28.5.2021

Afhjúpunin skók akademíuna

Umsögn um bók, Morgunblaðið, 28. maí 2021

Klúbburinn ***½-

Klúbburinn Eft­ir Matildu Voss Gustavs­son. Þýðandi Jón Þ. Þór. Kilja, 282 bls. Útgef­andi: Ugla, Reykja­vík 2021.

Eft­ir lest­ur bók­ar Matildu Voss Gustavs­son (34 ára) um #met­oo-hneykslið sem skók sænsku aka­demí­una í nóv­em­ber 2017 undr­ast eng­inn að ári síðar hafi hún fengið stóru sænsku blaðamanna­verðlaun­in (Stora journa­list­pri­set) fyr­ir upp­ljóstrun árs­ins í grein sinni í Dagens Nyheter ( DN ) sem sagði frá áreiti menn­ing­ar­frömuðar í garð 18 kvenna. Tveim­ur árum síðar, í nóv­em­ber 2019, sendi Voss Gustavs­son frá sér bók­ina Klúbb­inn , gef­in út á ís­lensku af Uglu í þýðingu Jóns Þ. Þórs sagn­fræðings.

Í bók­inni er ekk­ert dregið und­an í lýs­ing­um á því hvernig menn­ing­ar­frömuður­inn (s. kult­ur­profi­len) Jean-Clau­de Arnault hagaði sér. Hálf­m­is­heppnaður Frakki sem þvæld­ist til Stokk­hólms og dró að sér at­hygli á veit­inga­stöðum vegna hár­greiðslu, klæðaburðar og grobbs. Hann kvænt­ist ungri, virtri skáld­konu, Kat­ar­inu Frosten­son, sem sat í sænsku aka­demí­unni. Sam­an ráku þau einka­klúbb, For­um, sem varð eins kon­ar for­dyri að viður­kenn­ingu og styrkj­um frá aka­demí­unni með vel­vild sænsku menn­ing­arelít­unn­ar.

Orðróm­ur um kyn­ferðis­legt of­beldi tengd­ist For­um. Matilda Voss Gustavs­son fékk heim­ild menn­ing­ar­rit­stjórn­ar DN til að rann­saka sann­leiks­gildi hans. Í bók­inni lýs­ir hún stig af stigi til hvers rann­sókn­ar­blaðamennsk­an leiddi og hverj­ar af­leiðing­arn­ar urðu þegar hún birti ít­ar­lega rök­studda grein sína.

G7416J69B

Fyr­ir fjöl­miðlamenn er þetta kennslu­bók í vönduðum vinnu­brögðum við rann­sókn­ar­blaðamennsku. Blaðamaður­inn varð að ávinna sér trúnað fjölda kvenna. Hvort sem þær vildu koma fram und­ir nafni eða ekki beindi birt­ing frá­sagna þeirra at­hygli að þeim sem þolend­um. Þær hefðu ekki treyst hverj­um sem var fyr­ir svo viðkvæm­um einka­mál­um.

Þá vissi Matilda Voss Gustavs­son að snú­ist yrði hart til varn­ar af klúbb­fé­lög­un­um, menn­ing­ar­frömuðinum og áhrifa­mikl­um vin­um hans. Þeim hafði áður tek­ist að kæfa í fæðingu umræður vegna frá­sagn­ar blaðs af myrkra­verk­um í For­um. Áhrifa­vald menn­ing­ar­vita í sænsku aka­demí­unni er mikið og þeir njóta náðar kon­ungs. Það þarf mik­inn slag­kraft til að þessi menn­ing­ar­legi mátt­ar­stólpi nötri. Matilda Voss Gustavs­son og Dagens Nyheter höfðu hann.

Í nóv­em­ber 2017 var Sara Danius, rit­höf­und­ur og pró­fess­or í bók­mennt­um, rit­ari aka­demí­unn­ar, fyrst kvenna kjör­in til þess. Í bók­inni er samúðin með Söru Danius og viðbrögðum henn­ar við birt­ingu grein­ar­inn­ar í DN . Inn­an aka­demí­unn­ar var hún milli tveggja elda og átti ekki ann­an kost en að víkja þaðan í apríl 2018. Sara Danius lést úr krabba­meini í októ­ber 2019, áður en bók­in birt­ist.

Jón Þ. Þór sagn­fræðing­ur þýðir Klúbb­inn lip­ur­lega á ís­lensku og renn­ur text­inn vel. Vegna margra dag­setn­inga hefði auðveldað lest­ur­inn að hafa jafn­an ár­tal með dag­setn­ingu. Þá hefði nafna­skrá einnig nýst vel. Loks má minna á regl­una um eign­ar­fall karl­manns­nafna. Það telst rök­rétt og í bestu sam­ræmi við ís­lenska mál­hefð að beygja í eign­ar­falli bæði eig­in­nafn og ætt­ar­nafn sem karl ber.

Jean-Clau­de Arnault var dæmd­ur 3. des­em­ber 2018 í tveggja og hálfs árs fang­elsi. Kat­ar­ina Frosten­son samþykkti að víkja úr aka­demí­unni eft­ir að fall­ist var á kröfu henn­ar um að fá að búa áfram í íbúð aka­demí­unn­ar í Vasast­an í Stokk­hólmi og að henni yrðu greidd­ar 13.000 sænsk­ar krón­ur á mánuði til æviloka svo að hún gæti helgað sig skáld­skap.

Af­hjúp­un Matildu Voss Gustavs­son vakti heims­at­hygli og varð til þess á ár­inu 2018 að regl­um aka­demí­unn­ar var breytt á þann veg að eng­inn er neydd­ur til að sitja þar til æviloka. Á ár­inu 2018 var út­hlut­un bók­mennta­verðlaun­anna frestað um eitt ár. Efnis­tök blaðakon­unn­ar og trú­verðug­leiki henn­ar ásamt hug­rekki og vandaðri rit­stjórn Dagens Nyheter sannaði þarna hverju góð blaðamennska fær áorkað.