4.4.2024

Matthías Johannessen- minning

Morgunblaðið, 4. apríl 2024.

Matthías Johannessen, f. 3. janúar 1930 - d. 11. mars 2024, var jarðsunginn frá Dómkirkjunni fimmtudaginn 4. apríl kl. 13.00. Prestur var sr. Sveinn Valgeirsson auk hans fluttu minningarorð Þröstur Helgason, fyrrv. menningarblaðamaður á Morgunblaðinu og Ástráður Eysteinsson, prófessor í bókmenntum við Háskóla Íslands. Guðmundur Sigurðsson lék á orgel, Voces Masculorum sungu, Pétur Jónasson lék á gítar, Gissur Páll Gissurarson söng einsöng og Bryndís Halla Gylfadóttir lék á selló. Veitingar voru að athöfn lokinni í Sjálfstæðissalnum, Thorvaldssenstræti 2.

BJBJ7_1712247713322Myndin er tekin í garði Alþingishússins í júní 1964 f.v. Bjarni Benediktsson, Björn Bjarnason, Matthías Johannessen (Morgunblaðið/Ólafur K. Magnússon).

Þegar litið er til baka verður manni betur ljóst hve aldurinn er afstæður. Að Matthías hafi aðeins verið 29 ára gamall þegar honum var treyst fyrir ritstjórn Morgunblaðsins hvarflaði aldrei að mér á þeim tíma.

Tengsl Hönnu og Matthíasar við foreldra mína voru þannig að aldur skipti engu heldur réð gleðin yfir að hittast og ræða saman um allt milli himins og jarðar – líklega minnst um pólitík.

Matthías hefur lýst vináttu þeirra í ljóðum, greinum og bókum. Þar er engu við að bæta en oft hafði hann á orði að gleðistrengur hefði brostið í brjósti sínu 10. júlí 1970.

Yfir minningu þessara ára er birta og í hana er gott að leita núna þegar Matthías er kvaddur í hárri elli. Þegar þau komu í heimsókn sagði hann sögur af kynnum sínum af spíritistum og sannfæringunni um líf eftir dauðann. Móðir mín samsinnti honum en faðir minn sagði fátt.

Þeir gengu oft saman á Þingvöllum og ræddu um alheimsaflið „sem við hvorki þekkjum né skiljum“ en þeir viðurkenndu þó báðir.

Matthías hafði einstaka hæfileika til að kalla fram hlið á fólki sem það sýndi ekki öðrum. Innsæi hans og opinn hugur annarra birtist í öllum viðtölunum í Morgunblaðinu undir samheitinu Í fáum orðum sagt. Hluti þeirra var síðar gefinn út í fimm binda bókaröð af Almenna bókafélaginu. Matthías notaði ekki segulband þegar hann ræddi við aðra heldur punktaði hjá sér og bjó síðan til listaverk til birtingar í blaðinu.

Hann fór inn á nýjar brautir í vali á viðmælendum og viðfangsefnum. Minnist ég þess að Guðrúnu, föðurömmu minni, var stundum nóg boðið og skemmti faðir minn sér þegar hann lét Matthías heyra það á góðri stundu.

Þegar heimsfræga erlenda listamenn bar að garði bauð Matthías þeim gjarnan í ökuferð til Þingvalla og ræddi við þá. Að fá að vera með í þeim ferðum jafnast á við að hafa fengið að handleika dýrgrip sem lifir síðan í texta Matthíasar. Tvö nöfn skulu nefnd: Jorge Luis Borges og Yehudi Menuhin.

Borges var hálfblindur. Í Mosfellsdalnum sagði hann: „Ég sé fjöllin eins og Egill [Skallagrímsson] sá þau, þegar hann var orðinn blindur. Þannig stend ég í sporum Egils en ekki þið.“ Í Almannagjá fór Borges upphátt með spænskt ljóð: „Ætla að skilja það eftir á þessum helga stað.“ Ógleymanlegt er þegar hann benti og sagði: „Ég sé móta fyrir svörtum hamraveggjunum. Og þarna er himinninn.“

Blaðamaðurinn Matthías ræddi við þessa menn sem frjálshuga skáld og listamaður. Bæði Borges og Menuhin lýstu skömm sinni á kommúnisma í samtölunum og hörmulegum örlögum listamanna undir stjórn þeirra. Andrúmsloft kalda stríðsins varð til þess að skáld voru ekki dæmd að verðleikum fyrir listsköpun sína og fór Matthías ekki varhluta af því.

Hlið við hlið í sama manninum var viðkvæmt skáld sem naut ekki sannmælis vegna daglegra viðfangsefna raunsæja ritstjórans og þess sem í blaðinu birtist. Sigur Matthíasar birtist í velgengni blaðsins og virðingunni sem hann hefur áunnið sér sem skáld.

Við Rut vottum Haraldi og Ingólfi og fjölskyldu þeirra innilega samúð.

Blessuð sé minning Matthíasar Johannessen.