24.2.1996

Símenntun - setningarávarp á ráðstefnu

Ávarp á ráðstefnu um símenntun
Hótel Loftleiðum, 24. febrúar 1996

Ágætu ráðstefnugestir!

"Svo lengi lærir sem lifir" er heiti þessarar ráðstefnu um símenntun. Það eru orð að sönnu. Sá sem ekki er vakandi fyrir því sem gerist í kringum hann og tileinkar sér nýja þekkingu og færni, er síður í stakk búinn til að takast á við þær kröfur sem gerðar eru í atvinnulífinu og í samfélaginu. Þekking úreldist mjög hratt, reyndar mishratt eftir starfssviðum. Æ oftar heyrast þær raddir sem segja að menntun sé ekki neitt sem menn ljúka á nokkrum árum í skóla, heldur sé hún ævistarf. Það er sem sagt ekki nóg að afla sér menntunar á yngri árum heldur þurfa einstaklingar að viðhalda og auka þekkingu sína alla ævina. Ég hef slegið því fram að hugtakið "eilífðarstúdent" sé að verða gæðaheiti í stað þess að vera skammaryrði.

Evrópusambandið ákvað á síðasta sumri að helga árið 1996 símenntun til að ýta undir almenna umræðu í Evrópu um mikilvægi menntunar og þjálfunar á nýrri öld. Meginmarkmiðið er að auka vitund Evrópubúa um nauðsyn símenntunar fyrir velferð einstaklingsins og samfélagsins í heild. Ísland tekur þátt í þessu átaksverkefni og hefur verið skipaður samráðshópur til að vera ráðuneytinu og Rannsóknaþjónustu Háskóla Íslands, sem sér um framkvæmdina, til halds og trausts.

Eftirfarandi markmið hafa verið skilgreind fyrir aðgerðir á Íslandi:


- Að auka vitund almennings, stjórnenda fyrirtækja og skóla/fræðsluaðila um að menntun er æviverk, en ekki eitthvað sem einungis tilheyrir fyrsta hluta ævinnar.
- Einstaklingar þurfa sjálfir að setja sér markmið og gera áætlanir um eigin menntun og starfsframa.

- Stjórnendur fyrirtækja verða með sama hætti að skilgreina þarfir fyrir menntað og þjálfað starfsfólk, og gera áætlanir um ráðningar og þjálfun starfsmanna út frá því.

- Skólar hætti að líta á útskrift nemenda sinna sem lokaáfanga þeirra, heldur skoði með hvaða hætti þeir geti tryggt símenntun þeirra.


"Símenntun" er hugtak sem heyrist æ oftar í umræðu um menntamál hér heima og erlendis og er farið að líta á fjárfestingu í menntun sem mikilvægan þátt í verðmætasköpun og framsækni þjóða. Í ræðu sem Jacques Delors, fyrrverandi forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, flutti á aðalráðstefnu UNESCO í París í lok október síðastliðnum, sagði hann, að fram til þessa hefði fólk skipt lífsferli sínum í þrennt: nám, starf og eftirlaunaár. Nú yrði að breyta þessu og fólk að tileinka sér nýja þekkingu allt lífið. Er þetta kjarni í menntastefnu 21. aldarinnar, sem verið er að móta á vegum UNESCO. Ég vil taka undir þetta viðhorf. Í því felst viðurkenning á nýju hlutverki menntakerfisins og skyldu þess til að þjóna öllum án tillits til aldurs.
Við nýja skilgreiningu á menntakerfinu þarf að taka tillit til þess, að skólar þurfa að mennta æ fleiri ungmenni á sama tíma og spurn eftir hámenntuðu vinnuafli eykst. Jafnhliða aukningu á hefðbundnu skólastarfi verða menntastofnanir að opna dyr sínar fyrir þeim, sem þegar eru á vinnumarkaði. Þeim er boðin framhalds- og endurmenntun með símenntun og fjarnámi. Með nánari tengslum menntastofnana og atvinnufyrirtækja eykst þörfin fyrir skólagengið fólk sem getur tekist á við margvísleg verkefni á síbreytilegum vinnumarkaði. Skólarnir verða að geta brugðist við nýjum kröfum.

En hverjir bera ábyrgð á símenntun? Þeirri spurningu er varpað til okkar hér í dag.

Við berum öll ábyrgð á henni, en á mismunandi hátt. Einstaklingar þurfa að hafa vilja og frumkvæði, menntastofnanir verða að leggja traustan námsgrunn og koma til móts við síbreytilegar þarfir einstaklinga og atvinnulífs, og atvinnulífið þarf að skilgreina þarfir sínar fyrir menntað og þjálfað starfsfólk og styðja við jafnt einstaklinga sem menntastofnanir.

Á nýlegum fundi menntamálaráðherra OECD-ríkjanna um símenntun var leitast við að gera grein fyrir hvaða hlutverki skólar eiga að gegna í símenntun, hvar fyrirtæki eigi að koma við sögu og hvar ríkið. Almenn sátt er um að ríkið beri megin ábyrgð á grunnmenntuninni (þ.e. leik-, grunn-, framhalds- og háskólanámi), en að nauðsynlegt sé að efla frekar tengsl skóla og atvinnulífs svo að menntunin sé sem best samstíga þróuninni í atvinnulífinu og komi til móts við þarfir þess. Grunnmenntun veitir aðgang að vinnumarkaði, en hún tryggir ekki veru fólks þar nema það endurnýji stöðugt færni sína og þekkingu. Það er því mikilvægt að skólarnir efli hæfileika einstaklinga til að nema og skapi hjá þeim jákvætt viðhorf til símenntunar. Fyrirtæki verða að skilja að fjárfesting í menntun starfsmanna er eins mikilvæg og fjárfesting í tækjum ef þau eiga að vera samkeppnisfær. Það verður með öðrum orðum að rækta mannauðinn.

Það eru skýrar væntingar í garð menntakerfisins, bæði hins opinbera skólakerfis og annarra menntastofnana, um að mæta aukinni þörf fyrir menntun. Innan menntamálaráðuneytisins hefur verið unnið að stefnumörkun síðustu mánuði þar sem hugtökin samkeppni, valddreifing, sjálfstæði stofnana, hagræðing, gæðamat og gæðakröfur eru nauðsynlegar forsendur þess árangurs sem ætlunin er að ná. Samkeppni, hagræðing og gæðamat eru ekki markmið í sjálfu sér, heldur einungis tæki til að ná tilteknum markmiðum. Mín sannfæring er sú að með þessum aðferðum sé unnt að bæta menntun þjóðarinnar.

Í frumvarpi til nýrra framhaldsskólalaga er tekið á þessum hugtökum og skapaðar forsendur til að auka tengsl framhaldsskólans við það þjóðfélag sem hann þjónar. Fulltrúar atvinnulífsins munu fá aukna aðild að stefnumótun, stjórnun og framkvæmd starfsnáms og skólanum er ætlað að þjóna sínu nánasta samfélagi sem best.

Í frumvarpinu eru ákvæði sem stefna að því að efla ábyrgð framhaldsskóla á sviði símenntunar. Vil ég í því sambandi sérstaklega nefna ákvæði 33., 34. og 35. gr. sem fjalla um öldungadeildanám, endurmenntunarnámskeið og fullorðinsfræðslumiðstöðvar. Munu þessi ákvæði leysa af hólmi hluta af ákvæðum í lögum um almenna fullorðinsfræðslu, en þau lög hafa reynst gölluð. Til að sinna þessu er skólunum ætlað hafa samstarf við aðra s.s. aðila vinnumarkaðarins, atvinnulífið eða aðra áhuga- eða hagsmunahópa. Það er ekki hvað síst mikilvægt úti á landi að skólinn verði öflug þjónustustofnun í héraði. Í skólanum er víða dýrmæt aðstaða sem rétt er að nýta til fullnustu. Ákvæðið um heimild til að stofna fullorðinsfræðslu[byte=31 1F]miðstöð er til að skapa vettvang fyrir samstarf og samvinnu hinna ýmsu aðila. Skulu samstarfsaðilar gera með sér samning um starfsemina. Ég er þess fullviss að góð samstaða mun skapast bæði á heimavettvangi og hjá heildarsamtökum um stofnun fullorðinsfræðslumiðstöðva.

Ég vil minna á ákvæði 41. gr. sem heimilar einkaaðilum að bjóða upp á nám sem fellur undir lög um framhaldsskóla. Í þessari grein frumvarpsins er það nýmæli, að menntamálaráðherra getur veitt slíkum einkaskólum viðurkenningu. Með öðrum orðum geta menn leitað eftir stimpli ráðuneytisins á það nám, sem þeir bjóða. Verðum við að ganga að því sem vísu, að þar verði um gæðastimpil að ræða. Ég vek athygli á þessu ákvæði sérstaklega, því að þar er öllum heimilað að bjóða hvers kyns nám án opinbers leyfis, en unnt er að leita eftir opinberri viðurkenningu, ef menn kjósa. Njóti einkaskólar framlags af opinberu fé skal gerður verksamningur milli menntamálaráðherra og rekstraraðila skóla um fjárveitingu, rekstur, stjórnun og eigur eftir því sem við á.

Samkvæmt frumvarpinu er stefnt að því að endurskoða námsframboð öldungadeilda, breikka það og bæta við hagnýtum námsleiðum. Verður annars vegar lögð áhersla á að byggja upp starfsnámsbrautir fyrir fullorðið fólk og hins vegar að skipuleggja sérstakt grunn- og upprifjunarnám fyrir fullorðna. Öldungadeildanám skal vera jafngilt námi í almennum framhaldsskólum en skipulag og innihald náms og kennslu kann að vera ólíkt þar sem mið verður tekið af reynslu hins fullorðna námsmanns. Er nauðsynlegt að huga skipulega að námsskrá fyrir öldungadeildarnámið sérstaklega.

Líklegt er, að þörf verði á einskonar þekkingarmiðstöð fyrir símenntun og fullorðinsfræðslu. Þar væri unnt að ganga að fræðslu- og kennsluefni, sem uppfyllti strangar gæðakröfur. Yrði ekki óeðlilegt, að slík miðstöð væri í tengslum við væntanlegan Uppeldisháskóla. Þjónustan yrði seld og sniðin að þörfum viðskiptavinanna.

Öflug umræða um símenntun sem víðast í samfélaginu er mikilvægt afl til að auka vitund fólks um nauðsyn hennar. Mikilvægt skref er stigið í dag á þessum "Degi símenntunar", bæði með þessari ráðstefnu og með opnu húsi. Er ánægjulegt að sjá hversu margir fræðsluaðilar hafa brugðist vel við ósk um að þeir kynni almenningi starfsemi sína. Vil ég færa þeim þakkir fyrir þátttöku þeirra og samstarf.

Með þessum orðum býð ég ykkur velkomin og segi ég ráðstefnuna setta.