22.2.1997

Ávarp við upphaf sýningar á Nýjum aðföngum


Ávarp við upphaf sýningar á Nýjum aðföngum
Listasafni Íslands, 22. febrúar 1997

Við komum hér saman í kvöld í tilefni af því, að sett hefur verið upp sýning á nýjum aðföngum Listasafns Íslands.

Slíkar sýningar eru ætíð forvitnilegar. Þær eiga í senn að endurspegla þróun listar undanfarin ár og mat innkaupanefndar á því, sem hæst hefur borið.

Bera Nordal hefur látið þau orð falla í blaðaviðtali, að kaup á listaverkum sé sá þáttur í starfsemi Listasafns Íslands, sem sé erfiðastur viðfangs og þar sé safnið í raun alltaf í hlutverki gagnrýnandans.

Opinberar umræður benda og stundum til þess, að ekki séu allir á einu máli um innkaupin. Okkur, sem skortir fræðilega eða faglega þekkingu til að meta gildi listaverka, bregður stundum í brún, þegar frá því er sagt, að safnið sjái ekki ástæðu til að kaupa verk af listamönnum, sem njóta almennrar hylli, til dæmis ef tekið er mið af sölu listaverka til almennings.

Fleiri orð ætla ég þó ekki að hafa um þetta, því að sagan geymir mörg dæmi um ógöngur stjórnmálamanna, þegar þeir fara inn á svo viðkvæmt svið.

Saga Listasafns Íslands spannar meira en 100 ár og hér eiga margir dýrgripir samastað og eru til marks um góðan hug gefenda eða forsjálni þeirra, sem safninu hafa stjórnað.

Þáttaskil eru að verða í því efni, þar sem Bera Nordal hverfur frá störfum fyrir Listasafn Íslands hinn 1. mars næstkomandi og er þetta síðasta sýningin, sem hún setur hér upp áður en hún heldur til starfa í Malmö Konsthall.

Bera er annar forstöðumaður safnsins og fetaði hún í fótspor dr. Selmu Jónsdóttur á árinu 1987, þegar dr. Selma hafði gegnt starfi forstöðumanns í 37 ár. Henni entist ekki aldur til að sjá safnið í þessum glæsilegu húsakynnum sínum en á árinu 1988 kom það í hlut Beru að stýra flutningi hingað og síðan laga starf safnsins að nýjum aðstæðum í nýju húsnæði.

Þegar þriðji forstöðumaður Listasafns Íslands, Ólafur Kvaran listfræðingur, kemur hér til starfa síðsumars, tekur hann við safni, sem hefur blómgast í glæsilegum húsakynnum.

Sýningar safnsins hafa ekki einvörðungu verið merkir viðburðir heldur er húsnæði þess eftirsótt af þeim, sem vilja skapa starfi sínu eða einstökum atburðum hina virðulegustu umgjörð.

Góðir áheyrendur!

Leyfið mér að nota þetta tækifæri hér til að flytja Beru Nordal einlægar þakkir fyrir frábær störf hennar fyrir Listasafn Íslands. Fyrir hana er það mikil viðurkenning að hefja nú störf á alþjóðlegri safnavettvangi en hinum íslenska. Héðan fylgja henni góðar óskir um velfarnað í nýju starfi.

Sýningin, sem hér með er opnuð, ber mikilli grósku og fjölbreytni vitni. Óska ég okkur öllum til hamingju með að Listasafn Íslands skuli eiga þessi verk og vona, að þau muni um langan aldur gleðja gesti safnsins.