16.3.2024

Metnaður gegn nesjamennsku

Morgunblaðið, laugardagur, 16. mars 2024

Ekki þótti öll­um sjálfsagt á síðari hluta 20. ald­ar­inn­ar að Morg­un­blaðið birti að jafnaði er­lend­ar frétt­ir á forsíðu. Aðeins stærstu inn­lend­ar frétt­ir fengu rými á forsíðunni. Efn­is­val í blaðinu var stund­um þannig að fimm síður voru helgaðar er­lend­um frétt­um, forsíðan og tvær inn­blaðsopn­ur.

Matthias-Johannessen160Matthías Johannessen

Þetta var þegar Matth­ías Johann­essen var rit­stjóri Morg­un­blaðsins, frá 29 ára aldri í 41 ár. Hann andaðist 94 ára mánu­dag­inn 11. mars og er nú víða minnst.

Metnaður Matth­ías­ar setti sterk­an svip á Morg­un­blaðið og þar með áhugi hans á að vandaðar er­lend­ar frétt­ir og skýr­ing­ar á alþjóðleg­um menn­ing­ar- og stjórn­mála­straum­um bær­ust til les­enda blaðsins. Sjálf­ur lagði hann mikið af mörk­um í því efni, ekki síst með viðtöl­um sín­um við merka út­lend­inga sem hingað komu. Á ógleym­an­leg­um rit­stjórn­ar­fund­um hafði hann inn­blás­in áhrif á sam­starfs­fólk sitt. Fylgdi andi hans öll­um sem fund­ina sátu.

Matth­ías var ná­inn vin­ur rúss­neska pí­anósnill­ings­ins Vla­dimírs Ashkenazys og birti við hann viðtöl í blaðinu sem sner­ust um líf og list und­ir harðstjórn komm­ún­ista í Sov­ét­ríkj­un­um.

Fé­lagi orð (útg. 1982) er ein af tug­um bóka Matth­ías­ar. Þar seg­ir frá sam­tali hans við Ashkenazy og rúss­neska selló­leik­ar­ann Mstislav Rostropovits. Hér er stutt­ur kafli frá há­deg­is­verði á hót­eli í Reykja­vík í júní 1978:

„Ég sagði hon­um [Rostropovits], að margt ungt fólk hugsaði ekki um hætt­una af Sov­ét­ríkj­un­um. Ef við nefnd­um komm­ún­ista eða heimsvalda­stefnu Sov­ét­ríkj­anna, segðu marg­ir, að Morg­un­blaðið þjáðist af kalda­stríðsgrill­um og væri að reyna að vekja upp „rússa­grýlu“. Nauðsyn­legt væri, að and­ófs­menn minntu sí­fellt á ástandið, þar sem komm­ún­ism­inn ræður ríkj­um eins og í heimalandi hans, því að fólk gleymdi öllu jafnóðum, jafn­vel inn­rás í Ung­verja­land eða Tékkó­slóvakíu. Marg­ir Íslend­ing­ar létu sér ekki einu sinni til hug­ar koma, að hætta stafaði af sovézka flot­an­um um­hverf­is landið, hvað þá að Ísland gæti einn góðan veður­dag orðið heimsvalda­stefnu Sov­ét­ríkj­anna að bráð. Það væru þá helzt Kín­verj­ar sem skildu þetta, og gætu komið ein­staka manni í skiln­ing um hætt­una. „Já, það eru ein­mitt þeir, sem skilja þetta bezt,“ sagði Rostropovits. Og Ashkenazy tók und­ir það. „Þeir hata rúss­nesku stjórn­ina,“ bætti Ashkenazy við. En Rostropovits sagði, að Íslend­ing­ar yrðu að fara gæti­lega; þeir mættu ekki und­ir nein­um kring­um­stæðum láta varn­ar­liðið fara frá Íslandi, hvað þá hætta þátt­töku í Atlants­hafs­banda­lag­inu, „þá verðið þið ein­ir og yf­ir­gefn­ir hér í N-Atlants­hafi“. Rúss­nesk yf­ir­völd kynnu þetta. […] Stór­veldi kunni að laum­ast bak­dyra­meg­in inn í smáríki með því að gera þau efna­hags­lega háð sér. „Þið verðið að fara gæti­lega. Þið verðið að vera vel á verði.““

Matth­ías seg­ir að þetta hafi Rostropovits sagt við sig „án þess að neinn hefði ymt að því af fyrra bragði“. Og hann bæt­ir við: „Ég fór að velta því fyr­ir mér, hvort eng­ir menn í heim­in­um sæju Sov­ét­stjórn­ina í réttu ljósi nema Kín­verj­ar og sovézk­ir and­ófs­menn.“

Það varð Matth­íasi mikið undr­un­ar­efni eft­ir að kín­versk­ur sendi­herra kom hingað snemma á átt­unda ára­tugn­um hve stíft hann varaði við hætt­unni af Sov­ét­ríkj­un­um.

Eitt er að lesa þessa gagn­orðu lýs­ingu Matth­ías­ar, annað að minn­ast þess af hve mikl­um krafti og sann­fær­ingu hann sagði frá slík­um sam­töl­um og tengdi þau af skáld­legu inn­sæi við viðburði líðandi stund­ar.

Und­ir rit­stjórn Matth­ías­ar gættu blaðamenn þess af kost­gæfni að birta ekk­ert án þess að rétt­mæti þess væri sann­reynt eft­ir þeim leiðum sem þá voru til þess. Morg­un­blaðið lá und­ir stöðugum ásök­un­um frá málsvör­um Sov­ét­ríkj­anna um að flytja lyg­ar um það sem þar gerðist. „Rússa­grýl­an“ var sögð við stjórn­völ­inn.

Við hrun Sov­ét­ríkj­anna fyr­ir rúm­um 30 árum sannaðist að „Mogga­lyg­in“ lýsti sov­ésk­um veru­leika og oft á mild­an hátt. Á þeim tíma­mót­um vildi Matth­ías ekki að blaðinu yrði beitt til að setja salt í sár marx­ista og inn­lendra óvild­ar­manna frjáls­lyndr­ar lýðræðis­stefnu blaðsins – ekki ætti að magna sárs­auka þeirra í rúst­um eig­in heims­mynd­ar.

Áhersl­an á traust­ar er­lend­ar frétt­ir í rit­stjóratíð Matth­ías­ar og óhagg­an­leg­ur stuðning­ur Morg­un­blaðsins við varn­ar­samn­ing­inn við Banda­rík­in og aðild­ina að NATO réð miklu um að hér var sama meg­in­stefna og meðal banda­manna Íslend­inga. And­stæðing­um stefn­unn­ar var þetta ljóst.

Nú er miðlun er­lendra frétta í ís­lensk­um fjöl­miðlum svip­ur hjá sjón miðað við það sem áður var. Þetta litar all­ar umræður um alþjóðamál. Grunn­hyggni set­ur svip á þær og lít­ill mun­ur er gerður á því sem beint snert­ir hags­muni þjóðar­inn­ar og stöðu í heim­in­um og hinu þar sem eng­inn hef­ur áhuga á því sem við höf­um til mál­anna að leggja.

Íslensk­ir stjórn­mála­menn sem taka þátt í umræðum á alþjóðavett­vangi skynja þetta. Þeir koma héðan með inn­lend ágrein­ings­efni um alþjóðamál efst í huga og átta sig á að þeir eru ein­fald­lega á ann­arri bylgju­lengd en viðmæl­end­ur þeirra.

Fyr­ir skömmu sagði Diljá Mist Ein­aras­dótt­ir, formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is, að á fund­um með er­lend­um starfs­systkin­um bæri hæst þunga stöðu í Úkraínu, fram­ferði Rússa, sam­heldni og sam­starf illra afla í heim­in­um og bar­áttu þeirra fyr­ir gjör­breyttri heims­mynd. Þetta end­ur­speglaðist „ein­hvern veg­inn ekki al­veg hér“. Hún sagði „áhersl­ur okk­ar og þras frá degi til dags“ frá­brugðið því sem væri hjá ná­granna- og vinaþjóðum ekki síst í fjöl­miðlum.