19.10.2003

Samband ríkis og kirkju.

Við upphaf kirkjuþings í Grensáskirkju, 19. október, 2003.

 

 

Mér er heiður að ávarpa kirkjuþing við upphaf þess. Er þetta ekki í fyrsta sinn sem hann fellur mér í skaut, því að fyrir átta árum, hinn 17. október 1995, hljóp ég í skarðið fyrir þáverandi kirkjumálaráðherra, Þorstein Pálsson, og stóð þá í þessum sömu sporum.

 

Þótt síðan sé ekki langur tími liðin, hafa orðið þáttaskil í samskiptum ríkis og kirkju á þessum átta árum. Kirkjan hefur öðlast meira sjálfstæði frá ríkisvaldinu sem þjóðkirkja en almennt tíðkast í nágrannalöndum okkar. Hefur tekist á farsælan hátt að skapa þjóðkirkjunni nýtt starfsumhverfi og heyrist engin rödd um, að snúa eigi klukkunni til baka.

 

Umræður um samskipti ríkis og kirkju hníga til allt annarrar átta og eru meiri á stjórnmálavettvangi en áður hefur verið. Meðal fyrstu spurninga til mín, eftir að ég settist í núverandi embætti mitt síðastliðið vor, var, hvort ég vildi, að þjóðkirkjan hyrfi úr sögunni. Ég kvað svo ekki vera, enda ekki á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar.

 

Í ræðunni á kirkjuþingi fyrir átta árum minnti ég meðal annars á, að þá hefðu móðurmálskennarar  nýlega skorað á yfirvöld kirkju og menntamála að auka kennslu byggða á Biblíunni til að efla skilning nemenda á bókmenntum og móðurmálinu. Sá maður, sem hefði ekki öðlast þekkingu á sögum Biblíunnar eða táknum trúarinnar, færi á mis við margt í bókmenntum, húsagerðarlist, myndlist og kvikmyndum. Væri ástæða fyrir kirkjuna að auka upplýsingamiðlun um þessa lykla að leyndardómum margra stórbrotinna listaverka. Til þess mætti nota þann miðil, sem ríkið ræki til að leggja rækt við menningararfinn, Ríkisútvarpið. Hlutur þess í þágu kirkjunnar hefði jafnan verið mikill.

 

Vöktu þessi orð mín hvorki umræður né athygli á þeim tíma en fyrir nokkru dreifði Siðmennt – félag um borgaralegar athafnir stefnu sinni í litlum bæklingi til alþingismanna. Þar er meðal annars fundið að þessum ummælum um hlut Ríkisútvarpsins í þágu kirkjunnar, telur félagið þau „afar óviðeigandi og í andstöðu við lög um Ríkisútvarpið“ eins og segir í bæklingnum.

 

Þetta litla dæmi á að beina athygli okkar, góðir kirkjuþingsmenn, að miklu stærra viðfangsefni, það er vaxandi þunga í þeim málflutningi, að í raun sé það skerðing á mannréttindum, að við Íslendingar búum við ákvæði í stjórnarskrá okkar, þar sem segir, að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið skuli að því leyti styðja hana og vernda.

 

Samkvæmt stjórnarskránni getur alþingi breytt þessu ákvæði með lögum, enda fari síðan fram þjóðaratkvæðagreiðsla um málið.

 

Tveir alþingismenn Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, og Þuríður Backman, þingmaður vinstri/grænna, hafa flutt að nýju frumvarp til laga um breytingu á kirkjuskipan ríkisins og er efni þess lýst þannig, að frumvarpið feli í sér, að öllum trúfélögum skuli gert jafnhátt undir höfði og í samræmi við það skuli stefnt að aðskilnaði ríkis og hinnar evangelísku lútersku kirkju. Yrði frumvarpið að lögum, mundi síðan verða efnt til þjóðaratkvæðagreiðslu um, hvort leggja ætti þjóðkirkjuna niður.

 

Þingmennirnir telja að stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna brjóti í bága við 63. grein stjórnarskrárinnar um að allir eigi rétt á að stofna trúfélög og iðka trú sína í samræmi við sannfæringu hvers og eins. Þingmennirnir segja einnig, að ekki sé unnt að framkvæma 65. grein stjórnarskrárinnar um að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og njóta mannréttinda án tillits til kynferðis, trúarbragða, skoðana, þjóðernisuppruna, kynþáttar, litarháttar, efnahags, ætternis og stöðu að öðru leyti, nema frumvarpið verði að lögum.

 

Ég er ekki sammála þeirri skoðun, að kirkjuskipan okkar brjóti í bága við stjórnarskrá lýðveldisins og hef fyrir því ekki síst þau heldur auðsæju rök, að kirkjuskipanin er beinlínis byggð á stjórnarskránni. Þegar hinni svonefndu jafnræðisreglu var bætt í stjórnarskrána árið 1995 sem 65. gr. hennar, var ekki hróflað við 62. gr. stjórnarskrárinnar er kveður á um að hin evangelíska lúterska kirkja skuli vera þjóðkirkja á Íslandi og ríkisvaldið að því leyti styðja hana og styrkja. Sama er að segja um 63. grein stjórnarskrárinnar, þá grein sem kveður á um að allir skuli eiga þess kost að stofna trúfélag og iðka trú sína. Þykir mér því augljóst og svo ætti að vera um fleiri, að stjórnarskrárgjafinn líti svo á að kirkjuskipan okkar brjóti hvorki jafnræðisreglu né rétt hvers og eins til trúfrelsis og trúariðkunar.

 

Þingflokkur Samfylkingarinnar hefur flutt tillögu til þingsályktunar um breytingar á stjórnarskrá í tilefni aldarafmælis heimastjórnar á næsta ári. Í tillögunni er mælt fyrir um að kannað verði, hvort tímabært sé í ljósi þjóðfélagsbreytinga að huga að breytingum á ákvæðum stjórnarskrár um samband ríkis og kirkju.

 

Í greinargerð með þingsályktunartillögunni segir, að sterkt tákn um samþættingu ríkis og kirkju birtist í því að þjóðhöfðinginn skipi biskupa kirkjunnar og þjóðhöfðinginn sé þannig hið táknræna höfuð kirkjunnar. Hlutverk hans innan kirkjunnar undirstriki því skjólið, sem stjórnarskráin ætli ríkinu að veita evangelísku lútersku kirkjunni umfram önnur trúfélög. Annað  táknrænt dæmi um tengsl milli ríkis og kirkju sé, að handhafi framkvæmdavaldsins velji biskup, þegar kosning innan kirkjunnar dugi ekki til þess. Flutningsmenn láta þess hins vegar ekki getið, að kirkjumálaráðherra skipar í embætti sóknarpresta. Þeir láta þess einnig ógetið, að hvorki forseti né ráðherra hefur að lögum áhrif á val presta eða biskupa. Að ráðherra komi að vali biskups byggist á starfsreglum kirkjuþings.

 

Í greinargerð samfylkingarmanna á alþingi segir enn fremur:

 

„Aðskilnaður ríkis og kirkju er þannig orðinn að ferli, sem er á verulegri hreyfingu. Kirkjan hefur sjálf gert sér mæta vel grein fyrir þessu. Það birtist með skýrum hætti í ræðu hr. Karls Sigurbjörnssonar biskups í upphafi kirkjuþings árið 2002 þar sem biskupinn orðaði það svo að skilnaður hefði þegar orðið að borði og sæng og kirkjan þyrfti nú að búa sig undir lögskilnað. Orðrétt sagði biskup: „Hér vantar í raun ekki mikið upp á að ríki og kirkja séu aðskilin. Nefna má það skilnað að borði og sæng. Mér sýnist sem kirkjan þurfi meðvitað að búa sig undir að til lögskilnaðar komi. En meginspurningin er: Á hvaða forsendum? Stjórnarskrárákvæðið um þjóðkirkjuna hefur verið áminning um kristnar rætur íslenskrar menningar og samfélags. Þjóðin má ekki gleyma þeim rótum jafnvel þótt breyting yrði enn á lögformlegri stöðu þjóðkirkjunnar.“ Undir þessi orð biskups er auðvelt að taka,“ segja flutningsmenn  þingsályktunartillögunnar.

 

Góðir þingfulltrúar!

 

Þess er minnst um þessar mundir á hátíðlegan hátt um heim allan, að hinn 16. október voru 25 ár liðin síðan Jóhannes Páll II settist á páfastól. Við vitum vel, að hin katólska kirkja hefur vaxið og dafnað meðal Íslendinga alla síðustu öld og hiklaust tökum við þátt í að samfagna með henni og óskum páfa allra heilla. Við njótum þess eins og margar aðrar þjóðir, að meðal okkar starfa af fórnfýsi og trú systur úr katólskum reglum meðal annars móður Teresu, sem í dag er tekin í tölu blessaðra.

 

Er enn ljóslifandi í hugum okkar, þegar Jóhannes Páll páfi II kom hingað til lands árið 1989 og verður jafnan talið til stóratburða í sögu þjóðarinnar. Þá var haft á orði, að við Íslendingar hefðum í ýmsu tilliti sýnt páfa meira umburðarlyndi en nágrannar okkar annars staðar á Norðurlöndum. 

 

Engin rök eru fyrir því, að ekki ríki trúfrelsi á Íslandi. Skráð trúfélög í landinu eru nú að nálgast 30 en tæp 90% landsmanna eru í þjóðkirkjunni og hefur hún því yfirburðastöðu.

 

Allt frá því kristni var lögtekin á Íslandi hefur það verið þráður í trúariðkun okkar, að sýna þeim, sem aðhyllast annað sið skilning. Íslendingasögur og gamlar frásagnir geyma lýsingar á því, hvernig tekið var á viðfangsefnum þeirra tíma, sem nú yrðu kennd við fjölmenningu.

 

Tengsl ríkis og þjóðkirkju grundvallast á sögulegri hefð, þar sem margir þræðir hafa verið samofnir. Tengslin sækja styrk sinn til gagnkvæmrar virðingar milli hins veraldlega og andlega valds og  einkennast af góðri sátt, þótt upp úr sjóði á stundum vegna einstakra úlausnarefna.

 

Ákvæði stjórnarskrárinnar um stöðu hinnar evangelísku lútersku kirkju endurspegla sögulega þróun og kristna lífæð íslensku þjóðarinnar í þúsund ár. Inntak og efni ákvæðisins eru að sjálfsögðu mun djúpstæðari en unnt sé að skýra þau með táknrænum afskiptum forseta Íslands af skipun biskupa. Þau staðfesta, að þjóðskipulag okkar byggist á kristnum gildum.

 

Með kristnitökuhátíðinni árið 2000 var áréttað gildi samheldni í Íslandssögunni undir merkjum kristinnar trúar, frá því að sáttargjörðin mikla var kynnt á Lögbergi. Þá voru einnig ítrekuð  meginviðhorfin, sem eru þjóðinni helst til heilla um ókomin ár. Kristnitakan lagði hinn trausta grunn, sem ekki hefur haggast í aldanna rás og stendur af sér allar stefnur og strauma.

 

Ef þetta meginviðhorf er ekki lagt til grundvallar í umræðum um samband ríkis og kirkju heldur aðeins litið á hið ytra form, má túlka orð herra Karls Sigurbjörnssonar biskups á þann hátt, sem gert er í greinargerð þingsályktunartillögu  Samfylkingarinnar. Ég leyfi mér hins vegar að skilja orðin þannig, að biskup hafi verið að lýsa þróun undanfarinna ára til aukins sjálfstæðis kirkjunnar og var sú skoðun mín staðfest í setningarræðunni, sem hann flutti nú í upphafi þessa kirkjuþings.

 

Guðni Ágústsson, landbúnaðarráðherra og varaformaður Framsóknarflokksins, sagði í umræðum um stefnuræðu forsætisráðherra á alþingi 2. október síðastliðinn:

 

„Fyrir þúsund árum trúlofaðist Alþingi Íslendinga kristinni kirkju á Þingvöllum. Það var gæfuspor. Löggjafarþingið og þjóðkirkjan hafa síðan haldist í hendur. Þetta samstarf er partur af okkar þjóðskipulagi og menningu.“

 

Góðir kirkjuþingsmenn!

 

Meira fyrirheit um gott samband felst í því að trúlofast en skilja að borði og sæng.

 

Fyrir þingi ykkar liggur tillaga að stefnumótun og starfsáherslum þjóðkirkjunnar fyrir árin 2004 til 2010. Er ljóst, að mikil vinna og hugsun býr að baki þessu skjali, þegar svo margir eru virkjaðir til samstarfs og raun hefur orðið. Er mikils virði, að á vegum þjóðkirkjunnar séu grunngildi hennar skerpt í því skyni að auðvelda útbreiðslu boðskaps kirkjunnar í orði og verki. Samtíminn verður betri færist hann nær kirkjunni og stefnu hennar, sem mótuð var fyrir 2000 árum.  

 

Athygli mín beindist að þriðja hluta skjalsins, þar sem rætt er um skipulag þjóðkirkjunnar. Er ég sammála því markmiði, sem þar er sett, að skipulagið tryggi framkvæmd stefnu kirkjunnar og virkni í starfi hennar, stuðli að einingu og stöðugleika, en sé jafnframt réttlátt, trúverðugt og sveigjanlegt. Stjórnskipulag kirkjunnar sýni á skýran hátt ábyrgð og boðleiðir.

 

Meðal verkefna á þessu sviði er nefnt, að einfalda skuli löggjöf um kirkjuna og setja ein heildarlög auk þess að einfalda reglugerðir og starfsreglur.

 

Í glænýju lagasafni okkar eru á milli tuttugu og þrjátíu lagabálkar um kirkjuleg efni og hinn elsti úr kristinrétti Árna biskups Þorlákssonar frá 1275, og er hann því eldri en sjálf Jónsbók. Þar er í 11. grein fjallað um forræði biskups á kirkjum og eignum þeirra og segir: Landeigandi er skyldr at láta gera kirkju á bæ sínum, hverr sem fyrr lét gera. … Í 12. grein segir um kirkjuvígslu: Vígja skal kirkju síðan er ger er … En ef kirkja brenn upp eða annars kostar spillist, svá at niðr fellr öll eða meiri hlutr, þá skal vígja endrgerva kirkju. En þó at kirkjuráf brenni upp, fúni ok niðr falli lítill hlutr af veggjum, þá skal eigi vígja endrbætta kirkju. …

 

Lagasafnið yrði bragðminna, ef slíkir textar hyrfu. Hvað sem því líður er ég reiðubúinn að fela embættismanni í ráðuneytinu að ganga til þess verks með þeim, sem þjóðkirkjan tilnefnir, að huga að gerð heildarlaga um kirkjuna og einfalda reglugerðir og starfsreglur hennar.

 

Forveri minn á ráðherrastóli frú Sólveig Pétursdóttir svaraði á alþingi síðastliðinn vetur fyrirspurn um það, hvað þyrfti að breytast í stjórnskipan, lögum og reglugerðum, ef kæmi til aðskilnaðar ríkis og kirkju.

 

Fyrir utan ákvæðið í 62. grein stjórnarskrárinnar, sem ég hef áður nefnt, benti hún meðal annars á, að þá yrðu lög um sóknargjöld, jöfnunarsjóð sókna, kirkjumálasjóð og fleiri atriði fjárhagslegs eðlis felld niður. Breyta yrði samningum ríkis og kirkju um eignir þjóðkirkjunnar, en þar vegur þyngst samningurinn frá 10. janúar 1997 um að gegn því að kirkjujarðir renni til ríkisins skuli greidd laun umsamins fjölda presta úr  ríkissjóði.

 

Hin fjárhagslegu tengsl ríkis og þjóðkirkju eru ýmsum þyrnir í augum. Þau byggjast hins vegar á skýrum málefnalegum forsendum. Á sambærilegum forsendum þarf að finna niðurstöðu í ágreiningi varðandi prestssetur.

 

Eins og ég nefndi áður, er síður en svo nýmæli, að tekist sé á um einstök úrlausnarefni í samskiptum ríkis og kirkju og þar hafa fjárhags- og eignamál löngum gefið tilefni til langvinnra samningaviðræðna.

 

Fyrir tveimur árum skilaði sjö manna prestssetranefnd skýrslu og tillögum til kirkjuþings um það, hvernig skyldi ljúka samkomulagi íslenska ríkisins og þjóðkirkjunnar frá 10. janúar 1997 varðandi prestssetrin. Taldi nefndin nauðsynlegt, að gerður yrði samningur milli ríkis og kirkju um eignarréttarstöðu og aðra réttarstöðu prestssetra með því sem þeim fylgir. Nefndin kynnti fimm skilyrði þess, að samningur tækist.

 

Síðan hafa þessi mál verið rædd milli ríkis og kirkju á grundvelli þessara skilyrða, án þess að samningur hafi verið gerður. Ég tel, að álitaefni liggi öll skýr fyrir og auk þess hafa viðræður þróast á þann veg, að þær hafa farið fram milli forsætisráðherra og biskups. Verður því ekki hærra stigið á leiðinni í leit að hagfelldri niðurstöðu með samningi.

 

Gagnkvæmir hagsmunir tengjast því, að viðundandi lausn finnist. Snýst hún um fjárskuldbindingu á móti eignaafhendingu en sagan kennir, að oft þarf nokkurn tíma til að meta slíka þætti til fulls og sætta sig síðan við, að í samningi felst, að hvorugur aðili getur náð öllu sínu fram. Allt hefur sinn tíma og hvenær tími samnings verður í þessu máli get ég ekki sagt hér og nú en tel, að ekki skuli beðið lengi enn eftir lyktum málsins.

 

Virðulegi þingforseti!

 

Af hálfu kirkjumálaráðherra er stefnt að því að flytja eina tillögu hér á þessu þingi og snýst hún um nýjan grundvöll við ákvörðun kirkjugarðsgjalds og skiptingu þess. Ég ætla ekki að rekja efni þessarar tillögu hér en vil nota tækifærið til að þakka hina miklu og vönduðu vinnu, sem liggur henni að baki og innt hefur verið af hendi á vegum Kirkjugarðasambands Íslands undir forystu Þórsteins Ragnarssonar.

 

Ástæðan fyrir fyrirvara mínum um framlagningu tillögunnar er sú, að mér hefur ekki gefist kostur á að kynna hana á vettvangi ríkisstjórnarinnar. Gefist mér færi á því í tæka tíð fyrir þá tímafresti, sem gilda hér á þinginu, kemur tillagan fram.

 

Ágætu þingfulltrúar!

 

Þegar samband ríkis og kirkju er rætt er staðið frammi fyrir þessari grundvallarspurningu: Viljum við eiga þjóðkirkju?

Meiri hluti fræðimanna hallast að því, að ákvörðun Þorgeirs ljósvetningagoða árið 1000 hafi frekar verið af pólitískum toga en trúarlegum. Alþingi féllst á ákvörðun hans og landsmenn tóku kristni.

Enn er það hlutverk alþingis og landsmanna að ákveða, hvort þjóðkirkjan lifi áfram - en okkar, sem hér erum, að efla hana og styrkja, á meðan hún er við lýði. Mín ósk er, að okkur farnist það vel úr hendi, þjóðinni og kirkju hennar til heilla.

Megi blessun fylgja störfum kirkjuþings!