21.12.2002

"... eins og hver önnur langavitleysa"

Vettvangur í Morgunblaðinu, 21. desember, 2002.

ÖSSUR Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, gekk þannig fram gagnvart Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur borgarstjóra, að miðvikudaginn 18. desember var henni sú leið ein fær, að lýsa yfir framboði sínu í Reykjavík fyrir Samfylkinguna í þingkosningunum 10. maí næstkomandi. Ingibjörg Sólrún sagði, að nú hefði málið borið að með öðrum hætti en um mánaðamótin ágúst/september, þegar hönnuð var atburðarás með skoðanakönnun í nafni vefsíðunnar Kreml.is. Niðurstaða hennar sýndi, að með framboði Ingibjargar Sólrúnar mundi Samfylkingin auka fylgi sitt í þingkosningunum. Nú er sá mikli munur, segir Ingibjörg Sólrún, að kallið kemur innan úr Samfylkingunni! Í september var sagt, að Ingibjörg Sólrún hefði sjálf átt þátt í hönnun atburðarásarinnar.

 

Fyrir Össur Skarphéðinsson skipti miklu að koma flokki sínum úr þeirri klípu, sem myndaðist vegna umræðnanna um þingframboð Ingibjargar Sólrúnar eftir skoðanakönnunina. Þá settu þeir Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, og Steingrímur J. Sigfússon, formaður vinstri/grænna, hnefann í borðið og sögðu hingað og ekki lengra. Í nafni R-listans útilokuðu þeir einn öflugasta Samfylkingar-stjórnmálamanninn frá því að bjóða sig fram til þings.

Erfitt var fyrir Samfylkinguna að kyngja þessari niðurstöðu, enda sýndi hún, að vinstri/grænir og framsókn höfðu einskonar yfirflokkslegt vald yfir henni. Samfylkingarmenn dreifðu athygli frá niðurlægingunni með því að velta fyrir sér í fjölmiðlum, hvort Ingibjörg Sólrún gæti orðið ráðherra fyrir Samfylkinguna, þótt hún byði sig ekki fram til þings.

Niðurstöður skoðanakönnunar Kreml.is voru birtar 2. september en hinn 10. september gaf Ingibjörg Sólrún yfirlýsingu, þar sem hún sagðist ekki mundu bjóða sig fram til þings vorið 2003. "Niðurstaða mín er sú," segir í yfirlýsingunni, "að ekkert það hafi gerst á vettvangi stjórnmálanna sem knýi á um að ég breyti þeirri afstöðu sem ég tók í vor og söðli um." Nauðsynlegt er að hafa þessi orð í huga, þegar rýnt er í ummæli Ingibjargar Sólrúnar núna, þar sem hún heldur því enn fram, að hún hafi ekki "söðlað um", þótt hún hafi nú ákveðið að bjóða sig fram til þings, andstætt yfirlýsingu sinni 10. september. Í samtali við Morgunblaðið 11. september sagði hún: "Ég sagði í vor að ég stefndi ekki að þingframboði og ég endurtek það núna. Ég hef í sjálfu sér engu við þetta að bæta. Og að halda áfram endalausum vangaveltum um einhverja óræða framtíð er eins og hver önnur langavitleysa."

 

Í leiðara Morgunblaðsins 11. september síðastliðinn sagði um ákvörðun Ingibjargar Sólrúnar: "Með þessu svari hefur borgarstjóri styrkt persónulega stöðu sína sem stjórnmálamaður sem stendur við orð sín. Hún gaf kjósendum mjög afdráttarlaus loforð um það í vor að hún yrði áfram borgarstjóri og sneri sér ekki að öðru snemma á kjörtímabilinu. Hún gengur ekki á bak þeirra orða sinna, þótt hún hafi fengið upp í hendurnar freistandi tækifæri til að láta til sín taka á vettvangi landsmálanna eftir níu ára starf sem borgarstjóri. Vafalaust hefðu ýmsir aðrir stjórnmálamenn gripið þetta tækifæri, jafnvel þótt þeir hefðu þar með lent í mótsögn við sjálfa sig."

 

Í tilefni af þessum leiðara ritaði Jón Steinar Gunnlaugsson, hæstaréttarlögmaður og prófessor, grein í Morgunblaðið 12. september og sagði:

"Þá vaknar spurningin: Um hvað var hún Ingibjörg Sólrún að hugsa undir feldinum? Var ekki málið einfalt? Hún hafði sagt fyrir borgarstjórnarkosningar að hún færi ekki í þetta framboð. Einhverjir hafa sjálfsagt greitt R-listanum atkvæði vegna þeirrar yfirlýsingar. Var ekki einfalt fyrir hana að svara því strax og þessar hugleiðingar komu fram, að þetta kæmi ekki til greina af þeirri einföldu ástæðu, að hún hefði gefið yfirlýsingu þar að lútandi síðasta vor? Það skyldi þó ekki vera að hún hafi verið að hugleiða, að svíkja loforðið? Var um eitthvað annað hugsað undir feldinum?

Það er svo kannski einkennandi fyrir samfélagsleikritið, að menn skuli telja það til sérstakra verðleika stjórnmálamanns að standa við orð sín, jafnvel þó að það taki hann einhverjar vikur að ákveða hvort hann ætli að gera það."

Á meðan Ingibjörg Sólrún Gísladóttir lá undir feldinum eða hinn 7. september 2002 birtist grein eftir Dag B. Eggertsson, óflokksbundinn borgarfulltrúa R-listans, sem var handvalinn af Ingibjörgu Sólrúnu á listann. Sagðist hann þess fullviss, að Ingibjög Sólrún færi ekki í þingframboð. Hann rökstuddi það með þessum hætti:

"Ástæða þess að ég tel nær útilokað að Ingibjörg Sólrún fari fram til Alþingis er einföld. Skýrar yfirlýsingar hennar um hið gagnstæða í borgarstjórakosningunum í vor. Það eru ekki aðeins pólitískir andstæðingar sem vilja höggva í trúverðugleika hennar sem spyrja hvort þær yfirlýsingar standi ekki heldur einnig margt af harðasta stuðningsfólki hennar. Þessi spurning skiptir lykilmáli þar sem pólitískur styrkur Ingibjargar Sólrúnar byggist ekki síst á trúverðugleika. Styrk hennar til að fylgja eigin sannfæringu."

Eftir að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir hafði lýst yfir framboði sínu til þings fyrir Samfylkinguna vitnaði Morgunblaðið hinn 19. desember í leiðara sínum til þess, sem blaðið hafði sagt 11. september um, að borgarstjóri hefði styrkt persónulega stöðu sína sem stjórnmálamaður sem stæði við orð sín og gengi ekki á bak orða sinna, þrátt fyrir freistandi tilboð. Hinn 19. desember hafði Morgunblaðið skipt um skoðun á heilindum borgarstjóra og sagði:

"Þetta mat á afstöðu borgarstjórans á augljóslega ekki við lengur. Hún segir nú, að hún muni áfram verða borgarstjóri, jafnvel þótt hún setjist á þing. Að hún sinni áfram starfi borgarstjóra er hins vegar ekki það eina, sem skiptir máli gagnvart kjósendum Reykjavíkurlistans. Stór hluti þeirra kýs ekki Samfylkinguna í þingkosningum, heldur Vinstrihreyfinguna - grænt framboð eða Framsóknarflokkinn. Margir þeirra hafa væntanlega litið svo á að loforð borgarstjórans næðu einnig til þess að hún færi ekki að beita sér gegn þeirra flokkum í landsmálapólitíkinni."

 

 

Morgunblaðinu brá ekki einu við umsnúning Ingibjargar Sólrúnar og breytti um álit á henni. Undrunin var ekki minni hjá samherjum hennar í R-listanum. Hún ákvað framboðið að eigin sögn í samtali við Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, um síðustu helgi og tilkynnti Össur framboðið opinberlega á sama tíma og borgarstjóri sat á fundi með borgarmálaráði R-listans, lét hún þar eins og það væri ekki fullákveðið, hvort hún byði sig fram eða ekki. Þannig talaði hún einnig við sjónvarps- og útvarpsstöðvar um klukkan 18.00 miðvikudaginn 18. desember en tók síðan af skarið opinberlega í Kastljósi sjónvarpsins rúmum klukkutíma síðar. Athyglisvert er, að Stefán Jón Hafstein, borgarfulltrúi og formaður framkvæmdastjórnar Samfylkingarinnar, segist ekki hafa vitað um að framboðið væri á döfinni, fyrr en á fundi borgarmálaráðsins.

 

Engu er líkara en Ingibjörg Sólrún hafi ekki áttað sig á því, fyrr en eftir borgarmálaráðsfundinn, að Össur Skarphéðinsson hafði tekið af henni frumkvæðið í framboðsmálunum, sagt frá fundum þeirra og niðurstöðunni. Mótmæli innan borgarmálaráðsins vógu ekki eins þungt og orð Össurar.

Það var hins vegar þungt hljóð í forystumönnum Framsóknarflokksins og vinstri/grænna á blaðamannafundi í hádeginu á fimmtudag, þegar þeir kynntu sameiginlega yfirlýsingu þess efnis, að Ingibjörg Sólrún yrði að velja á milli þess að vera í framboði til þings fyrir Samfylkinguna eða sitja í embætti borgarstjóra.

Lönguvitleysunni um framboð Ingibjargar Sólrúnar fyrir Samfylkinguna er ekki enn lokið. Nú hefjast viðræður R-listamanna um afleiðingar ákvörðunar Össurar og Ingibjargar Sólrúnar. Össur segist undrandi á hörðum viðbrögðum forystumannanna, sem settu hnefann í borðið í september.

Hér var síðasta laugardag greint frá Landsvirkjunaruppnáminu í Ráðhúsinu vegna Kárahnjúkavirkjunar. Allt er enn óvíst um styrk R-listans til að leiða það mál til lykta, en til að framvinda samningagerðar við Alcoa sé snurðulaus, þurfa íslenskir samningamenn að hafa vitneskju um afstöðu borgarstjórnar fyrir 10. janúar 2003.

 

Næstu sólarhringa þarf R-listinn ekki aðeins að leita leiða til að ljúka lönguvitleysunni í framboðsmálum Ingibjargar Sólrúnar og skapa traust og trúverðugleika um framkvæmdastjórn Reykjavíkur. R-listinn verður á sama tíma að komast að niðurstöðu um stefnu sína gagnvart Kárahnjúkavirkjun og ábyrgð Reykjavíkurborgar sem 45% eiganda Landsvirkjunar.