30.1.2003

Ingibjörg Sólrún kvödd

Borgarstjórnarfundur 30. janúar, 2003.


Við brotthvarf Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur úr stóli borgarstjóra verða þáttaskil í sögu borgarinnar. Í mínum huga er það skref aftur á bak, þegar borgarstjóri með atkvæðisrétti víkur fyrir embættismanni. Ég er sammála því mati Ingibjargar Sólrúnar frá því fyrir níu árum, þegar R-listinn var að fæðast, að borgarstjóri án atkvæðisréttar og án þess að vera pólitískur leiðtogi þess hóps, sem stendur honum að baki hér í borgarstjórn, er verr settur en sá, sem hefur ótvírætt pólitískt umboð.

Ingibjörg Sólrún orðaði þetta ágætlega þegar hún sagði í Morgunblaðsviðtali fyrir kosningarnar síðastliðið vor:


„Fyrir því er pólitísk hefð að borgarstjórnarkosningar í Reykjavík séu líka borgarstjórakosningar. Við sem erum í framboði til borgarstjóra erum tákngervingar fyrir ákveðna pólitík, ákveðnar hugmyndir, og það er mjög mikilvægt að fólk tengi saman einstaklinga, hugmyndir og stefnu. Borgarstjórinn í Reykjavík er samnefnari fyrir þann hóp sem býður sig fram til þess að stjórna borginni.“


Ég hef aldrei farið í launkofa með, að okkur Ingibjörgu Sólrúnu greinir á í stjórnmálum. Pólitísk sýn okkar er gjörólík. Við trúum því hins vegar bæði eins og allir, sem taka þátt í stjórnmálastarfi, hljóta að gera, að stefna okkar og störf miði að því að bæta þjóðfélagið og styrkja stöðu Íslands í samfélagi þjóðanna.  Án þess að hafa þá sýn á enginn að bjóða sig fram til stjórnmálastarfa.


Ingibjörg Sólrún hefur valið aðra leið við stjórn Reykjavíkurborgar en við sjálfstæðismenn hefðum farið. Hún getur hins vegar fagnað því því að hafa notið óskorað trausts samherja sinna hér á vettvangi borgarstjórnar, þar til hún ákvað að hasla sér nýjan völl á hinum pólitíska vettvangi með því að bjóða sig fram til þings.


Raunar er of fast að orði kveðið, þegar ég segi nýjan völl, því að við sátum saman á alþingi árin 1991 til 1994, eða þar til hún sagði af sér þingmennsku til að setjast í stól borgarstjóra. Þess vegna kom mér á óvart, að hún taldi sér fært nú í desember að vera í senn í þingframboði og sitja sem borgarstjóri. – Að vísu var þá spurt, hvað er þingframboð, en dugði ekki til áframhaldandi setu sem borgarstjóri.


Ef til þess kemur, að við Ingibjörg Sólrún setjumst aftur saman á þing að loknum kosningum í vor, er líklegt, að einhverjir úr öðrum flokkum en Samfylkingunni, sem hafa stutt hana dyggilega hér sem borgarstjóra, eigi um sárt að binda vegna úrslitanna.


Fyrir hönd okkar sjálfstæðismanna kveð ég Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, þegar hún segir af sér embætti borgarstjóra, með virðingu fyrir því, að henni hefur tekist að halda R-listanum saman í þessi ár. Ég vil jafnframt bjóða hana velkomna á landsmálavettvanginn, þar sem hún berst nú undir skýrum flokksmerkjum. Það er til marks um ótvíræðan baráttuvilja í stjórnmálum, að Ingibjörg Sólrún snýr sér aftur að þingmennsku og nú fyrir Samfylkinguna í stað Kvennalistans áður.


Störf borgarstjóra krefjast mikils af þeim og fjölskyldu þess, sem situr í embættinu. Enginn gegnir þessu starfi nema annað verði að víkja og allir kraftar og starfsorka séu helgaðir því. Undir þeim merkjum hefur Ingibjörg Sólrún starfað sem borgarstjóri í tæp níu ár og því færi henni, Hjörleifi, eiginmanni hennar, og sonum þeirra þakkir fyrir þann tíma, sem þau hafa helgað sig málefnum Reykjavíkurborgar.