8.3.2023

Áhrif Úkraínustríðsins

Erindi flutt í Rótarýklúbbi Reykjavíkur, 8. mars 2023.

Þegar hugað er að áhrifum stríðsins í Úkraínu er til margs að líta:

Áhrifin eru augljós á alþjóðaviðskipti, orkuflutninga, efnahag og verðbólgu.

Mannlegar hörmungar eru gífurlegar. Talið er að um 14 milljónir manna í Úkraínu hafi yfirgefið heimili sín vegna stríðsins og flutt innan lands eða til annarra landa.

Fæðuöryggi hefur raskast og mannréttindi hafa verið brotin.

Hundruð þúsunda manna hafa fallið. Markvisst hefur verið vegið að almennum borgurum í Úkraínu og grunnvirkjum samfélags þeirra, sjúkrahúsum og skólum.

Háð er áróðursstríð, barist er í netheimum, tölvuþrjótar láta að sér kveða og dreift er röngum upplýsingum.

Áhrifin eru með öðrum orðum meiri en unnt er að lýsa á fimmtán til tuttugu mínútum. Hér verður því litið til þriggja þátta: áhrifanna á alþjóðastjórnmál, á íslenska þjóðaröryggisstefnu og loks hvernig koma megi á friði.

*

Með stríðinu er vegið að grunnreglum heimsfriðar og öryggis. Reglurnar banna að ráðist sé inn yfir landamæri annars lands og vegið að fullveldi þess.

Landamæri Úkraínu bar Rússum auk þess að virða samkvæmt samningi frá 1994 sem kenndur er við Búdapest. Þá afsöluðu Úkraínumenn sér kjarnavopnum gegn friðhelgi landamæra sinna.

Vegna innrásarinnar voru Rússar til dæmis reknir úr Evrópuráðinu eftir 26 ára aðild að því. Hlé var gert á samvinnu við þá í Norðurskautsráðinu og þannig má áfram rekja. Rætt er um að koma á fót sérstökum fjölþjóðlegum dómstóli til að fjalla um tugþúsundir stríðsglæpa Rússa.

Það þóttu því nokkur tíðindi í síðustu viku þegar utanríkisráðherrar Bandaríkjanna og Rússlands hittust á 10 mínútna fundi. Þetta gerðist í Delí, höfuðborg Indlands, til hliðar við utanríkisráðherrafund G20 hópsins, það er hóps 19 auðugustu ríkja heims og ESB.

Fundur ráðherranna tveggja táknaði að þrátt fyrir allt gætu þeir talað saman. Á G20 fundinum náðist engin samstaða. Hlegið var að Sergei Lavrov á ráðstefnu hugveitu í Delí þegar hann sagði Úkraínuher handbendi Vesturlanda í stríði sem þau hefðu hafið gegn Rússum.

Frá sovéttímanum hafa Indverjar átt náið samstarf við Rússa. Um tveir þriðju vopnabúnaðar Indverja kemur frá Rússlandi. Indlandsstjórn hefur aldrei gagnrýnt innrásina, segist hún fylgja „jafnvægisstefnu“. Olíukaup Indverja frá Rússum á lágu verði hafa stóraukist á stríðstímanum.

Indverjar eru í hópi þjóðanna sem sitja hjá við atkvæðagreiðslur um Úkraínumálið á allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna.

Síðasta fordæming á innrás Rússa var samþykkt þar 24. febrúar með atkvæði 141 ríkis – 32 sátu hjá en sex greiddu atkvæði með Rússum. (N-Kórea, Sýrland, Belarús, Eritrea, Malí og Nikaragua.)

Stríðið er að festa í sessi nýtt og margpóla mynstur á alþjóðavettvangi.

Við sem búum á Vesturlöndum eigum erfitt með að skilja að meirihluti mannkyns sé ekki alfarið á okkar bandi í fordæmingu á Rússum vegna blóðbaðsins.

Fulltrúar fjölmennra þjóða, Indverja, Kínverja, Indónesa, Brasilíumanna og Suður-Afríkumanna sitja hjá á allsherjarþinginu. Sumar þeirra eru á girðingunni ef svo má segja, eins og Indverjar, aðrar standa Rússum nærri eins og Kínverjar.

Fyrirboðar þessa klofnings hafa sést undanfarin ár. Um þetta leyti árs 2007 sótti Vladimir Pútin öryggisráðstefnuna í München og sagðist ekki sætta sig lengur við einpóla-heim undir forsjá Bandaríkjanna. Ræðan er nú talin hafa markað sögulegri þáttaskil en þá var ætlað.

Fyrir þremur árum þegar ég ferðaðist til skýrslugerðar um utanríkis- og öryggismál til höfuðborga Norðurlandanna var oftar en einu sinni nefnt að í alþjóðastofnunum ættu norræn og vestræn lýðræðisgildi æ meira undir högg að sækja.

Kínverjar sættu sig ekki við leikreglur sem mótaðar hefðu verið undir forystu Bandaríkjastjórnar eftir aðra heimsstyrjöldina án aðildar Kína að Sameinuðu þjóðunum. Þessar reglur ættu ekki endilega að gilda sem alþjóðareglur eða stofnskrár alþjóðastofnana nú á tímum.

Nefnt skal eitt dæmi um vandræði vegna þessa: Eftir að kórónuveiran barst frá Kína sættu hikandi viðbrögð stjórnenda Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar gagnvart Kínastjórn ámæli. Margir töldu þá að Kínverjar hefðu undirtökin í stofnuninni. Framkvæmdastjórinn starfaði í skjóli þeirra. Kínverjar fengu að ráða hvaða vísindamenn stofnunin sendi til að rannsaka upptök veirunnar. Síðan hefur uppruni hennar verið á gráu svæði.

Ótti margra er að Kínverjar taki að afhenda Rússum vopn meðal annars til að sjá hvernig þau virka með hliðsjón af stríðinu sem þeir undirbúi stig af stigi til að ná Tævan.

Óvildin í garð Vesturlanda hafði skotið djúpt rótum í Kreml áður en Pútin sendi rússneska herinn inn í Úkraínu. Síðan hefur hún breyst í heiftarboðskap sem haldið er markvisst að Rússum og vinum þeirra. Dæmi um hve áróðurinn er ósvífinn mátti til dæmis sjá á dögunum í grein sendiherra Rússlands í Morgunblaðinu. Hlegið var af Lavrov og púað á hann þegar hann talaði á sömu nótum í Delí.

Afleiðing stríðsins gæti orðið sú að Bandaríkjastjórn minnkaði áherslu á þá frjálslyndu skipan alþjóðakerfisins sem hún lagði grunn að eftir aðra heimsstyrjöldina. Hún legði þess í stað höfuðkapp á vestræna samstöðu meðal lýðræðisríkja til að styrkja stöðu sína gegn Kína.

Stórpólitíski alþjóðlegi ágreiningurinn breikkar gjána á milli lýðræðisríkja annars vegar og valdboðs- eða einræðisríkja hins vegar.

Þetta veldur ekki aðeins óvissu í öryggismálum heldur einnig í alþjóðaviðskiptum og fjárfestingum.

Alþjóðaviðskiptastofnunin, WTO, segir niðurstöður rannsókna sýna að skil milli þessara ólíku ríkjahópa myndu rýra heimsbúskapinn um 12% – sem er ekkert smáræði.

Viðskipta- og efnahagstengsl eru almennt talin besta úrræðið til að tryggja friðsamleg samskipti milli þjóða enda breytist þau ekki í andhverfu sína. Það gerðist því miður þegar þjóðir á meginlandi Evrópu urðu svo háðar rússnesku gasi og olíu að Pútin taldi þær ekki þora að snúast gegn sér í Úkraínu.

Verð á gasi og olíu hefur hækkað um 28% frá því stríðið hófst. Þetta hefur fleytt rússnesku þjóðarskútunni áfram en við blasir að hún strandar fyrr en síðar vegna stríðsins og efnahagslegra refsiaðgerða.

*

Þá er komið að öðrum þætti máls míns. Viðbrögðum við stríðinu hér í okkar heimshluta.

Á austurvæng NATO verður lögð áhersla á framvarnir eins og gert var í Vestur-Þýskalandi í kalda stríðinu þegar um 300.000 bandarískir hermenn voru þar í varanlegum herstöðvum. Nú eru um 10.000 bandarískir hermenn í Póllandi en þeir eiga þar enga varanlega herstöð þrátt fyrir ítrekaðar óskir pólskra stjórnvalda.

Þegar Joe Biden forseti heimsótti Kyív og Varsjá á dögunum átti hann fund með svonefndum B9-ríkjum innan NATO, gömlum leppríkjum Sovétríkjanna í mið- og austurhluta Evrópu. Ríkin vilja öll meiri bandarískan herafla í löndum sínum.

Þróttmiklum framvörnum NATO í austurhluta Evrópu er ætlað að tryggja að Rússum sé örugglega haldið í skefjum með öflugum fælingarmætti.

Með aðild Finnlands að NATO verða til 1340 km löng sameiginleg landamæri bandalagsins og Rússlands. Hernaðarlegt framlag Finna og Svía til NATO með virkri þátttöku Bandaríkjamanna skapar þarna nauðsynlegt mótvægi við Rússa.

Aðild allra norrænu ríkjanna að NATO veldur grundvallarbreytingu á skipulagi varna á norðurvæng bandalagsins andspænis rússneska Norðurflotanum á Kólaskaga, helsta kjarnorkuherafla Rússa. Mikilvægi hans eflist eftir því sem afhroð landhers Rússa verður meira í Úkraínu.

Að innrásarhernum vegni svona illa vegna skipulagsleysis, slakrar herstjórnar, illa þjálfaðra liðsmanna og lélegs búnaðar hefur komið vestrænum herfræðingum hvað mest á óvart.

Nýlega efndu flotar Kínverja, Rússa og Suður-Afríku til sameiginlegra æfinga undan ströndum S-Afríku. Rússar sendu þangað flugskeyta-freigátuna Admiral Gorshkov með fylgdarskipi úr Norðurflotanum. Þegar spurt var af hverju S-Afríkuher ætti aðild að æfingunni var svarið einfalt: stjórn S-Afríku á svo mikið undir viðskiptum við Kína. Æfingin var liður í að minna á að vinir Rússa séu víða og að rússneski herflotinn sé öflugur hvað sem öðru líður.

Þrengt er að flota Rússa á Eystrasalti og á Svartahafi. Rússnesk herskip sýna sig enn á Miðjarðarhafi en Norðurflotinn sem nú hefur stöðu rússneskrar herstjórnar sækir æ meira í sig veðrið.

Engar staðfestar tölur liggja fyrir um mannfall í landher Rússa í Úkraínu. Þær teygja sig hjá sumum upp í 200.000. Stig af stigi hefur Pútin hert tökin á rússnesku samfélagi í skjóli þeirra blekkinga að hann verji það gegn árás Bandaríkjamanna og NATO.

Danskur diplómat tók saman 10 punkta til að lýsa pólitískum áhrifum ákvarðana Pútins um innrásina:

1. Hann hefur lagt hornstein að frekari stækkun NATO.

2. Hann hefur styrkt ESB.

3. Hann hefur myndað úkraínska þjóð í fyrsta sinn í sögunni.

4. Hann hefur gengið fram af nánustu samstarfsþjóðum sínum.

5. Hann hefur sameinað repúblikana og demókrata á Bandaríkjaþingi.

6. Hann hefur tapað alstærsta orkumarkaði sínum, Evrópu.

7. Hann hefur vegið að eigin efnahagsgrundvelli.

8. Hann hefur stuðlað að því að þeir sem eru bestir og skarpastir meðal ungra Rússa yfirgefa land sitt.

9. Hann hefur stórminnkað hræðslu annarra þjóða við rússneska herinn.

10.Hann er til margra ára háður helsta keppinauta sínum, Kínverjum.

(Ulrik Vestergaard Knudsen, Berlingske, 19.02.23)

Alþingi samþykkti í liðinni viku uppfærslu á þjóðaröryggisstefnunni sem hafði verið óbreytt frá því að hún var upphaflega samþykkt árið 2016.

Þá sátu þingmenn vinstri grænna hjá við atkvæðagreiðsluna en nú völdu píratar þann kost. Stefnan er meðal annars reist á aðild okkar að NATO og varnarsamningnum við Bandaríkin.

Þegar tillagan var lögð fyrir þingið nú var í texta hennar ekki minnst á varnir landsins en utanríkismálanefnd bætti tveimur orðum um þær inn í endanlegu ályktunina.

Þögnina um hernaðarlega þáttinn má rekja til skorts á tillögum sem mótast af reynslu og þekkingu á þessu sviði. Hún er hvorki til hjá ríkinu né annars staðar og engin augljós áform eru um að leggja grunn að henni.

Arnór Sigurjónsson, fyrrverandi skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu utanríkisráðuneytisins, segir í bókinni Íslenskur her sem hann gaf út nú 4. mars að skortur á íslenskum herafla leiði af sér að við ráðum hvorki yfir sérfræðikunnáttu og þekkingu né viðbragðsliði til að mæta óvæntum ógnum þar til aðstoð berst frá öðrum.

Þessi staðreynd ásamt skorti á fræðilegu rannsóknarsetri hér á sviði öryggis- og varnarmála samhliða almennu áhugaleysi stjórnmála- og fjölmiðlamanna leiðir til þess að íslensk stjórnvöld þegja um hvert stefnir í hermálum í okkar heimshluta og hvað gera þurfi vegna breytinga sem hafa orðið.

Breytingarnar hafa þó að sjálfsögðu áhrif hér á Norður-Atlantshafi eins og sjá má af grunnstefnu NATO sem samþykkt var í Madrid í júní 2022 og samstarfsyfirlýsingu norrænu forsætisráðherranna um öryggismál frá ágúst 2022.

Norræn viðhorf í öryggismálum hafa gjörbreyst á innan við einu ári. Af fjölmörgu sem má tíunda skulu nefnd sex atriði:

1. Finnar og Svíar hafa sótt um aðild að NATO.

2. Norðmenn hafa hækkað viðbúnaðarstig herafla síns og aukið varnir gegn skemmdarverkum á hafi úti.

3. Danir leggja nú mun meiri áherslu á varnir Grænlands og Færeyja en þeir hafa nokkru sinni gert.

4. Ákveðið hefur verið að opna ratsjá í þágu NATO í Færeyjum sem lokað var árið 2007.

5. Kynntar hafa verið hugmyndir um að Danir ætli að breyta flugvellinum í Syðri-Straumfirði á Grænlandi í herstöð á næsta ári.

6. Norrænu ríkin fjögur, án herlausa Íslands, hafa mótað samræmda varnaráætlun og vilja norrænt herstjórnarsvæði í NATO.

Þetta eru aðeins dæmi, listinn gæti orðið miklu lengri. Veit einhver hvar Ísland stendur í þessu tilliti?

Upplýsingar um framkvæmdir á vegum mannvirkjasjóðs NATO í landinu eru torséðar en þangað greiðum við árlegt framlag. Draga má í efa að þjóðinni sé ljóst að uppfærsla hernaðarmannvirkja á Keflavíkurflugvelli hefur ekki verið meiri í 40 ár. Nú eru framkvæmdirnar allar undir forsjá íslenskra yfirvalda og jafnframt öryggisgæsla vegna þeirra.

Fyrir skömmu gaf Miðstöð herfræða við Kaupmannahafnarháskóla út rannsóknarskýrslu um þróun utanríkis- og öryggismála á norðurslóðum og Norður-Atlantshafi fram til ársins 2035.

Höfundar skýrslunnar hafa engar efasemdir um að hlutur norðurslóða og þar með Norður-Atlantshafs eigi aðeins eftir að vaxa við töku ákvarðana um utanríkis- og öryggismál bæði á alþjóðavettvangi og innan danska konungsríkisins.

Veðjað er á forystu Bandaríkjamanna í okkar heimshluta og lagt á ráðin um hvernig best sé að haga samskiptum við þá. Talið er víst að þegar áhrifa nýrrar Atlantshafsherstjórnar NATO í Norfolk í Bandaríkjunum fari að gæta láti fleiri þjóðir að sér kveða hernaðarlega á Norður-Atlantshafi en nú og þeirri hugmynd er hreyft að danski herinn taki að sér forystu við að skipuleggja sameiginlegar æfingar og annað á Norður-Atlantshafi.

Fram til 2006 fóru Bandaríkjamenn í Keflavíkurstöðinni með forystu á Norður-Atlantshafi í umboði Atlantshafsherstjórnar NATO í Norfolk. Nú hafa Danir áhuga á að láta meira að sér kveða í nafni NATO-herstjórnarinnar hér á okkar slóðum.

Download-1-NorfolkÞessi mynd með merki herstjórnar NATO í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum var birt þegar herstjórnin tók formlega til starfa við hátíðlega athöfn um miðjan júlí 2021.

Í greinargerð með þjóðaröryggisstefnunni sem nú hefur verið samþykkt segir: „Ný Atlantshafsherstjórn NATO í Norfolk í Virginíuríki í Bandaríkjunum gegnir því hlutverki að tryggja öryggi og varnir siglingaleiða yfir Norður-Atlantshaf, í GIUK-hliðinu og norður í Íshaf.“ Ekkert er gefið til kynna um hvernig íslensk stjórnvöld ætli að láta að sér kveða eða bregðast við breyttum hernaðarlegum aðstæðum hér á okkar slóðum.

Að því kemur fyrr en síðar að ríkisstjórnin verður að taka ákvarðanir vegna áætlana Atlantshafsherstjórnarinnar. Þá er einnig nauðsynlegt að fyrir liggi hvernig Ísland tengist nýrri sameiginlegri norrænni herstjórn innan vébanda NATO.

Öll óvissa um þetta er óviðunandi. Opna verður umræður um þessi mál miklu meira. Það er löngu tímabært að slíta barnskónum.

*

Að lokum nokkur orð um friðarhorfur í Úkraínu.

Í stuttu máli sagt eru þær ekki góðar.

Í rúmlega hálft ár hefur harkan í bardögum í austurhluta Úkraínu aukist. Þangað hafa streymt tugir þúsunda rússneskra hermanna eftir herútboð síðsumars. Þá hefur málaliðum Wagner-hersins verið beitt þar af miklum þunga.

Nú beinist athygli að bænum, Bakhmut. Rússar hafa látið eins og þeir séu í þann mund að leggja rústir hans undir sig.

Úkraínustjórn ákvað hins vegar í byrjun vikunnar að efla varnir bæjarins. Ástæðan er sögð sú að ef til vill megi gera út af við leifarnar af 50.000 manna Wagner-málaliðahernum. Smalað var í hann föngum og hafa þeir verið stráfelldir. Nú telur herstjórn Úkraínu að granda megi um 10.000 manna úrvalssveit Wagner-manna þarna.

Á sama tíma og Úkraínumenn halda Rússum við efnið í Bakhmut búa þeir sig undir vorsókn með nýjum vígtólum frá Vesturlöndum.

Við friðargerð gengur enginn fram hjá ofurhetju stríðsins á stjórnmálavettvangi, Volodymyr Zelenskíj Úkraínuforseta. Hann vill lama Rússa á þann hátt að þeir ráðist ekki aftur á þjóð sína. Þá vill hann helst endurheimta Krímskaga.

Vangaveltur eru um að stuttur fundur utanríkisráðherra Bandaríkjanna og Rússlands í Delí hafi verið fyrirboði friðarumleitana.

Forsenda friðar er að Úkraínuher standi vel að vígi. Úrslit orrustunnar um Bakhmut kann að tryggja það.

Rússar hafa nú enga burði til stórsóknar inn í Úkraínu en Úkraínustjórn óttast að vopnahlé verði aðeins til að Rússar safni kröftum til árásar að nýju.

Rússar verða að sætta sig við að vestrænir bandamenn Úkraínumanna tryggi úkraínska hernum vopn sem gera honum kleift að bíta harkalega frá sér ef svo ber undir.

Áfram verður unnið að úrvinnslu umsókna Úkraínumanna um aðild að Evrópusambandinu og NATO. Rússar stöðva ekki lengur framvindu þeirra mála.

Fyrsta alvarlega tilraunin til að koma á friði mun minna á stöðuna sem myndaðist á Kóreuskaga eftir þriggja ára átök þar.

Uppgjöri milli stríðsaðila í Kóreu er ekki enn lokið 70 árum síðar og friðurinn styðst við spjótsodda.

Góðir áheyrendur, það er komið að lokum máls míns.

Ástand heimsmála verður aldrei eins og það var fyrir innrásina í Úkraínu. Vinna verður að lýðræðis- og frelsisvæðingu í Rússlandi. Undirrót átakanna eru draumur harðstjórnar um endurreisn keisaradæmis. Kremlverjar kasta þeim draumi ekki frá sér nema þeim sé mætt af mikilli alvöru.

Vestræn lýðræðisríki sýna með samstöðu sinni til stuðnings Úkraínumönnum að þau leggja mikið á sig til að verja grunngildin um landamærahelgi og fullveldi.

Til langs tíma litið krefst varðstaðan að hlúð sé að fælingarmætti frjálshuga ríkja og forðast að til verði grá svæði sem freista einræðisherra með stórveldisdrauma.