknar, og mál velkjast árum saman án niðurstöðu og hlaða aðeins á sig tilgangslausum kostnaði. Skipaðar hafa verið alls kyns stjórnir og ráð, sem annars vegar eiga að sinna einstökum málaflokkum en hins vegar einstökum borgarhverfum og rekst allt hvert á annars horn í framkvæmdinni.



Góð flokkssystkin!

Við komum hér saman í dag til að búa okkur undir sókn gegn R-listanum og stjórnarháttum hans. Það er ekki til betri sönnun fyrir þeim traustu innviðum, sem Sjálfstæðisflokkurinn mótaði í Reykjavík, að hag borgarinnar skuli ekki enn verr komið en raun ber vitni eftir átta ára framtaksleysi R-listans. Við getum verið stolt af hlut sjálfstæðismanna í sögu Reykjavíkur.

Þar réði framkvæmdagleði og framsýni.

Þar réði metnaður og mannúð.

Hallgrímur Helgason rithöfundur lýsti árangri R-listans í DV haustið 2000 en hann sagðist hafa kosið hann með nokkrum efa og bætti við: „ Sá efi nagar okkur sífellt meir þar sem við bíðum í 30 bíla röð á öllum ljósunum í bænum. Eftir sex ára valdasetu R-listans koma þessi afrek helst upp í hugann: Menningarnótt og Menningarborg. Engin stórverk, engar hugmyndir, engin framtíðarsýn."

Hallgrímur segir einnig: „Nýlega kom fram að í Reykjavík hafi ekki verið byggt jafn lítið og á þessu ári síðan 1956. Við hverja lóð sem auglýst er standa 100 manns í biðröð. Í miðju góðærinu ríkir stöðnun í Reykjavík."

Þetta er afstaða kjósanda R-listans í kosningunum 1998. Svipuð sjónarmið hafa birst á vefsíðu minni undanfarin ár.

Þegar rætt var við mig um virka og beina þátttöku í baráttunni fyrir því að koma R-listanum frá völdum, aftók ég það ekki. Hef ég fengið hvatningu úr ólíklegustu áttum – langt út fyrir raðir okkar góða flokks.

Ég hafði ekki á móti því, að hugmyndin um þátttöku mína og hugsanlegt framboð fengi að fara sína leið, annað hvort mundi hún lifa eða deyja.

Nú er svo komið, að hún hefur fengið miklu meiri byr, en mig gat nokkru sinni órað fyrir. Brygði ég fæti fyrir hana nú, væri ég jafnframt að bregðast þeim fjölmörgu, sem telja það sigurstranglegt fyrir Sjálfstæðisflokkinn, að ég verði borgarstjóraefni hans í komandi kosningum.

Leiðarljós mitt hefur verið viðleitni til að efla samstöðu sjálfstæðismanna til sigurs. Síðustu daga hefur þessi vilji til samstöðu birst skýrar en áður og færi ég Ingu Jónu Þórðardóttur, oddvita okkar í borgarstjórn, sérstakar þakkir fyrir stuðning hennar. Borgarstjórnarflokknum í heild vil ég þakka framgöngu og málflutning undanfarin ár. Málefnastaða Sjálfstæðisflokksins er góð í borgarstjórn.

Segja má, að ég hafi verið alinn upp í þeirri vissu, að fulltrúaráð sjálfstæðisfélaganna í Reykjavík skipti sköpum fyrir árangur flokks okkar í kosningum í höfuðborginni. Vil ég þakka ykkur ágætu félagar og árétta mikilvægi þess óeigingjarna starfs, sem þið vinnið með forystusveit hverfafélaganna til að treysta forsendur flokksstarfsins og kalla fólk til stuðnings við Sjálfstæðisflokkinn. Vitneskja um liðsstyrk ykkar auðveldaði ákvörðun mína og þá læt ég ekki hjá líða að minnast þess, að stuðningur Heimdallar vó þungt, þegar ég komst að niðurstöðu minni.

Við sjálfstæðismenn höfum staðið að mótun framboðslista okkar fyrir opnum tjöldum á meðan R-listinn stundar hrossakaup um sæti fyrir luktum dyrum. Leikreglur okkar hafa verið öllum ljósar og þeim er framfylgt af kjörnum trúnaðarmönnum.

Ágæta sjálfstæðisfólk!

Í störfum menntamálaráðherra í tæp sjö ár hef ég öðlast mikla þekkingu á þeim málefnum, sem skipta sköpum um farsælt og fjölskylduvænt mannlíf í Reykjavík og lít ég þá einkum til mennta, menningar, íþrótta og æskulýðsstarfs.

Ég vil, að í Reykjavík dafni blómlegt mannlíf í krafti nútímalegra starfshátta og upplýsinga með öflugu atvinnulífi og einkaframtaki.

Það er mér ljúft að lýsa yfir því hér í ykkar hópi, að ég æski eftir umboði til að leiða lista flokks okkar í borgarstjórnarkosningunum hér í Reykjavík í vor.

Ég geri þetta til að verja starfskröftum mínum í þágu allra Reykvíkinga.

Ég geri þetta til að efla Sjálfstæðisflokkinn og til að berjast fyrir málstað hans og stefnu.

Ég geri þetta vegna þess að lýðræðislegar hefðir Sjálfstæðisflokksins og vinnubrögð duga betur við stjórn Reykjavíkur en ráðleysi og valdabrölt R-listans.

Ég geri þetta vegna þess að Reykvíkingar eiga betra skilið en neikvæða stjórn R-listans.

Undir styrkri stjórn sjálfstæðismanna verður Reykjavík að nýju höfuðborg allra landsmanna.

Ég býð mig fram til að leiða Sjálfstæðisflokkinn til sigurs í snarpri kosningabaráttu. Við munum ganga stolt frá henni. Ég heiti á stuðning ykkar og baráttukraft.

Með samstöðu okkar munum við sigra.