30.1.2024

Hugmynd verður að hátæknirisa

Morgunblaðið, þriðjudagur, 30. janúar 2024

Ævin­týrið um Mar­el ★★★½· Eft­ir Gunn­ar Þór Bjarna­son. Mál og menn­ing, 2023. Innb., 288 bls., mynd­ir og skrár.

Bók­in Ævin­týrið um Mar­el – sprota­fyr­ir­tækið 1983-1999 eft­ir Gunn­ar Þór Bjarna­son sýn­ir að það er ekki í fyrsta skipti núna sem tví­sýnt er um framtíð Mar­els. Fjöru­tíu ára saga fyr­ir­tæk­is­ins er ekki snurðulaus sókn­ar­ganga. Þar hafa skipst á skin og skúr­ir.

Í kynn­ingu á bók­inni seg­ir að vorið 2023 hafi um átta þúsund manns starfað hjá Mar­el í rúm­lega 30 lönd­um. Fyr­ir­tækið breytt­ist á 40 árum úr sprota­fyr­ir­tæki í há­tækn­irisa sem fram­leiðir tæki fyr­ir marg­ar grein­ar mat­vælaiðnaðar.

Í apríl 2022 var til­kynnt að Mar­el hefði keypt alþjóðafyr­ir­tækið Wenger Manufact­ur­ing LLC með höfuðstöðvar í Kans­as í Banda­ríkj­un­um. Fyr­ir­tækið sér­hæf­ir sig í mat­væla­vinnslu úr plöntu­prótein­um og lausn­um í fóður­fram­leiðslu fyr­ir gælu­dýr og fisk­eldi. Í til­kynn­ingu frá Mar­el sagði að kaup­in á Wenger væru stórt skref á þeirri leið að mynda „fjórðu tekju­stoð fé­lags­ins, til viðbót­ar við ali­fugla-, kjöt- og fiskiðnað“ (12).

Þá er þess getið að árið 2022 hafi tekj­ur Mar­els verið 1,7 millj­arðar evra eða um 243 millj­arðar ís­lenskra króna miðað við meðal­gengi á ár­inu.

2a2b8403-58bf-48bf-a4c4-b2ee28dc2993

Í nú­tíma­málsorðabók­inni er sprota­fyr­ir­tæki lýst sem „fyr­ir­tæki sem sprottið er upp úr rann­sókna- eða þró­un­ar­verk­efni ein­stak­linga, hópa, há­skóla, rann­sókn­ar­stofn­ana eða annarra fyr­ir­tækja og byggj­ast á sér­hæfðri þekk­ingu eða tækni“.

Þessi lýs­ing á ná­kvæm­lega við um Mar­el. Það er sprottið af rann­sókn­um og þróun und­ir for­ystu Rögn­valds Ólafs­son­ar, dós­ents við verk­fræði- og raun­vís­inda­deild Há­skóla Íslands og sér­fræðings við Raun­vís­inda­stofn­un skól­ans. Skýrsla sem hann og Þórður Vig­fús­son hag­verk­fræðing­ur birtu um aukna sjálf­virkni í frysti­hús­um á veg­um Raun­vís­inda­stofn­un­ar árið 1978 gat af sér Mar­el.

Þegar Sig­urður Markús­son, fram­kvæmda­stjóri Sjáv­ar­af­urðadeild­ar Sam­bands ís­lenskra sam­vinnu­fé­laga (SÍS) og fram­kvæmda­stjórn­ar­maður SÍS, las skýrsl­una vakti hún strax áhuga hans (27).

Ung­ur viðskipta- og hag­fræðing­ur, Gylfi Aðal­steins­son, starfaði að því að bæta nýt­ingu frysti­húsa SÍS. Þeir Rögn­vald­ur hitt­ust. Raf­einda­vog­in eða borðvog­in varð til eft­ir þau kynni. Sam­starf tókst um hug­búnaðargerð og raf­einda­hönn­un á tækj­um sem fyr­ir­tæki SÍS, Fram­leiðni, fram­leiddi og seldi. Til varð Mar­el (30). Gylfi varð síðar fyrsti fram­kvæmda­stjóri fyr­ir­tæk­is­ins.

Gunn­ar Þór Bjarna­son sagn­fræðing­ur fékk verðlaun Jóns Sig­urðsson­ar árið 2022 fyr­ir markverðan skerf til auk­inn­ar þekk­ing­ar og skiln­ings á sögu Íslands með rann­sókn­um sín­um og rit­verk­um. Rann­sókn­ir hans hafa m. a. tengst sjálf­stæðis­bar­áttu Íslend­inga í upp­hafi 20. ald­ar, fyrri heims­styrj­öld­inni og spænsku veik­inni.

Gunn­ar Þór rek­ur sögu Mar­els af alúð og ná­kvæmni. Bók­in er í 11 köfl­um og mörg­um undir­köfl­um. Þar er mikið af mynd­um og fjölda ein­stak­linga er getið við lýs­ingu á þróun og stækk­un fyr­ir­tæk­is­ins stig af stigi. Skrár yfir til­vís­an­ir, heim­ild­ir, mynd­ir og nöfn fylgja. Bók­in er í fal­legu bandi og öll gerð henn­ar vönduð.

Eft­ir að borðvog­in hafði hleypt Mar­el á flot varð skipa­vog­in til þess að fleyta fyr­ir­tæk­inu áfram þegar lá við strandi und­ir lok árs 1988. Þá barst pönt­un á 110 skipa­vog­um frá Sov­ét­ríkj­un­um fyr­ir út­gerðarfyr­ir­tæki á Kyrra­hafs­strönd þeirra (119). Þá var Geir A. Gunn­laugs­son, verk­fræðing­ur og pró­fess­or, orðinn for­stjóri Mar­els.

Sov­ésku pönt­un­ina mátti rekja til sjáv­ar­út­vegs­sýn­ing­ar í Seattle í Banda­ríkj­un­um haustið 1987 þar sem menn frá Mar­el hittu sov­éska út­gerðar­menn og sýndu þeim vog­ina. Geir fór síðar til dæm­is alla leið aust­ur á rúss­nesku Kyrra­hafs­strönd­ina til að halda kynn­ing­ar­fund fyr­ir út­gerðar­menn og skip­stjóra skammt frá Vla­di­vostok (127). Með því að vigta rétt um borð í rúss­nesku skip­un­um gjör­breytt­ist af­koma út­gerðanna.

Hefði Mar­el ekki skapað sov­ésk viðskipta­tengsl í Seattle áður en sov­ét­kerfið hrundi hefðu Rúss­ar varla keypt marg­ar skipa­vog­ir af Íslend­ing­um (136).

Árið 1997 hófst nýr kafli í sam­skipt­um Mar­els og Rússa. Mar­el tók að sér sölu á afla rúss­neskra tog­ara til að kosta end­ur­smíði tog­ara­flot­ans. Þetta endaði með ósköp­um. Rúss­ar stóðu ekki í skil­um, sum­ir þeirra tengd­ust rúss­nesk­um und­ir­heim­um og við tóku mála­ferli (239). Taldi Geir for­stjóri að þetta hefði verið „versta viðskipta­lega ákvörðun“ í 12 ára for­stjóratíð hans (240).

Ann­ar for­vitni­leg­ur þátt­ur í ytra um­hverfi Mar­els snýr að spenn­unni í sam­skipt­um viðskipta­hópa inn­an lands þegar Eim­skip og SÍS mynduðu tvo póla. Að lok­um varð umpól­un í eign­ar­haldi á Mar­el. Eim­skip varð ráðandi í eig­enda­hópn­um. Síðan er þó mikið vatn til sjáv­ar runnið og nær bók­in ekki til þeirr­ar sögu – henni lýk­ur um alda­mót­in.

Þegar saga eins fyr­ir­tæk­is er skráð kann að vera erfitt fyr­ir höf­und að draga skil á milli þess sem hef­ur al­menna skír­skot­un og hins sem höfðar beint til þeirra sem þekkja til inn­an dyra í fyr­ir­tæk­inu. Hér hefði höf­und­ur mátt höfða meira til al­menns les­anda með þyngri áherslu á stóru lín­urn­ar í sögu Mar­els.

Ný­sköp­un, gæði og vand­virkni ásamt þraut­seigju og góðu starfs­fólki sem lagði nótt við nýt­an dag, væri því að skipta, gerði kleift að sigla Mar­el milli skers og báru og út á heims­höf­in í orðsins fyllstu merk­ingu.