Innlendur viðbúnaður í öryggismálum.
Rótarýklúbbur Austurbæjar, 24. ágúst, 2006.
Ég þakka fyrir boðið um að ræða við ykkur um varnar- og öryggismál. Mér er nokkur vandi að gera það á þessari stundu, þegar viðræður íslenskra og bandarískra stjórnvalda hafa ekki verið leiddar til lykta. Niðurstaða þeirra mun að sjálfsögðu ráða miklu en hún ræður þó ekki úrslitum um nauðsyn þess fyrir okkur Íslendinga að huga sjálfir að eigin öryggi.
Mér hefur komið nokkuð á óvart undanfarna mánuði, að heyra ummæli höfð eftir bandarískum embættismönnum, sem ekki er unnt að túlka á annan veg en þann, að ekki þurfi að gera neinar sérstakar ráðstafanir til að tryggja öryggi Íslands. Hér sé ekkert að óttast og þess vegna geti Bandaríkjastjórn dregið allt herlið sitt frá landinu, án þess að stofna öryggi þjóðarinnar í hættu.
Kalda stríðinu lauk endanlega með hruni Sovétríkjanna árið 1991. Í ljósi ummæla Bandaríkjamanna nú um brottför varnarliðsins frá landinu, er í raun furðulegt, að þeir skuli í 15 ár hafa haldið hér úti liðsafla, sem vissulega tók mið af stöðu öryggismála á tímum kalda stríðsins. Á árinu 1985 urðu umsvif bandaríska varnarliðsins mest hér á landi og síðan, eða á 21 ári hefur jafnt og þétt dregið úr þessum umsvifum.
Þegar ég færði fyrir því rök í september 1995, að við Íslendingar ættum að búa okkur undir að axla meiri ábyrgð á eigin öryggi og ljóst væri, að við hefðum styrk til að koma á laggirnar eigin varnarsveitum, brugðust samherjar mínir í stjórnmálum við með þögn en andstæðingar létu eins og þetta væri reginfirra. Ég taldi þá og raunar í ræðu og riti allt frá árinu 1991 einsýnt, að Bandaríkjamenn myndu draga úr viðveru sinni hér.
Hinn 15. mars 2006 tilkynnti Bandaríkjastjórn, að varnarliðið yrði horfið af landinu 1. október. Þessi afdráttarlausa tilkynning vakti undrun, því að íslensk stjórnvöld töldu á þeim tíma, að viðræður um framtíð varnarsamstarfsins stæðu yfir og þær myndu leiða til samkomulags um einhverja viðveru varnarliðsins.
Þegar tilkynningin barst, var jafnframt áréttað, að Bandaríkjastjórn vildi, að varnarsamningurinn frá 1951 gilti áfram. Ríkisstjórn Íslands kom saman 15. mars undir forsæti Halldórs Ásgrímssonar. Þar lögðu Halldór og Geir H. Haarde utanríkisráðherra til, að viðræðum yrði haldið áfram við Bandaríkjastjórn á grundvelli varnarsamningsins og studdi ríkisstjórnin og síðan þingflokkar hennar þá niðurstöðu.
Viðfangsefnið núna er þríþætt:
1. Að ná samkomulagi við Bandaríkjamenn um viðskilnað þeirra á Keflavíkurflugvelli.
2. Að skilgreina inntak varnarsamningsins og varnarsamstarfsins, eftir að varnarliðið er horfið af landinu.
3. Að endurskipuleggja íslenska stjórnkerfið með vísan til aukinnar ábyrgðar þess á öryggi þjóðarinnar.
Ég ætla ekki að ræða hér um viðskilnaðinn eða inntak framtíðarsamstarfsins í varnarmálum. Þau mál eru eins og áður sagði á viðkvæmu viðræðustigi milli ríkisstjórna landanna.
Fyrir nokkru sagði ég í samtali við breska blaðið The Daily Telegraph, að taktleysi Bandaríkjastjórnar í varnarviðræðunum við okkur kynni að koma henni í koll, ef til þess kæmi, að hún óskaði að nýju eftir aðstöðu fyrir herlið hér á landi.
Þessi saklausu varnaðarorð kölluðu á reiðileg viðbrögð á vefsíðu þjóðernissinnaðra Bandaríkjamanna, sem veltu fyrir sér, hvað einhver ráðherra á Íslandi vildi eiginlega upp á dekk.
Bush-stjórninni hefur eins og kunnugt er ekki verið sérlega annt um að afla sér vinsælda meðal annarra þjóða. Diplómatísk lipurð verður seint talin aðalsmerki hennar. Innan bandaríska stjórnkerfisins hafa þröngir hagsmunir varnarmálaráðuneytisins og sparnaðarkröfur við fjárlagagerð ráðið ferðinni í varnarviðræðunum við okkur Íslendinga.
Andrúmsloftið í þessum viðræðum hefur ekki endurspeglað samstarfsandann í samskiptum stjórnvalda landanna í öryggismálum á tímum kalda stríðsins, þegar leitast var við að ná í vinsemd samkomulagi um ágreiningsmál.
Eins og áður sagði ætla ég ekki að ræða varnarviðræðurnar að þessu sinni heldur víkja að þeim þætti þessa máls, sem snertir annað en bein tvíhliða samskipti okkar við Bandaríkin.
Innan íslenska stjórnkerfisins eða meðal íslenskra fræðimanna og sérfræðinga er ekki að finna þekkingu eða reynslu til að semja hernaðaráætlanir eða leggja mat á þann mannafla og tækjakost, sem þarf til að hrinda þeim í framkvæmd. Íslensk stjórnvöld hafa aldrei unnið að gerð hernaðaráætlana og ráða ekki yfir neinni þekkingu til þess. Þeir fræðimenn, sem mest fjalla um íslensk öryggismál, eru sagnfræðingar eða stjórnmálafræðingar.
Hér hafa heyrst þau pólitísku sjónarmið, að þátttaka í Evrópusambandinu og samvinnu ríkja þess um öryggis- og varnarmál, geti komið í stað varnarsamningsins. Yfirlýsingar af þessu tagi hljóta í besta falli að stafa af vanþekkingu á samvinnu ESB-ríkjanna um öryggis- og varnarmál. Samvinnan tekur ekkert sérstakt mið af því, sem er að gerast á Norður-Atlantshafi auk þess sem hún er mjög laus í reipunum, þegar hugað er að landvörnum einstakra ríkja.
Á hinn bóginn sannreyndi ég það í viðræðum við varnarmálaráðherra Frakka hinn 27. apríl 2006, að Frakkar telja mikilvægt að koma í veg fyrir, að hernaðarlegt tómarúm skapist á Norður-Atlantshafi hverfi Bandaríkjamenn með herafla sinn héðan og vilja auka ferðir herskipa sinna í nágrenni Íslands.
Þegar við skoðum stöðu okkar í varnar- og öryggismálum við nýjar aðstæður er eðlilegt, að rætt verði við Evrópuþjóðir, Dani, Norðmenn, Þjóðverja, Frakka og Breta um öryggisráðstafanir á hafinu og heimsóknir herskipa og herflugvéla frá þeim til Íslands.
Norðmenn hafa ákveðið að endurnýja herskip sín og kafbáta auk þess sem þeir halda úti sveit orrustuflugvéla við Norður-Atlantshaf. Endurnýjun á herafla þeirra stangast á við þau sjónarmið talsmanna bandaríska varnarmálaráðuneytisins, að ekki sé ástæða til neins sérstaks varnarviðbúnaðar á Íslandi eða Norðurslóðum.
Á sviði alþjóðlegs björgunarsamstarfs ber að huga að samningum og aukinni samvinnu við ýmsa aðila. Danir vilja ganga frá samningi við Íslendinga um samstarf flota síns og landhelgisgæslunnar. Huga þarf að beinu samstarfi við Færeyinga og Norðmenn á sviði björgunarmála. Skoða ber aðild að þríhliða samningi Bandaríkjanna, Kanada og Bretlands um björgunarmál. Þá er unnt að efla tengsl landhelgisgæslunnar og bandarísku strandgæslunnar.
Þegar varnarsamningurinn var gerður, lá skýrt fyrir, að hann lyti að landvörnum en íslensk stjórnvöld ætluðu sjálf að gæta innra öryggis þjóðarinnar. Þetta hefur ekki breyst í áranna rás. Nú eins og þá reiða íslensk stjórnvöld sig á lögregluvald en ekki hervald. Hin síðari ár hefur mesta breytingin í öryggismálum einmitt orðið í átt til þess, að hlutverk lögreglu hefur aukist.
Í lögreglustarfi er alþjóðleg samvinna meiri en áður vegna síaukinnar hættu á skipulagðri, alþjóðlegri glæpastarfsemi og hryðjuverkum. Schengen-samstarfið, sem hefur að meginmarkmiði að tryggja vegabréfalausa ferð milli landa og þar sem Íslendingar eru meðal þátttökuþjóða, snýst nú að verulegu leyti um samstarf í öryggismálum með þátttöku lögreglu, landamæra- og tollvarða. Europol, evrópsk lögregla, er komin til sögunnar og með samningum er stuðlað að því að auðvelda stjórnvöldum að grípa til skjótra úrræða gegn hvers konar ógn að öryggi borgaranna.
Í aðgerðum gegn hættu er lögð áhersla á að veita lögreglu heimild til að beita sérstökum rannsóknaraðferðum. Jafnframt hefur öryggislögregla eða leyniþjónusta verið endurskipulögð og efld í mörgum löndum samhliða eftirliti stjórnvalda með starfsemi slíkrar lögreglu í því skyni að vernda mannréttindi borgaranna.
Umræður um íslensk öryggismál hafa hnigið til þessarar áttar undanfarin misseri og ég tel til dæmis, að á alþingi hafi síðastliðið vor komið fram skilningur meðal þingmanna allra stjórnmálaflokka á þann veg, að lögreglumál hér á landi yrðu að þróast á sama veg og gerst hefur í öðrum löndum. Hér ætla ég að nefna sjö atriði, sem huga þarf að innan íslenska stjórnkerfisins og rökræða á opinberum vettvangi:
Í fyrsta lagi ber að efla og styrkja lögregluna á ýmsum sviðum, þar á meðal til að sinna hlutverki sem öryggislögregla með þeim heimildum og skyldum, sem því fylgja. Þegar hafa ýmsar mikilvægar breytingar verið gerðar eða eru í farvatninu eins og efling sérsveitar, stækkun lögregluumdæma og stofnun greiningardeildar.
Í öðru lagi ber að halda áfram að efla landhelgisgæsluna á grundvelli nýsamþykktra laga og með nýjum tækjabúnaði, þ.e. þyrlum, varðskipi og flugvél.
Í þriðja lagi þarf að standa vel að baki starfsemi björgunarsveita Slysavarnafélagsins Landsbjargar og árétta hlutverk þeirra sem hjálpar- og varaliðs.
Í fjórða lagi ber að fela slökkviliðinu á höfuðborgarsvæðinu (SHS) að sinna aðgerðum gegn hættu af sýkla- efna- og geislavopnum á landsvísu og koma hér upp fullkomnum búnaði til að bregðast við hættu af þeim toga.
Í fimmta lagi ber að leggja meiri áherslu en nú er á vettvangsvinnu tollvarða og áhættugreiningu þeirra við landamæravörslu í samvinnu við lögreglu.
Í sjötta lagi ber að skapa alþjóðlegt tengslanet á sviði öryggismála með því að senda fulltrúa til starfa hjá Europol og Interpol auk NATO. Þá verði lagt höfuðkapp á virka þátttöku í sameiginlegum öryggisviðbrögðum Schengen-ríkjanna. Loks verði tryggt sem verða má, að hingað til lands berist upplýsingar frá NATO, Evrópusambandinu og öðrum, sem auðvelda allt mat á hættu og greiningu á áhættu.
Í sjöunda lagi ber að setja ný lög um almannavarnir, sem taka mið af nýjum aðstæðum. Mikilvægt skref í þá átt að samhæfa almannavarnir og viðbrögð við vá almennt hefur verið stigið á undanförnum misserum með samhæfingar- og stjórnstöðinni í Skógarhlíð.
Við úrvinnslu á þessum atriðum verður óhjákvæmilegt að veita meiri fjármunum til starfsemi á þessum sviðum og þróun verkefna kallar vafalaust á nýtt skipulag og vinnubrögð innan stjórnarráðsins og aukna samvinnu ólíkra stofnana. Af brottför varnarliðsins leiðir til dæmis, að hlutverk utanríkisráðuneytisins breytist varðandi framkvæmd mála á Keflavíkurflugvelli.
Samkvæmt reglugerð um stjórnarráðið fer utanríkisráðuneytið með framkvæmd varnarsamnings Íslands og Bandaríkjanna, þar á meðal innan marka varnarsvæðanna, lögreglumál, dómsmál, tollamál, póst- og símamál, flugmál, radarstöðvamál, heilbrigðismál, félagsmál og önnur þau mál, er leiðir af dvöl hins erlenda varnarliðs í landinu.
Þessi skipan, sem gilt hefur síðan 1954, um að utanríkisráðuneytið fari eitt ráðuneyta með forræði mála á varnarsvæðunum, hefur leitt til þess, að ráðuneytið stjórnar allri íslenskri starfsemi á Keflavíkurflugvelli, þar á meðal flugstöð Leifs Eiríkssonar.
Þegar varnarliðið hverfur af landinu, hættir Keflavíkurflugvöllur að vera varnarsvæði undir utanríkisráðuneytinu og stjórn einstakra málaflokka innan vallarsvæðisins fellur því í hlut viðkomandi ráðuneyta. Þetta markar þáttaskil innan stjórnarráðsins og leiðir til nýrra starfshátta í ýmsu tilliti.
Með nýsamþykktum lögum um nýskipan lögreglumála er raunar stigið fyrsta skrefið í þessa átt að því er lögregluna varðar, en í lögunum segir, að sýslumaðurinn á Keflavíkurflugvelli verði lögreglustjóri á Suðurnesjum frá næstu áramótum.
*
Hættumat nú á tímum er annað en í kalda stríðinu, þegar talið var, að til innrásar í einstök ríki kynni að draga eða reynt yrði að bola ríkisstjórnum frá með valdi til að koma á nýjum stjórnarháttum. Nú er helst talin hætta á, að lífi óbreyttra borgara kunni að verða stefnt í voða með hryðjuverkum.
Franska ríkisstjórnin gaf nýlega út skýrslu um öryggisráðstafanir gegn hryðjuverkum í Frakklandi. Þar er hættan greind á þann veg, að Frakkar geti búist við viðvarandi hættu af ofbeldisverkum, sem undirbúin séu með leynd og unnin af einstaklingum eða samtökum þeirra en ekki af fulltrúum einhverra ríkja og þess vegna sé erfiðara en ella að sjá þau fyrir. Ódæðismennirnir stjórnist af hugmyndafræði í þágu alþjóðlegs málstaðar, sem eigi sér sögulegar rætur. Eitt af markmiðum þeirra sé að drepa eins marga franska borgara – eða útlendinga í Frakklandi – og kostur sé. Allar árasir þjóni málstaðnum. Mestu skipti, að þær hafi sem þyngst sálræn áhrif á ríkisvaldið og allan almenning.
Aðstoðarlögreglustjórinn í London sagði síðastliðinn mánudag, þegar kynntar voru ákærur á hendur 11 manns fyrir hryðjuverkasamsæri um að sprengja farþegaflugvélar á leið frá Bretlandi til Bandaríkjanna:
„Ég vil fullvissa almenning um, að við gerum allt, sem í okkar valdi stendur til að tryggja öryggi ykkar, svo að þið getið lifað lífinu án þess að búa við stöðugan ótta. Hryðjuverkaógnin er raunveruleg. Hún er fyrir hendi, hún er lífshættuleg og viðvarandi. Á sama tíma og við leitum að skýringum, getum við ekki leyft okkur að láta eins og ekkert sé og líta fram hjá þeim köldu staðreyndum, sem við okkur blasa. Rannsókn okkar er langt frá því að vera lokið. Umfangið er gífurlegt, við munum leita gagna um heim allan.“
Í skilgreiningu Frakka og lýsingunni á núverandi ástandi í Bretlandi er ógnvekjandi samhljómur. Breski lögreglustjórinn er að fjalla um atburði í innan við þriggja flugtíma fjarlægð frá Íslandi – og ferðum flugvéla fer sífjölgandi milli London og Keflavíkur.
Aðstæður eru vissulega ekki hinar sömu á Íslandi og í Frakklandi eða Bretlandi, þegar litið er til reynslu af hryðjuverkum eða spennu milli fólks með ólík trúarbrögð. Við búum hins vegar í sömu veröld og sama heimshluta og Frakkar og Bretar og getum ekki leyft okkur þann munað að líta fram hjá köldu mati þeirra á stöðu öryggismála í ljósi hættunnar af hryðjuverkum.
*
Um leið og þessi staða mála er metin er eins og jafnan áður nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að huga sérstaklega að þróun mála á Norður-Atlantshafi. Á tímum kalda stríðsins skapaðist þar mikil spenna vegna sóknar sovéska flotans í nágrenni Íslands.
Því fer víðs fjarri, að nú sé ástæða til að líta á þetta hafsvæðin við Ísland sem einhvern afkima. Allt bendir til þess að mikilvægi siglingaleiðanna austan og vestan Íslands á milli Norðurslóða og Norður-Ameríku eigi eftir að aukast í réttu hlutfalli við olíu- og gasvinnslu í Barentshafi. Áform um eflingu Landhelgisgæslu Íslands taka meðal annars mið af fjölgun risastórra olíu- og gasflutningaskipa á þessum slóðum.
Góðir áhreyrendur!
Undanfarna mánuði hafa umræðurnar um öryggismál okkar að verulegu leyti snúist um það, sem gerist í varnarviðræðunum við Bandaríkjamenn. Niðurstaðan í þeim skiptir vissulega miklu en mestu skiptir, um hvað næst samstaða meðal okkar Íslendinga sjálfra í þessum efnum. Við getum ekki fyrirfram látið eins og önnur lögmál gildi um Ísland á þessu sviði en önnur lönd. Við getum ekki heldur látið við það sitja, að gera aðeins kröfur til annarra í öryggismálum okkar.
Á næstu vikum verða teknar ákvarðanir um kaup á þyrlum, nýrri flugvél og nýju varðskipi fyrir Landhelgisgæslu Íslands eða um milljarða fjárfestingu í því skyni að styrkja þann þátt í öryggisgæslu þjóðarinnar.
Við þurfum að ræða, hvort nauðsynlegt sé að stofna hér leyniþjónustu og hvernig það yrði gert, ef um það næðist nægileg pólitísk samstaða. Í þessu efni hefur dóms- og kirkjumálaráðuneytið notið sérfræðilegrar ráðgjafar frá Evrópusambandinu og ég mun beita mér fyrir umræðum um þetta mál.
Schengen-samstarfið heldur áfram að þróast og verður vafalaust mikilvægari samstarfsvettvangur um öryggismál, þegar fram líða stundir. Evrópunefnd, skipuð fulltrúum allra stjórnmálaflokka, mun í byrjun september boða hér til fjölþjóðlegrar ráðstefnu um þetta samstarf og þróun þess í því skyni að lýsa sem best umgjörðinni um hið mikilvæga starf á sviði öryggismála, sem þar er unnið.
Þá er stefnt að því að efna hér til ráðstefnu sérfræðinga um öryggismál á hafinu í ljósi olíu- og gasvinnslu í Barentshafi og ferða risaskipa í nágrenni Íslands.
Ég ítreka þakkir fyrir boðið á fund ykkar og vona, að þið séuð nokkru vísari um, að á vettvangi dóms- og kirkjumálaráðuneytisins og ríkisstjórnarinnar er af mikilli alvöru litið til þeirra ráðstafana, sem nauðsynlegar eru við þessi þáttaskil í öryggis- og varnarmálum þjóðarinnar.