23.4.1996

Tóbaksvarnir - ávarp

Ávarp á ráðstefnu um tókbaksvarnir í nútíð og framtíð
í Háskólabíói 4. maí 1996.

Góðir áheyrendur!

Fyrir 32 árum komust læknavísindin að þeirri rökstuddu niðurstöðu, að reykingar væru heilsuspillandi. Þrátt fyrir miklu meiri vitneskju um skaðsemi tóbaksneyslu síðan, er enn nauðsynlegt að koma saman til að árétta mikilvægi tóbaksvarna. Eins og við vitum vekja forboðnu ávextirnir oft mestan áhuga. Þess vegna er brýnt að sýna hugkvæmni við að takmarka sóknina í þá.

Þegar Alþingi Íslendinga samþykkti tókbaksvarnarlög á árinu 1984, voru þau á margan hátt strangari en lög um sama efni í öðrum löndum. 1991 áréttaði Alþingi andstöðu sína við reykingar í ályktun um heilbrigðisstefnu. Þar var því meðal annars lýst yfir, að fólk, sem ekki reykir, ætti ekki að þurfa að þola tóbaksreyk. Síðan hafa frumvörp um tókbaksvarnir verið flutt á þingi og er eitt slíkt til meðferðar þar um þessar mundir. Vil ég ekki spá neinu um örlög þess, minnugur þeirrar aðferðar, sem beitt var til að drepa tóbaksvarnarfrumvarpið rétt fyrir þinglok í fyrra. Þó er líklegt, að málið nái fram að ganga, verði um það sátt í heilbrigðisnefnd Alþingis, þar sem málið er nú.

Af hálfu ríkisstjórnarinnar er það að sjálfsögðu heilbrigðisráðherra, sem hefur hið vandasama ábyrgðarhlutverk að undirbúa frumvörp um tóbaksvarnir. Framkvæmd varnanna snertir hins vegar mjög hinar fjölmennu stofnanir, skólana, sem eru á starfsviði menntamálaráðherra.

Leyfið mér að nota þetta tækifæri til að þakka öllum og ekki síst Krabbameinsfélaginu, sem hefur haldið uppi markvissri fræðslu um óhollustu reykinga í grunnskólum. Er þetta starf stundað í sjötta til tíunda bekk og kynningarefni sniðið að aldri og viðhorfum nemenda.

Þegar Krabbameinsfélagið reið á vaðið vakti starf þess mikla athygli og börnin urðu baráttumenn fyrir því, að heimilin yrðu reyklaus. Rannsóknir sýna, að sú barátta er ekki ástæðulaus, því að við blasir að reykingar foreldris eða foreldra geta dregið úr þroska barna og námsárangri, auk þess eru barnasjúkdómar algengari hjá börnum reykingafólks.

Markhópur tókbaksframleiðenda er á framhaldsskólaaldri, 15% fólks á aldrinum 15-19 ára reykja en 30% fólks á aldrinum 20-29 ára. Á framhaldsskólatímanum er því nauðsynlegt að leggja mjög ríka rækt við forvarnir. Takist það er unnt að ná til mesta áhættuhópsins.

Á undanförnum árum hafa læknar og aðrir vísindamenn vakið athygli á því að tóbak eða öllu heldur nikótín í tóbaki sé efni sem búi yfir öllum helstu eiginleikum fíkniefna. Það kemur fram í því að fólk ánetjast því mjög hratt ef byrjað er að nota það, fráhvarfseinkenni, sem oft eru nokkuð erfið, koma fram þegar efnið er ekki notað og þegar á heildina er litið reynist ekki auðveldara að venja sig af notkun þess en af notkun annarra fíkniefna.

Á undanförnum mánuðum hefur menntamálaráðuneytið verið virkur þátttakandi í fíkniefnavörnum í framhaldsskólum undir merkjum jafningjafræðslu. Í það verkefni er ráðist til að hvetja unglinga til að forðast efni, sem eru ólögleg. Ég er sannfærður um að góður árangur í þessari fræðslu mun hafa áhrif á viðhorf unga fólksins til tóbaksnotkunar, jafnt reykinga og fínkornótta neftóbaksins, sem vekur áhyggjur meðal annars vegna aðferða við neyslu þess. Það hefur auk þess að geyma nikótín í háum styrkleika, sem ýtir undir hættuna á því, að menn ánetjist nikótíni.

Góðir áheyrendur!

Skattfé rennur að langstærstum hluta til heilbrigðis- og menntamála. Til að þetta fé nýtist sem best er nauðsynlegt að stilla saman strengi á þessum sviðum.

Rannsóknir í þeim löndum, þar sem bilið milli ríkra og fátækra er öllum augljóst, sýna, að mennta- og hátekjufólk í þessum löndum hefur minnkað tóbaks- og áfengisneyslu á sama tíma og neysla hefur aukist hjá hinum svonefndu lágstéttum. Af þessu má draga þá ályktun, að menntun sé leið til forvarna og það á fleiri sviðum en tóbaksneyslu. Góðar forvarnir draga úr kostnaði við heilsugæslu, þær eru því ódýrasta leiðin til að ná árangri í heilbrigðismálum.

Við þurfum að reyna með öllum ráðum, foreldrar, kennarar, starfsfólk heilbrigðisþjónustunnar og aðrir að vinna gegn tóbaksnotkun barna og unglinga. Góður árangur hefur náðst á því sviði undanfarin 20 ár en á allra síðustu árum hefur komið nokkurt bakslag í seglin.

Til að sporna við tóbaksneyslu í nútíð og framtíð þurfum við menntun og fræðslu í stað fleiri boða og banna. Það sé til marks um að á Íslandi búi vel menntuð þjóð og heilbrigð, að enn frekar dragi úr neyslu tóbaks.