18.9.2020

Mannréttindadómstóll í ólgusjó

Morgunblaðið, föstudagur 18. september 2020

Inn­an breska stjórn­kerf­is­ins er unnið að smíði laga­frum­varps til að þrengja valdsvið Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu (MDE) í Strass­borg gagn­vart Bretlandi á þeim sviðum þar sem Bret­ar telja að Strass­borg­ar­dóm­ar­arn­ir hafi „gengið of langt“.

Þar er meðal ann­ars um að ræða ákvæði mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu sem eru skjól fyr­ir farand- og flótta­fólk vilji það kom­ast hjá fram­kvæmd brott­vís­un­ar og ákvæði sem nota má gegn bresk­um her­mönn­um vegna þátt­töku þeirra í aðgerðum utan Bret­lands. Þessi ákvæði eru nú meðal lög­skýr­ing­ar­gagna breskra dóm­ara við ákv­arðanir þeirra vegna mála sem und­ir þau falla.

Bresk­ir stjórn­mála­menn, and­víg­ir aðild að Evr­ópu­sam­band­inu, hafa lengi gagn­rýnt MDE og dóma ESB-dóm­stóls­ins sem reist­ir eru á mann­rétt­inda­ákvæðum ESB. Í brex­it-viðræðunum hafa full­trú­ar ESB kraf­ist þess að Bret­ar viður­kenni áfram mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu og mann­rétt­inda­ákvæði í sátt­mál­um ESB að öðrum kosti sé sam­starfi ESB og Breta í þágu lög­gæslu stefnt í hættu. Þarna er meðal ann­ars vísað til mik­il­vægra hags­muna Breta af aðild að Europol, Evr­ópu­lög­regl­unni, eft­ir ESB-úr­sögn­ina.

Í kosn­inga­stefnu­skrá breska Íhalds­flokks­ins fyr­ir þing­kosn­ing­ar á ár­inu 2019 sagði að end­ur­skoða bæri mann­rétt­inda- og stjórn­sýslu­lög til að tryggja hæfi­legt jafn­vægi milli rétt­ar hvers ein­stak­lings, brýnna þjóðarör­ygg­is­hags­muna og virkr­ar stjórn­sýslu.

Gagn­rýni breskra ráðherra á MDE er meðal ann­ars sú að dóm­ar­arn­ir í Strass­borg afflytji 67 ára gaml­an mann­rétt­inda­sátt­mála Evr­ópu í „fram­sæk­inni“ laga­túlk­un og með dóm­um sem reist­ir séu á henni. Inn­an Íhalds­flokks­ins benda áhrifa­menn á að aldrei hefði neinn gert ráð fyr­ir að MDE yrði beitt á þann veg sem nú er gert í mál­um hæl­is­leit­enda. Þar hafi Strass­borg­ar­dóm­ar­arn­ir skapað víðtæk­ari laga­regl­ur en fel­ast í ákvæðum mann­rétt­inda­sátt­mál­ans.

Stefna bresk­u rík­is­stjórn­ar­inn­ar hef­ur verið mörkuð. Óánægj­an með MDE í Bretlandi er djúp­stæðari en svo að unnt sé að líta á af­stöðuna sem leik­bragð í ESB-viðræðunum þótt ým­is­legt annað sem ber hátt um þess­ar mund­ir vegna spenn­unn­ar milli Breta og ESB kunni að vera það.

 

Höfuðsmiður laga og reglna?

Ráðherra­skrif­stofa Evr­ópuráðsins og Evr­ópuráðsþing 47 aðild­ar­ríkja starfa við hlið MDE í Strass­borg. Þrír ís­lensk­ir þing­menn sitja á Evr­ópuráðsþing­inu. Við ráðið starfar fasta­nefnd Íslands und­ir for­ystu Ragn­hild­ar Arn­ljóts­dótt­ur, fyrrv. ráðuneyt­is­stjóra í for­sæt­is­ráðuneyt­inu. Árið 2022 tek­ur Ísland við for­mennsku í ráðherr­aráði Evr­ópuráðsins. Ró­bert Spanó, full­trúi Íslands í MDE, var kjör­inn for­seti dóm­stóls­ins í apríl 2020 en for­veri hans í embætti var Grikki.

Afstaða Breta til MDE og gagn­rýni á dóm­stól­inn víðar í aðild­ar­ríkj­un­um 47 hrín ekki á MDE-dómur­un­um. Þeir sitja í virki og fara sínu fram inn­an þess og utan. Ný­leg turn­laga bygg­ing dóm­stóls­ins minn­ir á sjálf­stæði hans.

European_Court_of_Human_RightsNýlegt dómshús MDE í Strassborg. Turnarnir minna á yfirburði dómaranna í virki sínu.

Nú bíða um 65.000 mál af­greiðslu hjá dóm­stóln­um. Inn­an turns­ins kunna menn að túlka mála­fjöld­ann á þann veg að hann sýni til­trú til dóm­stóls­ins, að dóm­ar­arn­ir séu verðir gegn órétt­læti og of­ríki yf­ir­valda. Rík­is­vald ein­stakra landa er jafn­an í sæti „söku­dólgs­ins“ fyr­ir dóm­stóln­um, hann er einskon­ar hæstirétt­ur hæsta­rétta aðild­ar­land­anna.

Utan dóm­stóls­ins er mála­fjöld­inn tal­inn dæmi um óskil­virkni dóm­stóls­ins. Hann gangi fram í skjóli virðing­ar­inn­ar sem Evr­ópuráðið ávann sér á árum áður en fer nú þverr­andi meðal ann­ars vegna mál­flutn­ings á Evr­ópuráðsþing­inu sem þjón­ar frek­ar Evr­ópuráðinu sem stofn­un en hug­sjón­un­um sem ráðið var stofnað til að vernda. Hef­ur þetta meðal ann­ars birst í ákvörðunum þing­manna þegar Rúss­ar eiga í hlut.

Markús Sig­ur­björns­son, fyrr­ver­andi for­seti Hæsta­rétt­ar Íslands, sagði í sam­tali við Lög­manna­blaðið vorið 2020:

„Það get­ur verið erfitt að átta sig á því hvað Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn ætl­ast til að maður geri. Auðvitað er það skrít­in ver­öld þegar ís­lenska rík­inu er dæmt áfelli, út af til að mynda tján­ing­ar­frelsi, vegna þess að Hæstirétt­ur Íslands fylgdi ekki kríterí­un­um frá Mann­rétt­inda­dóm­stóln­um, en bara óvart voru þess­ar kríterí­ur ekki til þegar málið var dæmt. Það er erfitt að reyna að fylgja svona línu.[] Í mörg­um til­vik­um mætti fylgja með: Að vísu skipti þetta atriði engu máli í þessu til­viki en þið nefnduð þetta samt ekki og úr því að þessi krítería var ekki tek­in til skoðunar þá var brotið gegn mann­rétt­ind­um. Þetta er orðin allt önn­ur ver­öld en hún var og í raun má spyrja hvernig Mann­rétt­inda­dóm­stóll­inn lít­ur á sitt eigið hlut­verk. Er hann orðinn ein­hvers kon­ar höfuðsmiður laga eða reglna sem veit­ir öll­um lands­dóm­stól­um leiðsögn um það hvernig þeir eiga að gera hlut­ina og ef því er ekki fylgt er allt ómögu­legt.“

Þarna er lýst stofn­un sem tel­ur sig geta farið sínu fram hvað sem taut­ar og raul­ar.

 

Mis­ráðin Tyrk­lands­heim­sókn

Ró­bert Spanó, for­seti MDE, fór í um­deilda op­in­bera heim­sókn til Tyrk­lands 3. til 5. sept­em­ber. Öll rök fyr­ir heim­sókn­inni bera þess merki að ekk­ert knúði á um hana annað en þrýst­ing­ur frá stjórn­völd­um í Tyrklandi og metnaður dóms­for­set­ans.

Tyrk­nesk­ir ráðamenn hafa á und­an­förn­um árum gerst sek­ir um gróf mann­rétt­inda­brot. Nú hafa þeir þó fengið gæðastimp­il frá for­seta dóm­stóls­ins í Strass­borg. Hann varð meðal ann­ars heiðurs­doktor há­skóla sem er al­ræmd­ur fyr­ir of­sókn­ir í garð pró­fess­ora af því að stjórn­völd líta þá óvild­ar­auga.

Ein­kenni­legt er að notað sé orðið „hefð“ til að skýra til­efni Tyrk­lands­ferðar og doktors­nafn­bót­ar Ró­berts. Aldrei áður hef­ur for­seti MDE farið í op­in­bera Tyrk­lands­heim­sókn. Þá er ekki held­ur hefð að for­set­ar MDE þiggi doktors­nafn­bót sér til heiðurs.

Síðan 2016 hef­ur ríkt óöld í Tyrklandi vegna of­sókna gegn al­menn­um borg­ur­um eft­ir mis­heppnaða til­raun til að steypa Recep Tayyip Er­dog­an for­seta af stóli. Er­dog­an gref­ur mark­visst und­an stjórn­kerfi lýðveld­is­ins frá 1923 sem Kemal Atatürk, „faðir“ nú­tíma Tyrk­lands, stofnaði. Þar var skilið milli trú­mála og stjórn­mála. Skil­in eru Er­dog­an ekki að skapi. Hann sæk­ir stuðning til þjóðern­is­sinnaðra múslima, tals­manna lög­gjaf­ar að hætti Kór­ans­ins. Hún fell­ur ekki að mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um, stjórn­ar­skrá mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins.

Heim­sókn­in til Er­dog­ans og viðræður við hann og stuðnings­menn hans er fleinn í holdi þeirra sem sæta of­sókn­um af hálfu valda­mann­anna. For­seti MDE neitaði staðfast­lega að hitta þá í Tyrklandi sem þurfa á vernd MDE að halda en ekki gæðastimpli dóms­for­set­ans á Er­dog­an.

Fyr­ir utan dómgreind­ar­skort á stöðu mála í Tyrklandi sýn­ir op­in­ber heim­sókn þangað á þess­ari stundu skiln­ings­leysi á ut­an­rík­is- og ör­ygg­is­mál­um. Tyrk­ir deila við Frakka vegna þrotrík­is­ins Líb­íu. Þá sækja Tyrk­ir gegn Grikkj­um vegna yf­ir­ráða á Eyja­hafi. Tyrk­ir hafa þar haf­rétt­ar­sátt­mála SÞ að engu. Hvarvetna fer Er­dog­an fram með hót­un­um.

For­seta­heim­sókn­in til Tyrk­lands í nafni mann­rétt­inda var mis­ráðin. Hún staðfest­ir að inn­an Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu rík­ir andi yf­ir­læt­is og skeyt­ing­ar­leys­is. Fleiri kunna að feta í fót­spor bresku íhaldsþing­mann­anna og telja þjóðum sín­um bet­ur borgið án af­skipta dóm­ar­anna.