11.3.2003

Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld?

Varðbergsfundur, Hótel Sögu, 11. mars, 2003.

 


 


 



 


 


Ríkasta skylda stjórnvalda hvers lands er að gera ráðstafanir í þágu öryggis borgara sinna. Og við komum hér saman í dag til að svara spurningunni: Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld? Vil ég þakka stjórn Varðbergs fyrir að boða til fundar um þessa spurningu. Það á ætíð að vera okkur öllum til íhugunar, hvort nóg sé að gert á þessu sviði.


 


Þegar leitast er við að svara spurningunni er í senn nauðsynlegt að meta öryggishagsmuni þjóðarinnar við núverandi aðstæður og draga lærdóm af sögunni.


 


Á tuttugustu öld varð mesta breyting á högum íslensku þjóðarinnar, frá því að saga hennar hófst. Tvær heimsstyrjaldir byltu stöðu þjóða og ríkja. Íslendingar hættu að geta treyst á fjarlægð frá öðrum þjóðum sem besta úrræði til að tryggja öryggi sittgagnvart þeim.


 


Í sambandslagasáttmálanum, sem árið 1918 veitti Íslendingum fullveldi í konungssambandi við Dani, var lýst yfir ævarandi hlutleysi Íslands. Þór Whitehead prófessor telur, að saga Napóleonsstríðanna rúmum hundrað árum áður hafi kennt Íslendingum, að þeir gætu lifað í friði við Breta, þótt Danir ættu í stríði við þá. Með hlutleysisyfirlýsingunni 1918 hafi Íslendingar óbeint staðfest, að þeir væru á bresku valdasvæði. Bretaveldi væri í raun og veru eina stórveldið, sem hugsanlegt væri að tæki landið.


 


Við fullveldið varð stjórn landsins að móta sér stefnu í utanríkismálum, þótt framkvæmd hennar væri áfram í höndum Dana. Við hernám Danmerkur vorið 1940 fluttist gæsla þessara hagsmuna inn í landið og þegar Bretar hernámu Ísland 10. maí 1940, mótmælti ríkisstjórn Íslands en forsætisráðherrann hvatti landsmenn jafnframt til að líta á hernámsliðið sem gesti. Sumarið 1941 var síðan samið milli ríkisstjórna Íslands, Bretlands og Bandaríkjanna um, að bandarískur her tæki við vörnum Íslands af Bretum og var það fyrsta skref Bandaríkjamanna inn í síðari heimsstyrjöldina. Með samningnum færðist Ísland jafnframt af valdasvæði Breta inn á valdasvæði Bandaríkjamanna. Á tímum kalda stríðsins mynduðu Bandaríkjamenn mótvægi gegn útþenslu Sovétmanna á Norður-Atlantshafi og gegndi Ísland þar lykilhlutverki frá hernaðarlegu tilliti.


 


Hernaðarþróunin á hafsvæðunum umhverfis Ísland í kalda stríðinu sýndi, hve óraunsæjar hugmyndir þeirra Íslendinga voru eftir síðari heimsstyrjöldina, sem héldu að land þeirra gæti orðið hlutlaust að nýju. Ekki þyrfti  að gera aðrar ráðstafanir til að tryggja öryggi Íslands en segja þjóðina standa utan hugsanlegra átaka.


 


Með stofnaðild að Atlantshafsbandalaginu árið 1949 og varnarsamningi við Bandaríkin árið 1951, var öryggi íslensku þjóðarinnar tryggt. Stóðst stefnan, sem mótuð var með þessum ákvörðunum, átök innan lands og áreiti utan frá í þá fjóra áratugi, sem liðu, þar til öryggiskerfið tók á sig gjörbreytta mynd með hruni Sovétríkjanna.


 


Í upphafi síðasta áratugar 20. aldar, var gerð úttekt á stöðu Íslands í öryggis- og varnarmálum á vegum ríkisstjórnarinnar. Niðurstaða hennar varð sú, að áfram skyldi haldið virkri þátttöku í Atlantshafsbandalaginu og lögð rækt við tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin á grundvelli samningsins frá 1951, þrátt fyrir upplausn valdakerfis kommúnista í Evrópu.


 


Nú tíu árum eftir að þessi úttekt var gerð er þetta enn hornsteinn stefnu Íslands í varnarmálum. Er víðtæk pólitísk samstaða um stefnuna. Má því spyrja, hvort ástæða sé til að ræða málið frekar, hvort með þessari skipan hafi ekki fundist lausn, sem dugar þjóðinni bæði á tímum kalda stríðsins og eftir að því lauk.


 


Umræður um íslensk öryggismál eru sérstakar vegna þess, að margir líta þannig á, að þau séu frekar vandamál annarra en okkar sjálfra. Þau snúist um afstöðu til Bandaríkjanna og umsvifa þeirra frekar en um það, sem gerist hér á landi eða í næsta nágrenni okkar og hvernig íslensk stjórnvöld geti brugðist við, ef hætta er á ferðum.


 


Hafi saga 20. aldarinnar átt að kenna eitthvað, er það að vanmeta ekki grimmd og eyðingarmátt mannsins. Þeir tímar, sem við lifum núna, hafa leitt í ljós nýjar hættur, annars konar átök en áður voru þekkt og af ástæðum, sem komust ekki að í huga okkar, þegar deilt var um ágæti kapítalisma eða kommúnisma.


 


Að sjálfsögðu leyfist okkur Íslendingum ekki frekar en öðrum að hafa að engu viðvaranir um nýjar hættur, sem steðja að öryggi þjóða. Við hljótum að bregðast við þeim til að gæta eigin hagsmuna og einnig með því að líta til þess, sem bandamenn okkar í Evrópu og Norður-Ameríku eru gera.


 


Eftir árásirnar á New York og Washington 11. september 2001 hefur Bandaríkjastjórn tekið upp gjörbreytta stefnu til varnar Bandaríkjunum. Á núverandi fjárlagaári verja Bandaríkjamenn 40 milljörðum dollara til að efla það, sem þeir kalla homeland security eða öryggi íbúa og stjórnvalda í Bandaríkjunum sjálfum. Evrópuþjóðir hafa ekki gripið til samræmdra aðgerða með sama hætti gegn hættunni af árásum hryðjuverkamanna. Líklegt er, að þær sigli í kjölfar Bandaríkjamanna, því að öflugri bandarískar heimavarnir gegn hryðjuverkamönnum kunna að auka áhuga þeirra á að láta illt af sér leiða í Evrópu, ef viðbúnaður þar er minni.


 


Í gær dæmdi þýskur dómari fjóra Alsírbúa í 10 til 12 ára fangelsi fyrir áform um að setja sprengju á jólamarkaðinn í Strassborg í Frakklandi fyrir rúmum tveimur árum. Sumir hinna dæmdu játuðu að hafa hlotið þjálfun í æfingabúðum í Afganistan, sem talið er, að hafi lotið stjórn al-Qaeda, það er manna Osama bin Ladens. Tilgangur hryðjuverksins var að ala á ótta í Frakklandi og Evrópu.


 


Það er því ekki unnt að draga nein skil á milli öryggishagsmuna Bandaríkjamanna annars vegar og Evrópuþjóða hins vegar, þegar staðið er andspænis hryðjuverkamönnum á borð við al-Qaeda.


 


Okkur Íslendingum er tamt að hugsa um þessi ógnarverk sem fjarlægt vandamál annarra. Engu að síður komum við að stefnumótandi ákvörðunum um viðbrögð við hættunni af þeim bæði á vettvangi Atlantshafsbandalagsins og einnig í samstarfi við Evrópusambandsríkin meðal annars vegna aðildar að Schengen-samstarfinu.


 


Leiðtogar NATO-ríkjanna, þeirra á meðal Davíð Oddsson og Halldór Ásgrímsson, komu saman í Prag í nóvember á síðasta ári. Fyrir þá var lagt mat á hættunni, sem steðjaði að aðildarþjóðunum og síðan samþykktu þeir, hvernig við hættunni skyldi brugðist.


 


Ríkisstjórnir NATO-ríkjanna ætla að auka getu sína til að standast ógn sem steðjar af efnavopnum, sýklavopnum, geislavopnum og kjarnorkuvopnum; þær ætla að auka hæfni sína til njósna og eftirlits. Þær ætla að snúast harkalega gegn hryðjuverkum, enda eru þau talin mikil og vaxandi ógn við þjóðir bandalagsins auk þess að ógna alþjóðlegu öryggi. Lögð er áhersla á almannavarnir til að búa almenning betur gegn hugsanlegum árásum með efna,- sýkla eða geislavopnum, auk þess sem beinar varnaraðgerðir gegn þessum vopnum verði efldar. Þá er lögð áhersla á að NATO-ríkin geri auknar ráðstafanir til að verjast árásum á tölvu- og upplýsingatæknikerfi innan landamæra sinna.


 


Hér er aðeins drepið á fáein atriði úr þessari álytkun en þau sýna, að því fer víðs fjarri, að á vettvangi NATO telji menn ástæðu til að setjast með hendur í skaut, þegar öryggi aðildarþjóðanna er annars vegar. Þvert á móti er sagt, að hættur, sem ógna aðildarþjóðunum séu jafnvel meiri nú en á tímum kalda stríðsins.


 


Eftir Prag-fundinn urðu töluverðar umræður hér um hlut okkar í eigin öryggisgæslu og framlag Íslands til sameiginlegra varna. Drógu áform um, að íslenskar flugvélar yrðu til taks á kostnað ríkissjóðs, ef hættuástand skapaðist helst, að sér athygli. Fráleitt er að líta þannig á, að þessar vélar yrðu þátttakendur í beinum hernaðaraðgerðum. Þær eru ekki til þess búnar og flugmenn þeirra hafa ekki hlotið þjálfun í samræmi við slíkar kröfur. Ætlunin er, að vélarnar létti sem flutningavélar undir með þeim þjóðum, sem senda herafla á vettvang, auk þess að taka þátt í birgða- og lyfjaflutningi.


 


Hættumatið, sem kemur fram í ályktun leiðtogafundar NATO í Prag, nær ekki síður til Íslands en annarra NATO-landa. Skyldan til að taka til hendi í samræmi við ályktunina á ekki síður við ríkisstjórn Íslands en ríkisstjórnir annarra aðildarlanda. Við eigum ekki síður en aðrir að láta athafnir fylgja orðum.


 


Hér að framan gat ég um, hve rösklega Bandaríkjamenn hefðu tekið á eigin öryggismálum eftir árásirnar 11. september 2001. Austan við okkur við Norður-Atlantshaf, í Noregi, hefur ekki síður verið staðið skipulega að verki í varnar- og öryggismálum. Norska stórþingið gerir ráð fyrir að 118 milljörðum norskra króna, það er 16 milljörðum Bandaríkjadala, verði varið til þessa málaflokks frá 2002 til 2005. Þar er um nálægt  12% nettóaukningu að ræða frá næstu fjórum árum á undan. Þetta eru mestu útgjöld sem Norðmenn hafa veitt hafa til varnarmála um langt árabil, jafnvel nokkurn tíma. Á bakvið þessa ákvörðun standa norsku stjórnarflokkarnir þrír auk Verkamannaflokksins, helsta stjórnarandstöðuflokksins. Fjórir flokkar styðja því samkomulagið og ætti það að tryggja stuðning meirihluta þingsins við aukin útgjöld til varnarmála, jafnvel þótt komi til stjórnarskipta.


 


Í Noregi hafa stjórnmálaflokkarnir með öðrum orðum komið sér saman um framtíðarstefnu, fjárveitingar og aðgerðir til að treysta öryggi lands síns við nýjar aðstæður. Í þeim ríkjum, þar sem menn leggja opinbert fé til varnarmála er óhjákvæmilegt að gera það á grundvelli hættumats og rökstuddra áætlana.


 


Öryggismál Íslands eru aldrei rædd undir þessum formerkjum á alþingi. Okkur Íslendingum er framandi að ræða um eigið öryggi með vísan til opinberra útgjalda. Engar sambærilegar umræður hafa því miður farið fram hér á landi og meðal nágranna okkar austan og vestan Norður-Atlantshafs um nauðsyn þess að endurmeta stöðu okkar í öryggismálum og hugsanlega leggja meira fé til þeirra.


 


Af þessu má ekki ráða, að hér á landi séu stjórnmálamenn ekki í stakk búnir til að fjalla um öryggismál eða geti ekki leitað sérþekkingar innan íslenska stjórnkerfisins vegna þeirra mála. Svo er ekki, þótt við séum í öðrum sporum en aðrar þjóðir í þessu tilliti, vegna þess að við höfum ekki falið neinum innan íslenska stjórkerfisins að verja landið gegn ytra áreiti með sama hætti og herafli annarra þjóða gerir í þeirra þágu.


 


Spurningin: Hvernig tryggjum við varnir Íslands á 21. öld? byggist á þeirri forsendu, að við getum ekki verið varnarlaus og er ég sammála þeirri meginskoðun. Við getum ekki horfið aftur til tímans, þegar treyst var á fjarlægðina. Við lifum ekki lengur á tímum, þegar menn virtust sæmilega sáttir við, að Bretaveldi væri í raun og veru eina stórveldið, sem hugsanlega kynni að taka landið.


 


Spurningunni: Hvernig tryggjum við varnir Íslands? svara ég á þennan hátt í sjö liðum:


 


1.     Með varnarsamstarfi við Bandaríkin. Með því eru tryggð tengsl milli gæslu íslenskra öryggishagsmuna og öflugasta ríkis við Norður-Atlantshaf.


2.     Varnarsamningurinn við Bandaríkin frá 1951 hefur ekki gildi nema með rökum sé sýnt fram á, að gerðar séu ráðstafanir til að sinna skyldum í samræmi við efni hans. Það verður ekki gert nema unnt sé að fylgjast með skipaferðum við Ísland, halda uppi vörnum í lofthelgi Íslands, hafa tiltækar áætlanir um varnir landsins og æfa framkvæmd þeirra. Einnig þarf að sýna með áætlunum og viðbúnaði, hvernig unnt er að tryggja öryggi þeirra, sem lenda í lífsháska á Íslandi eða í nágrenni við landið.


3.     Gera á nýtt hættumat til að tryggja, að almannavarnir séu í samræmi við vel skilgreindar kröfur. Grunnurinn að almannavörnum ríkisins var lagður í upphafi sjöunda áratugarins, þegar hræðslan við kjarnorkuárás var mikil. Nú eru aðrir tímar og nauðsynlegt að meta með skipulegum hætti þörf á viðbrögðum. Þetta verður aðeins gert að frumkvæði íslenskra stjórnvalda og með hliðsjón af þróun alþjóðamála, eins og til dæmis aðgerðum á vettvangi NATO.


4.     Hlutverk, skipulag og tækjakost Landhelgisgæslunnar á að endurnýja á grundvelli nýs mats á verkefnum hennar við gjörbreyttar aðstæður.


5.     Tryggja ber, að lögreglan geti lagað sig að nýjum aðstæðum með virkri þátttöku í auknu alþjóðlegu samstarfi.


6.     Meta þarf hættur, sem Íslandi, þar með stjórnkerfi og mannvirkjum, kann að stafa af hermdar- og hryðjuverkastarfsemi, skipulagðri glæpastarfsemi og útbreiðslu gereyðingarvopna. Mikilvægt er, að stjórnvöld hafi sem mesta burði til að fylgjast með og bregðast við starfsemi öfgahópa og geri nauðsynlegar ráðstafanir með þjálfun mannafla í því skyni.


7.     Taka ber þátt í alþjóðlegum herlögreglusveitum Atlantshafsbandalagsins, Sameinuðu þjóðanna eða annarra alþjóðastofnana í þágu friðagæslu. Sérþjálfun lögreglu og öryggissveita við verkefni af þessu tagi nýtist íslenskum stjórnvöldum við varnarstörf gegn hermdar- og hryðjuverkum heima fyrir.


 


Fundarstjóri!


 


Íslendingum er skylt sem sjálfstæðri þjóð  að sýna og axla ábyrgð í varnar- og öryggismálum, annars eru þeir ekki fullgildir þátttakendur í samfélagi þjóðanna. Umræður um aukinn hlut okkar í eigin vörnum er hluti af þróun í þessu efni, þar sem aldrei má ríkja stöðnun og ávallt verður að skoða alla kosti til hlítar.  Verkefnum í þágu eigin varna verður ekki sinnt, nema hugað sé að því að þjálfa Íslendinga til öryggisstarfa.


Gæsla öryggishagsmuna íslensku þjóðarinnar er varanlegt viðfangsefni og á ekki meta nauðsyn hennar á forsendum einstakra viðburða á alþjóðavettvangi. Slíkir atburðir veita okkur hins vegar svör við því, hvernig öryggisins sé best gætt hverju sinni. Með því að treysta áfram á tvíhliða varnarsamstarf við Bandaríkin innan vébanda NATO og huga jafnframt enn frekar að eigin hlutdeild í gæslu innra öyggis er íslensku þjóðinni best borgið í þessum efnum.