28.3.2024

Á barmi ginnungagapsins

Morgunblaðið, fimmtudagur, 28. mars 2024.

Kúbu­deil­an 1962 ★★★★· Eft­ir eft­ir Max Hastings. Magnús Þór Haf­steins­son þýðir. Ugla, 2023. Innb., 559 bls., ljós­mynd­ir, kort og skrár.

Bók­in heit­ir á frum­mál­inu Abyss. The Cu­ban Missile Cris­is 1962. Enska orðið abyss er meðal ann­ars ís­lenskað með orðinu ginn­ungagap sem er sam­kvæmt heims­mynd nor­rænn­ar goðafræði gapið mikla eða frum­rýmið fyr­ir til­urð heims­ins (raun­ar er ginn­ungagap einnig notað í ensku máli). Með því að nota þetta magnþrungna orð í titli bók­ar sinn­ar dreg­ur Max Hastings at­hygli að þeim kjarna henn­ar að hefðu menn mis­stigið sig í Kúbu­deil­unni árið 1962 hefði heim­ur­inn all­ur horfið ofan í þetta mikla gap í gjör­eyðing­ar­stríði með kjarn­orku­vopn­um.

Fyrstu al­manna­varna­lög­in voru sett hér á landi árið 1962. Við kynn­ingu á þeim var ekki síst lögð áhersla á al­menn­an viðbúnað kæmi til kjarn­orku­styrj­ald­ar. Op­in­ber­ar bygg­ing­ar sem voru reist­ar um þetta leyti voru hannaðar með það fyr­ir aug­um að þær gætu nýst sem kjarn­orku­byrgi og má til dæm­is nefna hús Mennta­skól­ans við Hamra­hlíð til marks um það.

Bók­in Kúbu­deil­an 1962 kom út árið 2022 þegar 60 ár voru liðin frá þess­um miklu ör­laga­at­b­urðum. Nú þegar hún kem­ur út í ís­lenskri þýðingu Magnús­ar Þórs Haf­steins­son­ar er það sama vet­ur­inn og kvik­mynd­in Opp­en­heimer slær í gegn og fær hver verðlaun­in eft­ir önn­ur. Í mynd­inni má kynn­ast sög­unni af því þegar Banda­ríkja­menn réðust í að smíða fyrstu kjarn­orku­sprengj­una en Robert Opp­en­heimer er kallaður faðir henn­ar.

Í Kúbu­deil­unni gerði Níkíta Krú­sjoff, leiðtogi Komm­ún­ista­flokks Sov­ét­ríkj­anna, sér leik að því að færa heim­inn fram á kjarn­orku­stríðsbrún­ina, að ginn­ungagap­inu, með því að senda eld­flaug­ar og kjarna­odda til Kúbu. Hann veðjaði á að geta komið árásar­eld­flaug­um fyr­ir á Kúbu án þess að Banda­ríkja­menn eða aðrir yrðu þess var­ir, síðan gæti hann komið öll­um heim­in­um á óvart „og fengið jörðina til að nötra með því að til­kynna þetta hjá Sam­einuðu þjóðunum í nóv­em­ber [1962], og það gæti breytt jafn­væg­inu í kalda stríðinu“ (322).

Þetta er þriðja bók­in sem Magnús Þór Haf­steins­son þýðir á ís­lensku eft­ir Max Hastings til út­gáfu hjá Uglu, hinar tvær eru Vít­islog­ar – Heim­ur í stríði 1939-1945 (útg. 2021) og Kór­eu­stríðið 1950-1953 (útg. 2022). Fyrri bæk­urn­ar tvær snú­ast að meg­in­efni um hernað og stríðsátök.

Í bók­inni um Kúbu­deil­una vitn­ar Max Hastings oft­ar en einu sinni til orða sem Robert McNa­m­ara, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, lét falla á maraþon­fund­um æðstu manna Banda­ríkj­anna með John F. Kenn­e­dy for­seta í Hvíta hús­inu í októ­ber 1962. McNa­m­ara sagði að þessi deila væri stjórn­mála­leg en ekki hernaðarleg.

Að ís­lenska diplóma­tísk­an texta um herfræðileg kjarn­orku­efni þar sem ann­ar aðil­inn, Krú­sjoff, beit­ir auk þess lyg­um er oft flókn­ara en að segja frá og lýsa hernaði þótt ís­lensk­an sé ekki alltaf auðveld viður­eign­ar á því sviði. Stund­um er text­inn tyrf­inn.

Aae8b7a5-cb6d-4411-8791-d1215be4904e

Við þýðing­una er ekki far­in sú leið að um­rita rúss­nesk manna­nöfn eft­ir ís­lensk­um regl­um, þótt nafn Krú­sjoffs sé skrifað á þann hátt sem hér er gert. Á ein­um stað er McNa­m­ara rang­lega sagður ut­an­rík­is­ráðherra (357). Enska orðið cris­is er ís­lenskað sem kreppa, krísa eða hættu­ástand. Kreppa nær því ekki vel sem þarna er um að ræða.

Aðfinnsl­ur af þessu tagi mega sín lít­ils þegar litið er til ít­ar­legs text­ans í heild með ljós­mynd­um og skrám um heim­ild­ir og nöfn. Höf­und­ur lauk við verkið árið 2022 eft­ir að Vla­dimir Pút­in sendi rúss­neska her­inn inn í Úkraínu af engu til­efni. Það var einnig að til­efn­is­lausu síðsum­ars árið 1962 sem Krú­sjoff stofnaði til Kúbu­deil­unn­ar. Rúss­nesk­ir valds­menn ráða ekki nú frek­ar en fyrri dag­inn við þörf­ina á að ögra Banda­ríkj­un­um í gegn­um milliliði.

Í upp­hafi bók­ar­inn­ar er sagt frá illa ígrunduðum og mis­heppnuðum til­raun­um til að ná Kúbu úr hönd­um Castros og komm­ún­ist­anna. Allt var það brölt niður­lægj­andi fyr­ir Banda­ríkja­menn og leiddi til þess að John F. Kenn­e­dy og bróðir hans Robert dóms­málaráðherra fyr­ir­litu Castro en yf­ir­menn Banda­ríkja­hers iðuðu í skinn­inu og biðu fær­is til að geta sýnt hon­um í tvo heima.

An­astas Mikoy­an gekk einna næst Krú­sjoff að völd­um. Hann var send­ur í „könn­un­ar­ferð“ til Kúbu í fe­brú­ar 1960. Lýs­ing­in á mót­tök­un­um hjá Castro og mönn­um hans er kát­leg. Castro heillaði hins veg­ar Mikoy­an með því að lýsa sér sem „skápa­komma“ frá náms­ár­um sín­um. Castro þurfti á stór­veldi að halda vegna vinslita við Banda­rík­in. Mikoy­an sneri til Moskvu með þann boðskap að Castro væri „ekta bylt­ing­armaður“, al­veg eins og Kreml­verj­ar (173).

Sov­ét­menn gerðu viðskipta­samn­ing við Kúbu og björguðu með því gjaldþrota þjóð. Síðan leiddi eitt af öðru. Þar til upp úr sauð gagn­vart Krú­sjoff þegar Castro krafðist þess að sov­ésk­um kjarn­orku­sprengj­um yrði skotið á Banda­rík­in sér til varn­ar. „Í því augnamiði sýndi hann al­gert skeyt­ing­ar­leysi gagn­vart kjarn­orku­stríði sem var ekki sæm­andi nokk­urri mann­eskju …“ (406).

Mynd­in af Krú­sjoff er ekki geðþekk. Hann fer sínu fram með bægslagangi sem ein­kenn­ist af mennt­un­ar­leysi og óbil­girn­inni í æðstu valda­stöðum inn­an Kreml­ar. Hann vill ann­ars veg­ar skipa sér kjarn­orku­vopnasess á alþjóðavett­vangi við hlið Banda­ríkja­for­seta og hins veg­ar sýna sam­flokks­mönn­um sín­um á heima­velli að hann sé karl í krap­inu. Vopn­in snú­ast í hönd­un­um á hon­um og Kenn­e­dy aðstoðar hann að lok­um við að bjarga and­lit­inu.

John F. Kenn­e­dy er hetja sög­unn­ar. „Hann setti fram mark­vissa áætl­un sem sýndi festu hans og banda­rísku þjóðar­inn­ar, en jafn­framt var öllu hafnað sem hefði getað leitt til tor­tím­ing­ar jarðar.“ Hann hafði ein­stæðan hæfi­leika til að leggja við hlust­ir og þoka mönn­um til skýrra og skyn­sam­legra ákv­arðana á fund­un­um í Hvíta hús­inu. Hann hafði ósk­ir hers­ins um stríð á hend­ur Castro að engu og nán­ast frá byrj­un ákvað hann að semja við Sov­ét­menn. Það var þó ekki kostnaðarlaust fyr­ir hann að ná því ófrá­víkj­an­lega mark­miði sínu að tryggja brott­flutn­ing sov­ésku eld­flaug­anna frá Kúbu (485).

Í sam­komu­lag­inu fólst meðal ann­ars að Banda­ríkja­menn myndu ekki leit­ast við að bola Castro frá völd­um. Stjórn­ar­hætt­ir hafa lítið breyst á Kúbu frá því að harðstjórn komm­ún­ista var inn­leidd. Þar er nú fá­tækt­ar- og spill­ing­ar­sam­fé­lag.

Gíf­ur­leg­an fróðleik er að finna í þess­ari bók Hastings. Öðrum þræði lýs­ir hann fram­vindu og átaka­mál­um kalda stríðsins með kjarna­vopn­in og ólík­ar kenn­ing­ar um gildi þeirra sem leiðar­hnoð. Þær vanga­velt­ur eiga brýnt er­indi við sam­tím­ann. Á dög­un­um veifaði Pút­in enn og aft­ur rúss­nesku kjarna­vopn­un­um.

Vegna þess að sov­éska stjórn­málaráðið gat ekki treyst Krú­sjoff var hon­um ýtt til hliðar árið 1964. Tök Pút­ins á rúss­neska valda­kerf­inu eru miklu meiri en Krú­sjoffs á sín­um tíma. Að hann nái kjöri í fimmta sinn sem for­seti þrátt fyr­ir að fórna mörg hundruð þúsund manns í til­efn­is­lausu stríði og geti setið til 2030 sann­ar það best.

Í Kúbu­deil­unni 1962 er dreg­in at­hygli að því að kjarna­vopn­in hafa ekki aðeins fæl­ing­ar­mátt gegn ytri and­stæðingi held­ur eru þau hem­ill inn á við á þann sem ræður yfir þeim. Ákvörðunin um að opna ginn­ungagapið er svo ógn­væn­leg að jafn­vel for­hert­ustu ill­menni hika þegar á hólm­inn er komið.