Lýðveldið og guðleg forsjón.
Þingvallakirkja,17. júní, 2004.
Mér er heiður að vera hér í Þingvallakirkju í dag og taka þátt í hátíðarhöldum vegna 60 ára afmælis lýðveldis á Íslandi. Hingað á friðlýstan helgistað íslensku þjóðarinnar streymdu allir, sem vettlingi gátu valdið og áttu heimangengt 17. júní 1944 til að sýna samstöðu og fagna sögulegum tímamótum. Þjóðhátíðardagurinn er okkur áminning um gildi þess að þakka það, sem áunnist hefur, og hvatning til að sækja fram af sama áræði og forfeður okkar, sem kvikuðu aldrei frá því marki, að fá að njóta sín sem frjálsir menn undir eigin stjórn.
Orð heilagrar ritningar, sem hér hafa verið lesin minna í senn á gildi hinnar guðlegu forsjónar og nauðsyn þess að láta aldrei deigan síga heldur knýja á og sækja fram:
„Þeir skulu vera mín þjóð og ég skal vera þeirra Guð, og ég vil gefa þeim eitt hjarta og eina breytni, svo að þeir óttist mig alla daga, þeim
sjálfum til heilla og sonum þeirra eftir þá,“ sagði í lexíunni.
Í pistlinum vorum við áminnt um að bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og
þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, fyrir konungum og öllum þeim, sem hátt eru settir, til þess að vér fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í
allri guðhræðslu og siðprýði.
Og í guðspjallinu erum við fullvissuð um, að hver sá öðlast, sem biður, sá finnur, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, mun upp lokið verða.
Fyrirheit af þessum toga voru þeim ofarlega í huga, sem komu hingað í rigningunni fyrir sextíu árum. Alexander Jóhannesson, prófessor og rektor Háskóla Íslands, var formaður nefndarinnar, sem undirbjó hátíðina á Þingvöllum og hann lýsti henni meðal annars á þennan hátt:
Klukkan nákvæmlega eitt miðdegis var gefið merki í Valhöll, að nú skyldi gengið til Lögbergs. Ríkisstjóri og biskup, ríkisstjórn og alþingismenn gengu beint upp af Valhöll og síðan niður í Hestagjá, námu þar staðar og fylktu liði og var lögreglustjóri með þeim. Í fararbroddi var Þorsteinn Einarsson, íþróttafulltrúi ríkisins, og bar hann stóran fána fyrir. Þegar þingmannafylkingin nálgaðist um Almannagjá, var blásið í lúður á barmi gjárinnar skammt fyrir ofan þingpall á Lögbergi. En næsta tíma á undan hafði mannfjöldinn safnast fyrir neðan þingpall og allt niður á hólmana, auk þess til beggja hliða upp í Almannagjá, og var talið, að milli 20 til 25 þúsund manns hefðu verið þar samankomnir. Um leið og þingmannafylkingin gekk á Lögberg lék Lúðrasveit Reykjavíkur Öxar við ána eftir Helga Helgason.
Klukkan nákvæmlega 1.30 gekk forsætisráðherra Björn Þórðarson fram að ræðupalli og setti lýðveldishátíðina, síðan hóf herra Sigurgeir Sigurðsson biskup guðsþjónustu með 300 manna blönduðum kór undir stjórn Páls Ísólfssonar. Við svo búið hófst þingfundur undir stjórn Gísla Sveinssonar forseta sameinaðs þings.
Á fundinum lýsti þingforseti gildistöku stjórnarskrár lýðveldisins Íslands, hringdi við svo búið bjöllu, þingmenn risu úr sætum og lýðveldsfáninn var dreginn að hún á Lögbergi, rétt fyrir ofan þingstaðinn. Var það sami silkifáninn klofni og blakti á Þingvöllum á Alþingishátíðinni árið 1930. Um leið og fáninn leið hægt að hún, ómaði kirkjuklukknahringing yfir allan mannfjöldann og um landið allt í útvarpinu. Tónarnir voru skærir í byrjun með jöfnu millibili, en smám saman heyrðist eins og margraddað tónahaf, er sté og hné með breytilegum styrkleik og tilfinningaþunga, ýmist eins og voldugur gnýr eða vatnsflóð í vorleysingum, er streymir yfir alla bakka og leitar sér útásar – eða mildur ekki, er leysir liðnar þjáningar og skapar að lokum frið og fögnuð í hverri sál. Þegar tónarnir misstu styrk sinn og hurfu, var alger þögn í eina mínútu og umferðarstöðvun um land allt. Allur mannfjöldinn á Þingvöllum drúpti höfði, meðan þessu fór fram. Það var eins og saga Íslands í 1000 ár með sorg sinni og gleði liði fyrir hugskotssjónir manna, meðan á klukkanhringingunni stóð. Það var eins og að hafa lokið þungbæru og erfiðu ferðalagi og vera kominn heim, heim, heim. Í þögulli bæn og þakklæti lyftist hugurinn til skapara alls, er ráðið hefur örlögum þjóðar vorrar frá upphafi og lét oss verða aðnjótandi hinnar óumræðilegu gleði að vera viðstaddir merkustu tímamót í sögu þjóðar vorrar frá því að land byggðist. Hinn mikli draumur undanfarinna alda hafði ræst. Ísland var aftur orðið frjálst og óháð ríki.
Þegar þagnarmínútan var liðin, streymdi hinn óumræðilegi fögnuður þjóðarinnar fram í þjóðsöngnum: „Ó, Guð vors lands“ ... og söng nú allur mannfjöldinn – af þeim innileik og fögnuði, að aldrei mun gleymast þeim, er á hlýddu.
Góðir kirkjugestir!
Við skynjum í orðum Alexanders Jóhannessonar anda hátíðarinnar og þær sterku tilfinningar, sem bærðust í brjósti þúsundanna, sem komu hingað til að taka þátt í stofnun lýðveldisins og verða vitni að því, þegar alþingi kaus Svein Björnsson fyrsta forseta lýðveldisins.
Tilfinningin er enn hin sama, þegar við komum hingað til Þingvalla – við fyllumst ríkri þjóðerniskennd og lotningu fyrir sögu og framtíð þjóðarinnar.
Þessi hughrif birtast í ræðum á þingfundinum við lýðveldisstofnunina en þegar ég les þær finnst mér greinilegur munur á blæbrigðum þeirra orða og þess, sem setur svip á hátíðarræður samtímans. Í því efni staldra ég við þá staðreynd, að fyrir sextíu árum hikuðu menn ekki við að lýsa trausti á guðlega forsjón.
Björn Þórðarson forsætisráðherra segir í upphafi ræðu sinnar: „Guð vors lands er oss miskunnsamur. Á tímum hins hrikalegasta harmleiks mannkynssögunnar búum vér við þau kjör, að vér getum leyft oss að fjölmenna til hátíðar og vegsamað frið, frelsi og öryggi.“
Gísli Sveinsson, forseti sameinaðs þings, sagði: „Þessi nú frjálsa þjóð, sem þolað hefir þrengingar margra liðinna alda og stundum undir erlendri kúgun, gleymdi þó aldrei sjálfri sér né afrækti hið dásamlega land, sem henni var í öndverðu af Guði útvalið, land, sem „hart var aðeins sem móðir við barn“, - hún hefir nú með áþreifanlegum hætti sýnt, að hún þekkti sinn vitjunartíma, kunni að höndla hnossið, þegar það átti að falla henni í skaut.“
Sveinn Björnsson lauk fyrsta ávarpi sínu sem forseti Íslands með þessum orðum: „Nú á þessum fornhelga stað og á þessari hátíðarstundu bið ég þann sama eilífa Guð, sem hélt verndarhendi yfir íslenzku þjóðinni, að halda sömu verndarhendi sinni yfir Íslandi og þjóð þess á þeim árum, sem vér eigum nú framundan.“
Á þennan veg mæltu hinir veraldlegu forystumenn hér á Þingvöllum hinn 17. júní 1944 þegar lýðveldi var stofnað. Þeir leyndu ekki trausti sínu á hinn eilífa Guð og biskupinn herra Sigurgeir Sigurðsson tók að sjálfsögðu í sama streng og sagði:
„Vér komum hingað gagntekin af þakklæti til forsjónarinnar, til Guðs. Á þessum stað opnast oss sýn inn í fortíð og framtíð. Sagan líður fyrir sjónir. En það sem vér dýrlegast eygjum, er þó handleiðsla Guðs á þessari þjóð – hans eilífa miskunn og náð.
Og vér þurftum hennar sannarlega við. Þrengingar og margskonar áþján þjökuðu þjóðina. Vér undrumst þrek hennar í þeirri miklu raun.
Vér lifðum oft sem blaktandi strá, en vér reyndum jafnframt þann sannleika, að það varst þú, Drottinn, sem lyftir oss duftinu frá. Fyrir Guðs hjálp hélt Íslendingurinn velli. Miskunn hans vakti yfir þjóðinni frá öndverðu. Og hún vakir enn í dag.“
Þegar við höfum heyrt orð þessara mætu manna er verðugt að velta því fyrir sér í dag hér á þessum stað, hvort áhersla á hinn trúarlega þátt í hátíðarræðum hafi minnkað. Ég hef hlustað á þær margar í tímans rás og tel mig skynja, að svo hafi verið. Niðurstaða mín um þetta efni er byggð á tilfinningu en ekki nákvæmri rannsókn en hún vekur hjá mér spurningar eins og þessar: Hvers vegna höldum við máttarvaldi Guðs ekki jafnmikið á loft og áður var gert? Á áminning um guðlega forsjón ekki sama erindi til okkar nú á tímum, þegar minnst er merkra áfanga í sögu lands og þjóðar?
Við spurningunum eru ekki einföld svör.
Viðhorfið til þess að ná árangri sem Íslendingur hefur breyst á síðustu 60 árum. Fjarlægðir eru orðnar að engu, einangrun er rofin og við lifum tíma, þar sem litið er á það, sem sjálfsagðari hlut en áður, að flest gangi okkur í haginn. Nóg sé að treysta á mátt sinn og megin, menntun og peninga til að ná því, sem að er stefnt. Þótt náttúruöflin geti verið mannfólkinu óhagstæð, sé líklega unnt að hafa í fullu tré við þau með tækni og verkfræðilegri þekkingu.
Sú lífsskoðun virðist eiga vaxandi hljómgrunn, að draga eigi skil milli stjórnmála og trúmála, að minnsta kosti þegar stjórnmálamenn eiga í hlut. Almennt fara menn ekki í kirkju til að hlusta á ræður eins og þeir heyra á alþingi eða pólitískum mannamótum. Stundum er sagt frá því í fréttum, sé prédikunarstóllinn notaður til pólitískra yfirlýsinga. Þá þykir ýmsum eitthvað dularfullt eða skuggalegt á seyði, ef stjórnmálamenn ákalla góðan Guð sér til stuðnings og hjálpar.
Afstaða til samskipta ríkis og kirkju er önnur nú er fyrir 60 árum. Þegar stjórnarskrá íslenska lýðveldisins var samþykkt af öllum þorra þjóðarinnar í atkvæðagreiðslu, voru engar sérstakar vangaveltur um það, hvort í henni mætti vera ákvæði um þjóðkirkju. Nú er vaxandi gagnrýni á slíka skipan hér og hart tekist á um það víða um hinn kristna heim, hvort almennt sé við hæfi að viðurkenna í stjórnarskrám eða hátíðlegum yfirlýsingum, að þjóðir aðhyllist kristna trú. Innan Evrópusambandsins er til dæmis hart deilt um það, hvort í nýrri stjórnarskrá þess megi koma fram, að styrkur Evrópuþjóða felist í því, að stjórnkerfi þeirra og gildi byggjast á kristnum grunni.
Fyrir 60 árum velktist enginn í vafa um menningarlega einsleitni íslensku þjóðarinnar og þá bjó sá uggur í brjósti landsmanna, að þeim tækist ef til vill ekki að búa sér jafngóð lífskjör og þekktust í nágrannalöndum. Þá litu menn ekki á það sem sérstakt úrlausnarefni að gera ráðstafanir, vegna þess að Ísland hefði sérstakt aðdráttarafl til búsetu fyrir annarra þjóða menn. Þetta viðhorf hefur nú einnig breyst. Þegar litið er til lífskjara þjóða heims stöndum við í fremstu röð. Við þurfum ekki síður en aðrir að huga að gæslu landamæra okkar í eiginlegum og óeiginlegum eða menningarlegum skilningi. Sú skoðun er að ryðja sér rúms hér eins og víða annars staðar, að ekki eigi lengur að skilgreina þjóðfélög á skýrum menningarlegum og sögulegum forsendum þeirra sjálfra heldur beri að taka til við fjölmenningarlegar skilgreiningar, þar sem hinu hefðbundna, margreynda og sannaða er ýtt til hliðar fyrir hinu nýja og ókunna.
Þegar ég hugsa til ræðumannanna, sem stóðu á Lögbergi fyrir 60 árum og lofuðu gæsku Guðs við íslensku þjóðina, held ég að hvorki þeim né nokkrum áheyrenda þeirra, hefði dottið í hug, að það yrði hugsanlega notað til gagnrýni á þá, að þeir vísuðu til handleiðslu Guðs almáttugs. Í apríl síðastliðnum ræddi ég gildi bænarinnar á prestastefnu og varð það tilefni greinar í Morgunblaðinu, þar sem höfundur sagði meðal annars:
„Ég vil setja stórt spurningarmerki við dómgreind þeirra sem telja sig þess umkomna að halda því fram að þeir hafi fengið guðlega leiðsögn. Er ekki mannkynssagan full af ráðamönnum þjóða og kirkna sem farið hafa hamförum í sínu sambandi við óútskýranlegar verur?“
Með öðrum orðum, góðir áheyrendur, nú á dögum, þegar stjórnmálamenn leyfa sér að ræða gildi bænarinnar og lýsa trausti sínu á hina guðlegu forsjón eru þeir ávíttir fyrir að telja sig í samandi við „óútskýranlegar verur.“
Greinarhöfundur vill, að skynsemi, rökhyggja og mat á öllum aðstæðum ráði, þegar stjórnmálamenn eða aðrir taka ákvarðanir. Ég er sammála því.
En ég spyr: Hver verður verri af því, að sækja styrk til þess, sem fullvissar okkur um, að hver sá öðlist, sem biður, sá finni, sem leitar, og fyrir þeim, sem á knýr, muni upp lokið verða.
Náð og blessun eru góðir förunautar og bæn um leiðsögn til þess, sem hefur öll ráð í hendi sér, spillir ekki neinni ákvörðun.
Við getum hins vegar ekki horft fram hjá því, að trúin er forsenda þess, að við skynjum gildi bænarinnar. Og í Hebreabréfinu er okkur kennt, að trúin sé fullvissa um það, sem menn vona, sannfæring um þá hluti, sem eigi er auðið að sjá. Fyrir trú skiljum við, að heimarnir eru gjörðir með orði Guðs og að hið sýnilega hefur ekki orðið til af því, er séð varð.
Skilningur á gildi trúarinnar er lykill að opnum huga gagnvart mætti bænarinnar. Í þessu ljósi skiptir miklu að efla trúna á Guð vors lands og mikilvægi náðar hans fyrir þjóðina, sem landið byggir.
Margt hefur breyst í íslensku þjóðfélagi síðan hugur þúsunda lyftist hér við Lögberg fyrir sextíu árum í þögulli bæn og þakklæti til skapara alls, er ráðið hefur örlögum þjóðarinnar frá upphafi. Eitt hefur þó ekki breyst: Sama bæn og þakklæti eiga enn erindi.
Enn þann dag í dag skulum við bera fram ákall, bænir, fyrirbænir og
þakkargjörðir fyrir öllum mönnum, til þess að við fáum lifað friðsamlegu og rólegu lífi í allri guðhræðslu og siðprýði.
Gildi orðsins breytist ekki í áranna rás frekar en umgjörð náttúrunnar um hátíð okkar hér á Þingvöllum. Hún er hin sama og fyrir þúsund árum. Alþingi hefur nú með nýjum lögum enn staðfest, að hér verður áfram friðlýstur helgistaður allra Íslendinga. Hingað munum við áfram koma til að minnast hátíðlega helgustu stunda í sögu þjóðarinnar. Hér renna saman straumar kristni og löggjafar á einstæðan og heimsögulegan hátt. Þessa strauma eigum við áfram að virkja sameiginlega næstu árþúsund íslensku þjóðinni til heilla.
Megi góður Guð halda verndarhendi sinni áfram yfir Íslandi og Íslendingum!