19.10.2002

Ísland vill sæti í öryggisráðinu- vettvangur í Morgunblaðinu.







Ísland vill sæti í öryggisráðinu

MARKMIÐ íslenska ríkisins er að komast í ólympíuliðið á vettvangi alþjóðastjórnmála með því að eignast fulltrúa í öryggisráði Sameinuðu þjóðanna haustið 2008 til setu þar árin 2009 og 2010.

Geir Hallgrímsson varð sem utanríkisráðherra um miðjan níunda áratuginn fyrstur til að hreyfa þessu markmiði með formlegum hætti. Árið 1998 tilkynnti Halldór Ásgrímsson utanríkisráðherra, að Íslendingar ætluðu að skjóta sér inn í röð Norðurlandanna og taka sæti þeirra í ráðinu, eftir að Norðmenn og Danir hefðu setið sín kjörtímabil; Norðmenn 2001 og 2002 og Danir 2005 og 2006.

Frá því að Íslendingar gerðust aðilar að Sameinuðu þjóðunum (SÞ) árið 1946 hafa þeir staðið utan raðar Norðurlandanna fimm um setu í öryggisráðinu. Nú er sá tími liðinn, Gengið er að því sem vísu, að sú regla gildi áfram fyrir hóp 29 Vestur-Evrópuríkja, Ástralíu, Bandaríkjanna, Kanada og Nýja-Sjálands (WEOG-hópurinn), að hann fái tvo fulltrúa kjörna í ráðið. Samkvæmt óformlegu samkomulagi er annað þessara ríkja, annað hvert tveggja ára kjörtímabil, að jafnaði eitthvert Norðurlandanna.


Starfið á vettvangi Sameinuðu þjóðanna tekur verulegt mið af svæðisbundnu samstarfi og ríkjahópum, ekki síst við val á fulltrúum til setu í nefndum og ráðum. Af öllum kosningum á vettvangi Sameinuðu þjóðanna skiptir mestu að ná árangri, þegar stefnt er á öryggisráðið. Lengra ná þjóðir ekki til fjölþjóðlegra áhrifa. Ríkisstjórnir Norðurlanda hafa sameinast um Ísland í öryggisráðið. Næsta skref er að fá stuðning innan WEOG-hópsins. Málum er nú þannig háttað, að aðeins tvö ríki í hópnum hafa tilkynnt framboð sitt árið 2008, Austurríki og Ísland. Verði ekki fleiri ríki úr þessum hópi í framboði, siglir Ísland átakalaust inn í öryggisráðið. Verði fleiri frambjóðendur, er valið á milli þeirra á allsherjarþinginu. Þegar Norðmenn buðu sig fram haustið 2000, voru þrjár þjóðir úr WEOG-hópnum í framboði: Írar, Ítalir og Norðmenn. Írar flugu inn í fyrstu kosningu á allsherjarþinginu en Norðmenn mörðu það í fjórðu lotu. Fyrir ríkisstjórn Íslands og utanríkisþjónustuna skiptir miklu næstu ár að tryggja einhug um tvö ríki innan WEOG-hópsins haustið 2008. Takist það er sigur tryggður. Mistakist það er nauðsynlegt að efna til markvissrar kosningabaráttu meðal 191 aðildarþjóðar SÞ. Hvort sem ríki eru stór eða smá þurfa þau að leggja hart að sér í slíkri kosningabaráttu. Undirrótin að því, að Bandaríkin féllu út úr mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna var óeining innan WEOG-hópsins, sem bauð fram fleiri en kjósa skyldi úr honum.
Íslenska stjórnkerfið hefur nokkra reynslu af því, að taka þátt í alþjóðlegum kosningum af þessum toga. Hún mótast af því annars vegar, að til Íslands er að sjálfsögðu leitað um stuðning, þegar tekist er á um stóla í alþjóðlegum nefndum, ráðum eða stjórnunarstörfum hjá alþjóðastofnunum. Hins vegar hafa Íslendingar keppt um sæti í ráðum og nefndum alþjóðastofnana eins og UNESCO, FAO og WHO, svo að nokkrar stofnanir Sameinuðu þjóðanna séu nefndar, þar sem Íslendingar hafa náð kjöri í æðstu stjórnir.
Íslenska fastanefndin hjá Sameinuðu þjóðunum, sem lotið hefur forystu Þorsteins Ingólfssonar sendiherra síðan 1998, er þegar farin að búa sig undir kosningarnar til öryggisráðsins eftir sex ár. Starfsmönnum er að fjölga til að unnt sé að fylgjast með fleiri þáttum en áður í störfum Sameinuðu þjóðanna. Nái Ísland kjöri í öryggisráðið er líklegt, að allt að sjö starfsmenn þurfi í New York til að halda utan um málefni ráðsins þar og þrjá til fjóra í utanríkisráðuneytinu í Reykjavík.


Margt gerist í alþjóðastjórnmálum til ársins 2008. Ríkisstjórnir innan WEOG-hópsins eiga eftir að breytast. Regla og samfella í alþjóðasamskiptum byggist hins vegar á því, að teknar séu ákvarðanir um kjör í alþjóðlegar nefndir og ráð með skipulegum hætti og góðum fyrirvara.
Besta leiðin fyrir Ísland til að tryggja sér kosningu í öryggisráðið er að afla sér jafnt og þétt vaxandi trausts fram til 2008. Það er auðveldast með því að fylgja ábyrgri stefnu og láta til sín taka í fleiri málaflokkum en gert hefur verið til þessa á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Þetta verður ekki gert nema stilla vel saman krafta þeirra, sem starfa á vegum fastanefndarinnar í New York, og stjórnvalda heima fyrir. Þótt yfirstjórn sé í höndum utanríkisráðuneytisins, er nauðsynlegt að nýta sérþekkingu innan alls stjórnarráðsins til að efla alhliða þátttöku í störfum SÞ.

Ef litið er á málaskrá öryggisráðsins, snerta um 70% viðfangsefna þess Afríku. Virkari þátttaka Íslendinga í starfi SÞ krefst því til dæmis meiri þekkingar á málefnum Afríku. Öryggisráðið fjallar einnig um friðargæslu og beitingu hervalds í nafni SÞ. Fulltrúar innan þess eru lítils megnugir ráði ríkin, sem að baki þeim standa, ekki yfir þekkingu og reynslu á þessum sviðum.


Fimmtán ríki eiga fulltrúa í öryggisráðinu. Fimm eru þar með fast sæti og hafa neitunarvald: Bandaríkin, Bretland, Frakkland, Kína og Rússland. Ofurvald þessara ríkja má rekja beint til loka síðari heimsstyrjaldarinnar og þeirra, sem komu saman í Potsdam til að skipta með sér herfanginu á rústum Þýskalands nasismans.
Öryggisráðið gekk í endurnýjun lífdaga með lyktum kalda stríðsins. Á tímum þess var niðurstaða í ráðinu almennt fyrirsjáanleg, ef skarst í odda milli Rússa og Bandaríkjamanna eða bandamanna þeirra. Nú er annað uppi á tengingnum, þótt neitunarvaldið vegi jafnþungt og áður, er því beitt með öðrum hætti.

Gagnrýnendur Sameinuðu þjóðanna segja það til marks um staðnað Potsdam-hugarfar og tímaskekkju, að þrátt fyrir allar breytingar í alþjóðamálum síðan 1945, sé valdapýramídi samtakanna óbreyttur. Kína tók að vísu hamskiptum innan Sameinuðu þjóðanna á áttunda áratugnum, þegar kommúnistar frá Peking settust í kínverska stólinn í stað fulltrúa frá Taívan. Að kröfu Peking-stjórnarinnar er Taívan haldið utan SÞ.

Nefnd á nefnd ofan hefur fjallað um breytingar á öryggisráðinu og í vikunni voru tillögur þeirrar, sem nú situr, þar sem Þorsteinn Ingólfsson er annar tveggja varaformanna, til umræðu á allsherjarþingi SÞ.

Norðurlöndin eru ekki einu sinni einhuga um, hvernig staðið skuli að því að breyta öryggisráðinu. Svíar vilja, að ríkjum í ráðinu sé fjölgað með því, að fleiri ríkjafulltrúar séu kjörnir í það. Hin Norðurlöndin fjögur vilja, að stækkun ráðsins hefjist á því að fjölga fastafulltrúunum. Tvö iðnvædd ríki til viðbótar fái föst sæti (Þýskaland og Japan?) síðan verði einn fastur fulltrúi frá Asíu (Indland?), frá Suður-Ameríku (Brasilía?) og Afríku (Nígería eða S-Afríka?).



Löngum var rætt um Ísland sem fámennustu þjóð Sameinuðu þjóðanna. Það er liðin tíð. Mörg fámennari ríki eiga þar fulltrúa, eins og Andorra, Liechtenstein og San Marínó frá Evrópu. Á allsherjarþinginu vega atkvæði allra ríkja jafnt, án tillits til íbúafjölda, ríkidæmis eða hernaðarmáttar. Hlustað er jafnt á hina stóru sem smáu og athyglin ræðst ekki síður af því, hvað sagt er en hver segir það.
Ísland er síður en svo einangrað á vettvangi Sameinuðu þjóðanna. Íslensku fulltrúarnir taka þátt í fundum ýmissa ríkjahópa og þrátt fyrir aðild þriggja Norðurlanda að Evrópusambandinu (ESB) hefur mikilvægi norræna samstarfsins ekki minnkað. Sérstaða Íslands utan ESB og án umsóknar um ESB-aðild veldur því, að leitað er til sendiherra Íslands til að leita lausna eða miðla málum á hlutausum forsendum, eins og þegar Þorsteini Ingólfssyni var falið að leita leiða til að tryggja Bandaríkjunum á ný setu í mannréttindanefnd SÞ.

Að eignast fulltrúa í öryggisráðinu verður kostnaðarsamt. Sum auðug ríki skuldbinda sig til aukinna útgjalda til þróunarmála í því skyni að afla sér stuðnings.

Nái íslenska ríkisstjórnin markmiði sínu og komist Ísland í ólympíulið alþjóðastjórnmála, reynir fyrst á innviði íslenska stjórnkerfisins svo um munar. Fulltrúi Íslands verður í forsæti ráðsins að minnsta kosti einn mánuð á kjörtímabili sínu. Íslensk utanríkisstefna og framkvæmd hennar verður mæld með nýjum og strangari hætti en nokkru sinni.

Íslenska utanríkisþjónustan hefur verið að færa út kvíarnar undanfarin ár. Þegar fé er ráðstafað til hennar, þarf að gera upp við sig, hvort eigi að teygja sig víðar eða leggja meiri rækt við það, sem fyrir er, dýpka starfið frekar en breikka. Krafa um meiri dýpt fylgir setu í öryggisráðinu. Áhrif þar eins og annars staðar ráðast af góðum undirbúningi, þekkingu og hæfileika til að kynna skoðun sína.