13.1.2024

Hremmingar matvælaráðherra

Morgunblaðið, laugardagur 13. janúar 2024.

Alþingi ályktaði í byrj­un júní 1998 að rík­is­stjórn­in skyldi skipa nefnd til að kanna starfs­skil­yrði stjórn­valda, eft­ir­lit með starf­semi þeirra og viður­lög við rétt­ar­brot­um í stjórn­sýslu. Samdi nefnd­in 157 bls. skýrslu og sendi for­sæt­is­ráðuneytið hana frá sér sem bók árið 1999.

Stjórn­völd eru bund­in af lög­um og verða að haga stjórn­sýslu sinni í sam­ræmi við lög. Alþingi verður að hafa veitt stjórn­völd­um heim­ild með lög­um til þess að taka ákv­arðanir. Stjórn­völd geta al­mennt ekki íþyngt borg­ur­un­um með ákvörðunum sín­um nema þau hafi til þess viðhlít­andi heim­ild í lög­um. Þetta gild­ir m.a. um út­gáfu reglu­gerða.

Viður­lög við að farið sé á svig við þess­ar meg­in­regl­ur eru reifuð í bók­inni. Ættu alþing­is­menn að lesa hana núna þegar þeir íhuga 18 bls. álit umboðsmanns alþing­is frá 5. janú­ar um tíma­bundið bann við hval­veiðum sum­arið 2023 sam­kvæmt reglu­gerð mat­vælaráðherra.

Reglu­gerðin sótti efni sitt í lög um vel­ferð dýra en var gef­in út á grunni laga um hval­veiðar. Reglu­gerðina skorti ein­fald­lega lög­mæti. Þá var ekki gætt góðra stjórn­sýslu­hátta við út­gáfu henn­ar.

763944Hvalskurður (mbl.is).

Við gerð sátt­mála nú­ver­andi rík­is­stjórn­ar varð sam­komu­lag um að minn­ast ekki á hval­veiðar en hjá ein­hverj­um voru uppi hug­mynd­ir um að stöðva þær. Mat­vælaráðherra hagaði reglu­gerð sinni þannig að ekki var um bann við hval­veiðum að ræða held­ur frest­un. Rök­in voru hins veg­ar á þann veg að vilji ráðherr­ans stóð til banns.

Hval­ur hf. hafði ótví­rætt leyfi til hval­veiða sum­arið 2023 og bjó sig und­ir þær. Mat­væla­stofn­un (MAST) gerði út­tekt á hval­veiðum sum­arið 2022 og sagði það sitt mat 8. maí 2023 að veiðar Hvals hf. hefðu ekki brotið gegn lög­um um vel­ferð dýra. Taldi MAST þó nauðsyn­legt að halda uppi eft­ir­liti með veiðunum sum­arið 2023 auk þess að leita eft­ir áliti fagráðs um vel­ferð dýra á því hvort það teldi að hægt væri að standa þannig yf­ir­höfuð að veiðum á stór­hvel­um að mannúðleg af­líf­un þeirra væri tryggð.

MAST sendi fagráðinu bréf með þess­um til­mæl­um 22. maí 2023. Í áliti fagráðsins var gengið lengra en ráða mátti af bréfi MAST. Fagráðið sagðist ekki sjá að sú veiðiaðferð sem beitt væri við veiðar á stór­hvel­um sam­ræmd­ist ákvæðum laga um vel­ferð dýra. Felldi ráðið þannig úr­sk­urð um lög­mæti veiðanna.

Af þess­um sök­um bókaði lög­lærður full­trúi Bænda­sam­taka Íslands í fagráðinu að álita­málið sem lagt var fyr­ir fagráðið hefði ein­vörðungu snúið að því hvort hval­veiðar sam­rýmd­ust lög­um um vel­ferð dýra en um hval­veiðar giltu sér­lög og því væri lög­fræðilegt álita­mál hvort gild­is­svið laga um vel­ferð dýra næði yfir hvali.

Mat­vælaráðuneytið og ráðherr­ann vissu þannig eft­ir lest­ur álits­ins að um lög­fræðilegt vafa­mál væri að ræða. Ábend­ing­in var höfð að engu. Umboðsmaður staðfesti hins veg­ar rétt­mæti henn­ar, reglu­gerð ráðherr­ans skorti lög­mæti, hún var heim­ild­ar­laus.

Í umræðum á Face­book um hlut fagráðsins sem réð úr­slit­um við ákvörðun mat­vælaráðherra sagði Krist­inn Huga­son, þáv. deild­ar­stjóri í sjáv­ar­út­vegs- og land­búnaðarráðuneyt­inu, að fagráðið hefði enga stjórn­sýslu­lega stöðu í lík­ingu við það sem ráðherr­ann héldi fram.

Krist­inn var á sín­um tíma formaður nefnd­ar sem samdi laga­frum­varpið um nú­gild­andi dýra­vel­ferðarlög og átti jafn­framt hug­mynd­ina að fagráði um dýra­vel­ferð. Fyr­ir­mynd­ina seg­ir hann sótta til fagráða ein­stakra bú­greina og ráðið sé aðeins ráðgef­andi gagn­vart MAST.

Formaður þing­flokks mat­vælaráðherra tók af all­an vafa um að niðurstaða fagráðsins réð úr­slit­um þegar hann sagði í grein 7. janú­ar að mat­vælaráðherra hefði ekki getað „gert annað, með álit okk­ar helstu sér­fræðinga í vel­ferð dýra í hönd­un­um, en að fresta upp­hafi hval­veiða“. Eng­inn ráðherra mála­flokks gæti setið aðgerðarlaus með svo af­drátt­ar­lausa niður­stöðu fagráðs.

Þarna er litið fram hjá því að ráðið fór út fyr­ir umboð sitt og hlut­verk. Það átti að svara MAST en rétti mat­vælaráðherr­an­um meingallað vopn.

Vand­ræði ís­lenskra stjórn­mála­manna vegna hval­veiða eru skraut­leg í þá fjóra ára­tugi sem liðnir eru frá því að Alþjóðahval­veiðiráðið samþykkti bann við hval­veiðum árið 1982. Bannið tók gildi með und­an­tekn­ing­um í þágu frum­byggja- og vís­inda­veiða um ára­mót­in 1985/​86.

Leiði hval­veiðar til stjórn­ar­kreppu árið 2024 er það vegna þess að mat­vælaráðherra hafði ekki viðhlít­andi heim­ild í lög­um til að kippa grund­velli und­an veiðunum, at­vinnu­rekstri sem nýt­ur lög- og stjórn­ar­skrár­vernd­ar.

Spyrja má hvort fleiri embættis­verk mat­vælaráðherra séu sama merki brennd, duttl­ung­ar ráði en ekki lög­in.

Í tengsl­um við inn­leiðingu EES-reglna hef­ur gætt til­hneig­ing­ar inn­lendra stjórn­valda til að hrifsa til sín meira vald í skjóli regln­anna en þær leyfa. Þetta á til dæm­is við um land­búnað og mál­efni sem falla und­ir MAST. Í því til­viki sem hér um ræðir gekk fagráð á veg­um MAST lengra en lög heim­ila.

Af frétt­um má ráða að svipað mál sé á döf­inni vegna ágrein­ings um blóðmera­hald sem nýt­ur lög­vernd­ar hvað sem líður skoðun mat­vælaráðherra.

Til­vik eins og það sem hér er lýst, að ráðherra gefi út reglu­gerð á grunni laga án þess að þau heim­ili það en vísi síðan í önn­ur lög til að rétt­læta gjörn­ing sinn, er von­andi for­dæma­laust.

Árið 1998 töldu alþing­is­menn nauðsyn­legt að fá skýrslu þar sem reifuð væru viður­lög við rétt­ar­brot­um í stjórn­sýslu. Ráðherr­ar bera bæði þing­lega eða póli­tíska ábyrgð og refsi- og bóta­ábyrgð vegna embættis­verka. Hval­ur hf. boðar að hann ætli í skaðabóta­mál. Hvað gera alþing­is­menn?