4.10.2019

EES-framkvæmdin er innanríkismál

Morgunblaðið, föstudagur, 4. október 2019

Vegna óska þing­manna um skýrslu fól Guðlaug­ur Þór Þórðar­son ut­an­rík­is­ráðherra okk­ur þrem­ur lög­fræðing­um, Kristrúnu Heim­is­dótt­ur, Bergþóru Hall­dórs­dótt­ur og mér, að semja skýrslu um EES-aðild­ina. Umboðið feng­um við 30. ág­úst 2018 og var 301 bls. prentuð skýrsla kynnt op­in­ber­lega þriðju­dag­inn 1. októ­ber þegar við skiluðum form­lega af okk­ur til ut­an­rík­is­ráðherra. Skýrsl­una má nálg­ast á net­inu bæði á vef alþing­is og stjórn­ar­ráðsins.

Um EES-samn­ing­inn hef­ur mikið verið rætt und­an­far­in miss­eri, ekki síst vegna deilna um þriðja orkupakk­ann. Starfs­hóp­ur­inn tók ekki af­stöðu til þess máls. Í skýrsl­unni er rak­in saga þess og Ices­a­ve-máls­ins, rætt um viðskipta­bannið á Rússa, fiski­mjöls­málið og kjöt­málið svo að nokk­ur dæmi séu nefnd.

Að gera skipu­lega grein fyr­ir mál­um sem reynst hafa flók­in og erfið úr­lausn­ar en tengj­ast EES-aðild­inni á einn eða ann­an hátt ætti að auðvelda stjórn­mála­mönn­um og öll­um al­menn­ingi að vega og meta rétt­indi, skyld­ur og ávinn­ing ís­lensku þjóðar­inn­ar af EES-aðild­inni.

Í fylgiskjali með skýrsl­unni birt­ast nöfn 147 ein­stak­linga sem starfs­hóp­ur­inn hitti að máli hér á landi, í Brus­sel, Vaduz og Ósló. Viðmæl­end­urn­ir voru raun­ar fleiri sé litið til fjöl­menn­ari funda.

Í stuttu máli má segja að all­ir viðmæl­end­ur starfs­hóps­ins, aðrir en full­trú­ar sam­tak­anna Frjálst land hér á landi og Nei til EU í Nor­egi, töldu EES-samn­ing­inn lifa góðu lífi. Hann væri til veru­legs gagns og ávinn­ings fyr­ir þá sem inn­an ramma hans starfa.

Eea-flags-300Við aðild­ina að EES tók ís­lenskt þjóðfé­lag stakka­skipt­um. Að fara í sam­an­b­urð á því sem var og er nú kall­ar á mun víðtæk­ari út­tekt á þróun ís­lensks sam­fé­lags en starfs­hóp­ur­inn hafði tök eða tíma til að gera. Raun­ar má draga í efa að það þjóni nokkr­um til­gangi að hverfa til ver­ald­ar sem var þegar breyt­ing­ar eru jafn­rót­tæk­ar og í skýrsl­unni er lýst.

Mark­mið hóps­ins var ekki að setj­ast í dóm­ara­sæti um kosti og galla EES-sam­starfs­ins held­ur að draga fram staðreynd­ir svo að les­end­ur skýrslu hans gerðu sjálf­ir upp hug sinn.

EES-aðild­in stærsta skrefið

Íslend­ing­ar tóku af­stöðu til alþjóðasam­vinnu í efna­hags­mál­um og alþjóðaviðskipt­um strax fá­ein­um vik­um eft­ir lýðveld­is­stofn­un­ina 17. júní 1944. Í því fólst sig­ur og viður­kenn­ing fyr­ir ný­stofnaða lýðveldið að verða eitt 44 ríkja á fund­un­um í Brett­on Woods í New Hamps­hire í Banda­ríkj­un­um dag­ana 1. til 22. júlí 1944 þar sem grunn­ur var lagður að Alþjóðagjald­eyr­is­sjóðnum og Alþjóðabank­an­um.

Þangað fór þriggja manna sendi­nefnd: Magnús Sig­urðsson banka­stjóri, Ásgeir Ásgeirs­son, síðar for­seti Íslands, og Svan­björn Frí­manns­son, síðar banka­stjóri, auk Mörtu Thors rit­ara. Í des­em­ber 1945 samþykkti alþingi lög um aðild að sjóðnum og bank­an­um.

Ísland varð því stofnaðili þess­ara nýju alþjóðasam­taka sem ætlað var að móta nýj­ar regl­ur pen­inga­mála og heimsviðskipta og vinna gegn fjár­málakrepp­um, gjald­miðlastríði og viðskipta­höml­um er leitt höfðu til heims­styrj­ald­ar.

Strax í upp­hafi sjálf­stæðis var á þenn­an hátt lagður grunn­ur að þátt­töku Íslands í alþjóðastarfi sem hvatti til los­un­ar hafta og nú­tíma­væðing­ar at­vinnu­lífs og styrkti tengsl lands­ins við vina- og ná­grannaþjóðir. Til að ná þess­um mark­miðum hef­ur stefna Íslands í ut­an­rík­is­viðskipt­um síðan orðið að hald­ast í hend­ur við alþjóðlega þróun viðskipta- og fríversl­un­ar­samn­inga.

Aðild­in að Mars­hall-aðstoðinni kallaði á þátt­töku Íslend­inga í enn frek­ara efna­hags­sam­starfi vest­rænna þjóða. Íslend­ing­ar héldu þó ekki í við þró­un­ina vegna þess hve illa gekk að losa hér um höft. Þátta­skil urðu með viðreisn­ar­stjórn­inni á sjö­unda ára­tugn­um. Í lok hans var gengið til samn­inga um aðild að EFTA, Fríversl­un­ar­sam­tök­um Evr­ópu, árið 1970, þegar sam­tök­in höfðu starfað í ára­tug.

Eft­ir að stofnað hafði verið til sam­eig­in­legs markaðar inn­an Evr­ópu­sam­bands­ins á ní­unda ára­tugn­um var EFTA-ríkj­un­um, sem öll voru hlut­laus fyr­ir utan Nor­eg og Ísland, boðin aðild að sam­eig­in­lega markaðnum á grund­velli sér­staks samn­ings um evr­ópskt efna­hags­svæði (EES).

Samn­ing­ur um EES-sam­starfið var und­ir­ritaður 2. maí 1992 í Porto í Portúgal en strax í janú­ar 1993 hófu full­trú­ar hlut­lausu ríkj­anna, Aust­ur­rík­is, Finn­lands og Svíþjóðar auk NATO-rík­is­ins Nor­egs, aðild­ar­viðræður við ESB. Hlut­lausu rík­in þurftu ekki leng­ur að taka til­lit til Sov­ét­ríkj­anna, sem voru hrun­in, og samþykktu hlut­lausu rík­in aðild að ESB en Norðmenn felldu hana í at­kvæðagreiðslu.

Þrjú EFTA-ríki, Ísland, Liechten­stein og Nor­eg­ur, mynduðu evr­ópska efna­hags­svæðið með ESB 1. janú­ar 1994.

Þegar litið er til baka var ein­stak­lega heppi­legt að það tókst að gera EES-samn­ing­inn á þess­um tíma og hrinda hon­um síðan í fram­kvæmd á þann veg sem gert hef­ur verið. Hann er stærsta skref Íslend­inga til sam­vinnu við aðrar þjóðir.

Lög­fræðin leið að mark­miði

Grunnþátt­ur EES-sam­starfs­ins er lög­fræðileg­ur en lög­fræðin er aðeins tæki til að ná fram um­sömd­um póli­tísk­um mark­miðum um fjórþætta frelsið og annað sam­starf. Lög­fræðileg mæli­stika er þó of lít­il til að leggja mat á sam­starfið, sem nær til allra þátta þjóðlífs­ins. Til hef­ur orðið nýtt rétt­ar­svið eða rétt­ar­kerfi. Að lýsa því sem and­stöðu við full­veldi þátt­töku­ríkj­anna stenst ekki. Hvert skref hef­ur verið stigið af full­valda ríkj­um.

Um 40.000 Íslend­ing­ar hafa notið fjár­hags­legs stuðnings og fyr­ir­greiðslu til náms und­ir merkj­um EES-sam­starfs­verk­efn­is­ins Era­smus+. Á und­an­förn­um þrem­ur árum hafa verið gef­in út um 150.000 evr­ópsk sjúkra­trygg­ing­ar­kort af Sjúkra­trygg­ing­um Íslands. Ber að túlka full­veld­is­rétt Íslands á þann veg að svipta skuli ís­lenska rík­is­borg­ara þess­um rétt­ind­um vegna ágrein­ings um vald­mörk inn­an tveggja stoða kerfi EES-sam­starfs­ins?

Í tveggja stoða kerf­inu hef­ur und­an­far­in ár mynd­ast grátt svæði milli EFTA-stoðar­inn­ar ann­ars veg­ar og ESB-stoðar­inn­ar hins veg­ar. Ástæðan fyr­ir því er fjölg­un fag­stofn­ana ESB, það er stofn­ana sem hvorki eru nefnd­ar í EES-samn­ingn­um né Lissa­bon-sátt­mála ESB en veitt hef­ur verið þröngt sér­greint vald á ein­stök­um fagsviðum. Þetta eru stofn­an­ir um sér­fræðiþekk­ingu.

Í EES-skýrslu starfs­hóps­ins er kannað hvers eðlis þess­ar stofn­an­ir eru og birt­ar eru frá­sagn­ir ís­lenskra sér­fræðinga sem hafa bein kynni af stjórn­ar­hátt­um inn­an þeirra. Niðurstaða starfs­hóps­ins er að EES/​EFTA-rík­in hafi öðlast áhrif á ákvörðun­arstigi í EES-sam­starf­inu með þátt­töku í þess­um stofn­un­um. Áhrif sem þau höfðu ekki gagn­vart fram­kvæmda­stjórn ESB áður en hún fram­seldi vald sitt til þeirra.

Í stað þess að fyll­ast ótta og fara í varn­ar­stöðu vegna þess­ar­ar þró­un­ar eiga EES/​EFTA-rík­in að nota hana skipu­lega til að gæta bet­ur eig­in hags­muna, til dæm­is með því að efla sér­hæf­ingu inn­an Eft­ir­lits­stofn­un­ar EFTA (ESA).

Í þessu ljósi ber einnig að skoða til­lög­ur starfs­hóps­ins um úr­bæt­ur á inn­lend­um stjórn­ar­hátt­um vegna EES-mála með sér­stakri EES-stjórn­stöð, vel markaðri ráðherra­ábyrgð og skil­um milli inn­lends þátt­ar EES-sam­starfs­ins og þess sem snýr út á við. Viður­kenna ber í verki að sam­starfið snýst mest um inn­an­rík­is­mál.