24.5.2003

Söguleg tíðindi við stjórnarmyndun

Vettvangur í Morgunblaðinu, 24. maí, 2003,

Söguleg tíðindi gerðust í vikunni, þegar Davíð Oddsson sagðist mundu víkja sem forsætisráðherra 15. september árið 2004 fyrir Halldóri Ásgrímssyni, formanni Framsóknarflokksins. Voru þetta í raun meiri stjórnmálatíðindi en þau, að þeim Davíð og Halldóri tókst á rúmri viku að komast að samkomulagi um nýjan stjórnarsáttmála, sem setur ríkisstjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks rammann næstu fjögur árin.

Að flokksformennirnir næðu saman um myndun nýrrar stjórnar og framlengdu þannig átta ára farsælt samstarf flokka sinna um fjögur ár, er vissulega sögulegur viðburður. Einnig hitt, að Davíð Oddsson leiðir nú stjórnarmyndunarviðræður í fjórða sinn og lýkur þeim með samkomulagi á skömmum tíma. Hvort tveggja fellur þó í skuggann fyrir þeirri ákvörðun Davíðs, að boða afsögn sína sem forsætisráðherra.

Davíð Oddsson varð forsætisráðherra 30. apríl árið 1991. Í senn er einsdæmi, að sami maður sitji jafnlengi sem forsætisráðherra hér og hann hefur gert, og einnig hitt, að frá því að hann tók við umboði til að mynda stjórn eftir kosningarnar 20. apríl 1991 hefur hann haldið því umboði með stuðningi þings og þjóðar eftir þrennar þingkosningar, 1995, 1999 og 2003.

Þegar Davíð varð forsætisráðherra, hafði hann ekki verið formaður Sjálfstæðisflokksins nema í fáeinar vikur, eða síðan 10. mars 1991. Bauð hann sig þá fram á landsfundi gegn Þorsteini Pálssyni, formanni flokksins, og hafði betur eftir harðan slag og leiddi svo flokkinn síðustu vikurnar fyrir kosningar. Davíð hafði aldrei setið á þingi, áður en hann varð forsætisráðherra, og hann hefur aldrei setið á þingi nema sem forsætisráðherra. Er óhætt að segja, að það hljóti að vera einstæð reynsla að kynnast aðeins störfum þingsins úr þeim stóli.

Samskipti Davíðs við þingmenn bæði í eigin flokki og í öðrum flokkum eru almennt góð og stjórnarfrumvörp hafa runnið í gegnum þingið, stundum eins og á færibandi, í forsætisráðherratíð hans.

Í stjórnarsamvinnu Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks er ekki fordæmislaust, að samið sé um að framsóknarmaður sé forsætisráðherra gegn því, að sjálfstæðismenn eigi meirihluta ráðherra í ríkisstjórninni. Að vísu skiptir litlu á ríkisstjórnarfundi, hvort ráðherrar eru fleiri eða færri frá einum stjórnarflokkanna en öðrum, því að þar greiða menn ekki atkvæði eins og í stjórn félags eða í nefnd. Ákvarðanir ríkisstjórnarinnar eru ekki teknar með atkvæðagreiðslu, enda á hver ráðherra stjórnskipulega síðasta orðið á sínu verksviði. Fleiri málaflokkar falla hins vegar almennt í skaut þess flokks, sem á flesta ráðherra, og þar með meiri pólitísk ábyrgð og vigt. Fyrir 20 árum eða 26. maí 1983 gengu Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur til stjórnarsamstarfs. Þá var málum þannig háttað, að Geir Hallgrímsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, hafði ekki náð kjöri á þing í Reykjavík, enda í sjöunda sæti á lista flokksins. Sjálfstæðisflokkurinn hlaut þá 38,7% atkvæða og 23 þingmenn og var talinn sigurvegari kosninganna, þótt fall Geirs brygði skugga á sigurinn. Framsóknarflokkurinn tapaði verulega í þessum kosningum, fylgið minnkaði úr 24,9% í 18,5% og þingmönnum fækkaði úr 17 í 14. Geir Hallgrímsson lagði til við þingflokk sjálfstæðismanna 25. maí 1983, að Sjálfstæðisflokkurinn færi með forsætið í stjórn með Framsóknarflokknum. Tók hann það fram, að staða forsætisráðherra væri ekki bundin við sig. Samkvæmt þeim kosti átti Sjálfstæðisflokkurinn að hafa fimm ráðherra og sex ráðuneyti. Hinn kosturinn var, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði sex ráðherra og sjö ráðuneyti, en Framsóknarflokkurinn færi með forsæti ríkisstjórnarinnar, hefði fjóra ráðherra og fimm ráðuneyti. Í grein um Geir Hallgrímsson í Andvara árið 1994 segir Davíð Oddsson um það, sem síðan gerðist: "En nú var komið annað hljóð í þingmenn Sjálfstæðisflokksins en árið 1974, þegar þeir stóðu frammi fyrir svipuðum kostum, þá varð Geir forsætisráðherra í ríkisstjórn sjálfstæðis- og framsóknarmanna. Eftir að Geir Hallgrímsson hafði vikið af fundi, var gengið til atkvæða um tillögu hans, og urðu úrslit þau, að 9 þingmenn vildu samþykkja hana, en 13 kusu hinn kostinn, að Sjálfstæðisflokkurinn afsalaði sér forsætisráðuneytinu gegn því að fá fleiri ráðherrastóla og ráðuneyti. Hringdi Matthías Á. Mathiesen, sem þá stjórnaði fundi þingflokksins, til Geirs, þar sem hann var staddur á ritstjórnarskrifstofu Morgunblaðsins og tilkynnti honum þessi úrslit. Þessi skammsýna afstaða þingflokksins varð honum mikil vonbrigði." Við stjórnarmyndunina núna horfðu mál öðru vísi við en fyrir 20 árum, enda hefur Sjálfstæðisflokkurinn verið í stjórnarforystu í 12 ár og hafði Davíð Oddsson frumkvæði að því að nefna hugmyndina um forsætisráðherrastól fyrir Halldór Ásgrímsson.

Tillaga Davíðs um að Halldór Ásgrímsson yrði forsætisráðherra 15. september 2004 var samþykkt samhljóða en með "pirringi", svo að vitnað sé til orða Davíðs við blaðamenn að loknum þingflokksfundi sjálfstæðismanna miðvikudaginn 21. maí. Skýrði hann ákvörðun sína á þann hátt, að fyrst og fremst sanngirnisrök lægju fyrir því að hafa þennan hátt á skiptingu ráðuneyta. Sjálfstæðismenn og framsóknarmenn hefðu starfað mjög vel saman í átta ár og væru að leggja á djúpið fyrir önnur fjögur. Halldór Ásgrímsson, formaður Framsóknarflokksins, hefði verið ráðherra í 16 ár með miklum ágætum og starfað í mörgum ráðuneytum. Sanngirnisrök mæltu með því í svona löngu samstarfi, þar sem trúnaður ríkti, að formaður hins stjórnarflokksins fengi einnig notið æðsta trúnaðar í samstarfinu.

Davíð Oddsson hefur í umræðum um forsætisráðherraskiptin fyrirhuguðu einnig minnt á, að við næstu kosningar muni Sjálfstæðisflokkurinn óska umboðs til að verða forystuflokkur í ríkisstjórn eftir 16 ára samfellda setu þar. Það muni styrkja flokkinn við að sækja fram þá, að ekki sé sama svipmótið á forsæti í ríkisstjórn og hefði verið að óbreyttu.

Fyrir utan að semja um skipti á forsætisráðherra er hitt einnig nýmæli, að við upphaf stjórnarsamstarfs semji flokkar um breytingu á ríkisstjórn á kjörtímabilinu. Hafa áform um slíkt jafnframt reynst erfiðari í framkvæmd en menn hafa ætlað. Á sjöunda áratugnum störfuðu Sjálfstæðisflokkur og Alþýðuflokkur saman í 12 ár í viðreisnarstjórninni. Þá héldu flokkarnir sömu ráðuneytum allan tímann, þótt skipt væri um ráðherra. Fannst ýmsum þá, að æskilegt væri að færa ráðuneyti á milli flokka. Tregðulögmálið er ríkt, þegar að slíkum ákvörðunum kemur. Nú eru breytingarnar hins vegar fastmælum bundnar og Sjálfstæðisflokkurinn hefur þegar ákveðið, hvaða nýir ráðherrar koma til sögunnar.

Ríkisstjórnin hefur öruggan meirihluta á alþingi. Þingmönnum hennar fækkar þó um fjóra frá síðasta þingi og verður þess vegna sú breyting á skipan þingnefnda frá því þá, að nú hefur ríkisstjórnin eins manns meirihluta í þingnefndum í stað tveggja áður. Gerir þetta ríkar kröfur um virka þátttöku í störfum nefndanna og mæðir ekki síst mikið á þingmönnum framsóknarmanna en fram til 15. september 2004 situr helmingur þeirra í ríkisstjórn eins og var á síðasta kjörtímabili.

Á þingflokksfundi sjálfstæðismanna og síðan í flokksráði þeirra, sem kom saman á fimmtudag, ríkti mikill einhugur um stefnuyfirlýsingu hinnar nýju ríkisstjórnar. Fréttir frá Framsóknarflokknum segja einnig, að þaðan fylgi stjórninni góðar óskir og eindreginn stuðningur. Stjórnarandstaðan bregst við á hefðbundinn hátt og leitar að snöggum blettum. Hún verður að sætta sig við, að kjósendur féllust ekki á höfuðkröfu Samfylkingarinnar um breytingar, breytinganna vegna.

Þegar litið er til framtíðar, er staða íslenska þjóðarbúsins þannig, að þess er að vænta, að ríkisstjórnin glími við viðfangsefni vegna hagvaxtar og eftirspurnar en ekki til stöðnunar og hnignunar. Á síðasta kjörtímabili var blásið til mikillar sóknar í atvinnumálum með virkjunum og stóriðju. Framkvæmdaárin eru að hefjast og höfuðverkefni að koma í veg fyrir að upp úr sjóði.

Ísland er áfram land tækifæranna.