Frelsi í krafti aga.
Kjördæmisþing reykvískra sjálfstæðismanna 31. janúar, 2004.
Það er tímabært, að við sjálfstæðismenn í Reykjavík komum saman til að ræða, hvort setja þurfi lög um uppbrot og myndun hringa í viðskiptum. Í huga okkar allra hefur orðið hringamyndun neikvæða merkingu. Í því felst misnotkun á því frelsi, sem við viljum að ríki í viðskiptum og samkeppni fyrirtækja.
Við þekkjum það úr almennum umræðum, að hreyfi Davíð Oddsson, formaður okkar, hugmyndum um lagasetningu gegn hringamyndun henda andstæðingar því á loft, að hann hafi ýtt undir ef ekki staðið fyrir óheppilegu ástandi í viðskiptalífinu. Og hann er auk þess sakaður um að bera ábyrgð á því, að einstaklingar og fyrirtæki þeirra leitist við að fylla tómarúm eftir brotthvarf ríkisins úr fjármálaheiminum með hóflausri græðgi eða fíkn eftir völdum og áhrifum.
Rík ástæða er til að svara slíkum áróðri fullum hálsi og benda á, að allir, sem stunda viðskipti á Íslandi hafi tækifæri til að njóta sín vel, án þess að þurfa að hreiðra um sig í skjóli ofurvalds gagnvart keppinautum sínum. Í hinum besta heimi á ekki að þurfa lagaboð eða atbeina ríkisvalds til að menn sýni ábyrgð og hindra að þeir ofbjóði náunga sínum. Skorti hins vegar ábyrgð eða gengið er lengra en góðu hófi gegnir gagnvart samfélaginu, er óhjákvæmilegt að bregðast við því. Lögin eru tæki til þess, ekki vegna stjórnlyndis valdhafa, heldur til að útiloka að menn misfari með vald á kostnað almennings.
Í máli mínu mun ég fyrst víkja að því, sem ákveðið hefur verið hér á landi til að setja ríkisvaldinu skorður og síðan leiða hugann að nauðsyn leikreglna um völd í atvinnulífinu. Markmiðið er, að ekki sé misfarið með vald, réttindi einstaklinga séu virt og komið sé í veg fyrir neikvæð áhrif ofríkis á vöxt og viðgang lýðræðis og atvinnulífs. Einstaklingar standa ætíð að baki öllum fyrirtækjum – þau hafa ekki sjálfstæðan vilja heldur eru tæki eigenda sinna til að ná ákveðnu takmarki. Reglur eiga ekki að hefta frelsi þessara einstaklinga heldur tryggja að þeir fái notið frelsis í krafti aga á lögmætum forsendum.
*
Í lýðræðisríkum hefur á stjórnmálavettvangi verið gripið til margvíslegra ráðstafana til að takmarka völd stjórnmálamanna. Fyrsta úrræðið er auðvitað, að þeir verða að leita reglulega eftir umboði frá kjósendum. Á morgun verður þess einmitt minnst, að hinn 1. febrúar eru 100 ár liðin frá því að þingræðisreglan kom til sögunnar við stjórn landsins, það er sú regla, að ríkisstjórn verður að starfa í skjóli meirihluta þingmanna. Þá hefur dómstólum verið játað að eiga síðasta orð um, hvort lög standist stjórnarskrána – dómarar geta sem sagt tekið fram fyrir hendur á löggjafarvaldinu.
Innan þessara aldargömlu meginreglna hafa stjórnvöldum verið settar nýjar reglur nú síðast á grundvelli stjórnsýslulaga og upplýsingalaga frá síðasta áratug, sem flutt voru á þingi og samþykkt undir forystu Davíðs Oddssonar. Þessar reglur setja stjórnsýslunni lögbundnar skorður við meðferð á valdi sínu og skylda handhafa hennar einnig til að veita upplýsingar um baksvið ákvarðana sinna.
Í stjórnarráðinu starfa menn við þær aðstæður, að einhver óviðkomandi getur alltaf litið yfir öxl þeirra, þegar þeir taka ákvörðun, og síðan er unnt að biðja um að fá að sjá allt, sem haft var til hliðsjónar við töku ákvörðunarinnar. Hið mikla gegnsæi við stjórnarathafnir á að tryggja góða málsmeðferð og sporna gegn geðþóttaákvörðunum.
Fleiri eftirlitsreglur koma til álita við opinberar ákvarðanir. Sé verið að veita embætti, getur sá sem það gerir embættið ekki stuðst við eitt saman innsæi sitt, heldur verður einnig að líta til hlutlægari og áþreifanlegri atriða. Sé ráðist í innkaup eða framkvæmdir, er skylt að fara að lögum um opinber útboð og sérstakar stofnanir, Ríkiskaup og Framkvæmdasýsla ríkisins, eiga að sjá til þess, að hlutlægni sé gætt. Ákvarðanir um verklegar, opinberar framkvæmdir má kæra til sérstakrar úrskurðarnefndar vegna útboða.
Þetta kerfi hefur þróast í tímans rás samtímis og stuðlað hefur verið að sjálfstæði eftirlitsaðila með því að stofna embætti umboðsmanns alþingis og færa ríkisendurskoðun úr fjármálaráðuneyti undir forsjá alþingis. Auk þess er unnt að leita til evrópskra eftirlitsstofnana og dómstóla, ef menn telja innlend stjórnvöld eða dómstóla ekki komast að réttri niðurstöðu.
Allar hafa þessar ráðstafanir til að setja meðferð opinbers valds skorður verið gerðar í sæmilegri sátt á stjórnmálavettvangi. Enn sem komið er hafa spurningar fremur vaknað um, hvort nógu langt sé gengið, heldur en hitt, hvort um of sé þrengt að þeim, sem bera ábyrgð í nafni framkvæmdavaldsins.
*
Við þessi skilyrði og undir ströngum kröfum hefur ríkisvaldið á undanförnum árum fært eignarhald á fyrirtækjum frá sjálfu sér til einkaaðila – einkavæðingin byggist á slíkum ákvörðunum. Í henni felst að auka svigrúm og frelsi einstaklinga til að taka ákvarðanir, sem áður lutu hinum opinberu reglum, aðhaldi og eftirliti.
Að draga úr ríkisrekstri byggist á stjórnmálaviðhorfum, sem hafa legið til grundvallar stefnu Sjálfstæðisflokksins allt frá stofnun hans. Með hruni kommúnismans og sósíalismans er ekki lengur tekist á um það á sama hátt og áður, hvort þessi stjórnmálastefna eigi rétt á sér eða ekki. Hún hefur einfaldlega sigrað í samkeppni hugmyndanna og um heim allan sjáum við dæmi þess, að ríkið er að draga saman seglin í atvinnu- og viðskiptalífi í þágu einstaklinga og fyrirtækja þeirra.
Umræður um ráðstafanir til að setja hringamyndun skorður byggjast alls ekki á því, að ætlunin sé að hafna markaðskerfinu, sem sækir kosti sína til virkrar samkeppni. Þær lúta að því, hvort ástæða sé að setja reglur um frelsið og fyrir hendi séu aðilar til að fylgja þessum reglum eftir.
Adam Smith gerði sér grein fyrir því, að góðsemi hvetti hvorki slátrarann né bakarann til að selja okkur kvöldverðinn. Þeir væru að gera það í eigin þágu. Hann benti einnig á, að hittist fólk úr sömu starfsgrein sér til skemmtunar eða upplyftingar snerist tal þess fljótt í samsæri gagnvart almenningi eða að leiðum til að hækka verð.
Ábendingin um slátrarann og bakarann segir okkur, að eigin hagsmunir, sem stjórnast af hinni ósýnilegu hönd, það er samkeppni, nýtist almenningi. Síðari ábending Adams Smiths lýtur hins vegar að því, að seljendur grafa undan samkeppni, séu þeim ekki settar einhverjar skorður – þótt hann væri ekki talsmaður þess, að hinu opinbera valdi yrði beitt á markaðnum.
Eðlilegt er, að þessi sífellda togstreita milli frjálsræðis og opinbers valds taki á sig aðra mynd nú en áður, þegar litið er til þeirrar staðreyndar, að markvisst hefur verið unnið að því undanfarin ár, að færa fjármálalegt vald frá ríki til einkaaðila. Hinu opinbera valdi hafa ekki aðeins verið settar skýrari starfsreglur á síðustu árum heldur hefur inntak þeirra ákvarðana, sem teknar eru í umboði stjórnmálamanna, tekið á sig gjörbreytta mynd.
Á árunum 1998 til 2003 voru ríkisfyrirtæki seld fyrir 55 milljarði króna. Almenn markmið þessarar miklu einkavæðingar hafa verið skilgreind þannig af ríkisstjórninni og framkvæmdanefnd um einkavæðingu í hennar nafni: að auka samkeppni og skilvirkni í þjóðfélaginu; að draga úr pólitískum áhrifum í fyrirtækjum; að efla hlutabréfamarkað; að bæta stöðu ríkissjóðs; að bæta hag neytenda; að styrkja stöðu starfsmanna og að draga úr áhrifum sérhagsmunahópa.
Að sjálfsögðu er stjórnmálamönnum, sem taka ákvarðanir um að selja ríkisfyrirtæki í þessum tilgangi, mikið í mun, að enginn missi sjónar á honum. Kaupendum fyrirtækjanna, sem nú eru flestir mjög umsvifamiklir í íslensku atvinnulífi, eru þessi markmið einnig kunn. Þeim var ljóst við kaupin, að unnt er að vinna að árangri í þágu þessara markmiða með lögum, reglum og eftirlitsstofunum, ef í nauðir rekur.
*
Fyrstu skref til frjálsræðis í viðskiptalífinu voru stigin af viðreisnarstjórninni fyrir rúmum 40 árum. Í hennar tíð tókst þó ekki að afnema verðlagshöft og innleiða þar með samkeppni í verslun. Einn ráðherra í viðreisnarstjórninni greiddi meira að segja atkvæði á alþingi gegn stjórnarfrumvarpi um samkeppni í stað verðlagshafta.
Þegar ég var skrifstofustjóri í forsætisráðuneytinu fyrir tæpum 30 árum og ritari á fundum ríkisstjórnar, snerust umræður þar að verulegu leyti um það, hvort leyfa ætti þessa verðlagshækkun eða hina, hvort heldur hjá einkaaðilum eða opinberum. Gjaldskrárnefnd var gerð að nálarauga fyrir slíkar ákvarðanir og verðlagseftirlit hert – en allt kom fyrir ekki og þetta kerfi gekk sér sem betur fer til húðar, en þó ekki fyrr en verðbólga hafði farið yfir 100%.
Verðlagsákvarðanir fyrir einkafyrirtæki eða opinberar stofnanir eru ekki lengur á borði ríkisstjórnarinnar. Óhugsandi er, að þar sé verið að fjalla um álagningu á kaffi eða sykur. Lögmál markaðarins ráða verðþróun og þau krefjast aga af samkeppni. Ríkisstjórnin er ekki heldur að fjalla um það eins og áður var gert, hvort gjaldeyrisskammtur til ferðamanna sé þúsundinu meiri eða minni eða hvort þetta eða hitt útgerðarfyrirtækið skuli fá leyfi til að kaupa togara.
Biðlistar á skrifstofum ráðherra vegna opinberrar fjármálalegrar fyrirgreiðslu eða ákvarðana, sem eiga heima í stjórnum fyrirtækja eða á borðum forstjóra þeirra, eru horfnir.
Á árum opinberra verðlagsákvarðana og skömmtunar voru lög um hringamyndanir eða aðrar almennar skorður við starfsemi fyrirtækja fjarlægt viðfangsefni. Stjórnvöld höfðu í skjóli lögbundinna stjórntækja miklu meiri áhrif á starfsemi fyrirtækja en almennar lagareglur mundu nokkru sinni heimila. Fyrirtæki stór og smá störfuðu innan mjög þröngs ramma, þar sem allar meginákvarðanir um afkomu þeirra voru í raun teknar undir handarjaðri stjórnvalda. Ef rætt hefði verið í alvöru á þessum tíma um að setja enn frekari reglur um stórfyrirtæki, hefði það í raun jafngilt því, að setja belti á buxur, sem haldið var uppi af axlaböndum. Þykja slíkar varúðarráðstafanir að jafnaði dálítið skrýtnar.
*
Nú er öldin önnur. Fjármálalegt vald hefur verið fært frá opinberum aðilum til einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Frelsi ríkir í stað hafta og opinberra fyrirmæla.
Vegna þessa afsals á opinberu valdi vakna nýjar spurningar eins og þær, sem við erum að ræða hér á þessum fundi. Hvernig haga einstaklingar og fyrirtæki þeirra sér við hinar nýju aðstæður? Hvernig ákveða þeir verðlag? Eiga þeir samráð til að tryggja sem hæst verð? Stofna þeir fyrirtæki, sem ráða yfir öllum þáttum verðmyndunar?
Við erum enn að glíma við vandann, sem Adam Smith lýsti á sinn skýra og einfalda hátt. Spurningarnar eru um það, hvort ástæða sé til þess að setja lög um hið nýja starfsumhverfi fyrirtækjanna. Hvort eftirlit sé nóg? Hvort tryggja þurfi betur, að unnt sé að grípa til ráðstafana, ef eftirlitsaðilar senda frá sér viðvörun?
Í umræðum um fyrirtæki og hringamyndanir er óhjákvæmilegt að greina á milli þeirra, sem starfa í öflugri alþjóðlegri samkeppni eins og skipafélög eða flugfélög, og hinna, sem eiga allt sitt undir íslenskum markaði.
Þegar samkeppnisyfirvöld birtu fyrri skýrslu sína um olíufélögin, töldu sumir, að ég væri að bera blak af olíufélögunum með þeim orðum, að þau hefðu haldið áfram í svipuðum anda og réð á tímum olíuviðskiptanna við Sovétríkin og allt var niðurnjörvað undir forsjá ríkisins.
Fyrir mér vakti alls ekki að afsaka neitt heldur undraðist ég, að svo lengi hefði lifað í þessum gömlu glæðum. Olíufélögin þrjú hafa ekki búið við neina samkeppni utan hópsins í meira en hálfa öld fyrr en nú að Atlantsolía kemur til sögunnar. Lokað ástand af þessu tagi mótar auðvitað vinnubrögð við verðákvörðun. Samkeppnisyfirvöld og lögregla takast nú á við afleiðingar þess.
Rökstudd gagnrýni er uppi um, að á íslenskum matvörumarkaði hafi samkeppni snúist í fákeppni. Er það að minnsta kosti niðurstaða Péturs Björnssonar, formanns Samtaka verslunarinnar, í Morgunblaðsgrein 12. janúar síðastliðinn, þar sem sagði meðal annars:
„Um það eru mörg dæmi að hörð samkeppni á markaði snúist í andhverfu sína og leiði af sér fákeppni öflugra fyrirtækja með verðsamráði og versnandi þjónustu. Samtök verslunarinnar hafa ítrekað bent á að hérlendis hafi orðið óeðlilega mikil samþjöppun á ýmsum sviðum atvinnulífsins á undanförnum árum. Hefur þessi samþjöppun nú þegar leitt til hringamyndunar og fákeppni á dagvöru- og byggingavörumarkaði þar sem tvær keðjur stórmarkaða hafa nú nálægt 80% hlutdeild, hvor á sínum markaði. Á fjölmiðlamarkaði á sér einnig stað varhugaverð þróun sem ástæða er til að fylgjast grannt með. Því miður bendir margt til að með þeirri samþjöppun, sem nú á sér stað í atvinnulífinu, sé verið að festa fákeppni á markaði í sessi og jafnvel búa í haginn fyrir einokun. Fákeppni er ekki bönnuð. Það er hins vegar misnotkun á markaðsráðandi stöðu sem er alltof oft fylgifiskur fákeppni sem er frjálsu og heiðarlegu viðskiptaumhverfi sem eitur.“
Þetta segir formaður Samtaka verslunarinnar og ég hef ekki forsendur til að draga réttmæti þessara orða í efa. En hér er einmitt vikið að þeim þáttum, þar sem erfiðast er að veita aðhald með erlendri samkeppni – velgengni á dagvöru- og byggingavörumarkaðnum ræðst af þekkingu á innlendum aðstæðum og fjölmiðlamarkaðurinn enn frekar.
*
Eins og hér hefur verið rakið stangast það að sjálfsögðu ekki á við stjórnmálastefnu, sem vill veg markaðshagkerfisins mikinn, að setja leikreglur um framgöngu á markaðnum. Hvarvetna hefur ríkisvaldið slíkar reglur sér til trausts og halds í viðleitni sinni við að vernda hinn almenna borgara og tryggja hóflegt jafnvægi til stuðnings góðum viðskiptaháttum.
Ríkisstjórnin hefur nú sett af stað athugun á viðbrögðum við þróuninni á þeim sviðum, þar sem mest reynir á innlenda samkeppni, það er á fjölmiðlamarkaðnum á vegum menntamálaráðherra og varðandi meiri samþjöppun og minni samkeppni en áður í einstökum atvinnugreinum á vegum viðskiptaráðherra. Í báðum tilvikum er markmiðið að stuðla að þróun reglna, sem tryggja að viðskiptalífið sé skilvirkt og njóti trausts.
Þetta er nauðsynlegt við núverandi aðstæður og í fullu samræmi við önnur viðbrögð stjórnvalda við breytingum í viðskiptalífinu í áranna rás. Ætti að vera sérstaklega traustvekjandi, að til þessara starfa skuli gengið í ríkisstjórn undir forystu Sjálfstæðisflokksins. Það tryggir, að ekki er gengið til þessa verks með hugsjónir vinstrisinna að leiðarljósi heldur með virðingu fyrir gildi samkeppni.
Hér skal engu spáð um niðurstöður þessara nefndarstarfa. Fyrsta boðorðið er að hindra, að frelsið sé misnotað. Annað að móta reglur um viðbrögð, sé það engu að síður gert. Hið þriðja að stuðla að endurreisn markaðsaflanna, ef tjón hefur verið unnið.
Umræður hér hafa að nokkru snúist um annað en aðalatriði, einkum eftir hinar alræmdu Borgarnesræður, núverandi varaformanns Samfylkingarinnar, þar sem tekið var til við að draga stórfyrirtæki í pólitíska dilka á hæpnum forsendum, svo að ekki sé meira sagt.
Þá var það ekki heldur skynsamlegum vinnubrögðum opinberra eftirlitsaðila til framdráttar síðastliðið sumar, þegar leitast var við að gera viðbrögð ríkissaksóknara og ríkislögreglustjóra tortryggileg í tengslum við rannsókn samkeppnisyfirvalda á olíufélögunum. Var allt annar bragur á þeim samskiptum en góðri og skilvirkri samvinnu skattayfirvalda og lögreglu.
Skynsamleg opinber stefnumótun um hófsamar leikreglur á markaði, þar sem við blasir, að leitast er við að slæva aga samkeppninnar, missir marks, ef henni er ekki framfylgt af aðilum, sem njóta trausts. Best er í því efni að geta reitt sig á öfluga efnahagsbrotalögreglu í þjónustu saksóknara, sem beitir sanngjörnu agavaldi og skýtur málum til dómstóla, ef út af bregður.
Góðir fundarmenn!
Glöggt er gests augað. Fyrir 10 árum sagði Paul Zukofsky, hljómsveitarstjóri, sem er þaulkunnugur íslensku þjóðfélagi, þetta í Morgunblaðsviðtali:
„Agi er ekki það sem þetta land hefur - og það á ekki bara við tónlistarlífið. Hér er agi undantekning. Það er eins og þið haldið að þið tapið hluta af sál ykkar eða sjálfstæði ef þið gangist undir aga. Það er ekki hægt að ná árangri í einu né neinu, ef agi er ekki fyrir hendi. Þið verðið aldrei samkeppnisfær við aðrar þjóðir, sem hafa skilið gildi þess að tileinka sér hann.
Þið stærið ykkur af því að hafa ekki her og haldið því fram að það sé vegna þess að þið séuð svo friðsöm þjóð. En það er algerlega rangt. Þið eruð ekkert friðsamari en aðrar þjóðir, þið getið bara ekki gengist undir þann aga sem fylgir herskyldu. Þið getið ekki hugsað ykkur að þrífa klósett, ganga í röð og vera í einkennisbúningum.
Stundum rjúkið þið upp til handa og fóta og ætlið að hreinsa til hjá ykkur. Og þið vitið hvernig á að hreinsa húsin ykkar, en þau verða ekki hrein þótt þið hreinsið eitt hornið í hólf og gólf. Ef þið hreinsið ekki allt húsið, verður hornið strax aftur kámugt. Það er enginn þrifnaður. En til að hreinsa allt húsið, þyrftuð þið að byrja á aganum. Göthe skilgreindi þetta vel þegar hann sagði að hætta yrði að líta á aga sem skerðingu á einstaklingsfrelsi. Agi gerir ykkur kleift að ná árangri, sem þið getið ekki náð án aga. Hann gerir ykkur kleift að ná árangri, án þess að móðga fólk - eða eins og hann sagði: Fullkomið frelsi fæst með því að hlýða öllum reglum.“
Góðir sjálfstæðismenn!
Ég er kominn að lokum máls míns. Við höfum verið þátttakendur í miklu ævintýri undanfarin ár við að gjörbreyta þjóðfélagi okkar í anda stefnu Sjálfstæðisflokksins. Við eigum að vera stolt af þeim árangri, sem hefur náðst við að draga úr opinberu valdi og setja því skorður. Minni hætta er á misbeitingu þess en nokkru sinni fyrr. Er ánægjulegt að fagna 100 ára afmæli Stjórnarráðs Íslands í þeirri vissu.
Gerum ekki vanda hins frjálsa markaðar og viðskipalífs flóknari en hann er. Þar á að ríkja agi eins og á hinu opinbera sviði. Við verðum að halda öllu húsinu okkar hreinu en ekki aðeins einstökum hornum þess. Einbeitum okkur að því að jafnvægi og sátt náist í heimi fjármála og viðskipta innan hins nýja frelsis og þar verði snúist af sanngirni og festu gegn þeim, sem spilla fyrir því, að við getum öll notið ávaxtanna af því, sem í frelsinu felst.