3.7.2004

Skilyrði standast stjórnarskrá

Morgunblaðið, 3. júlí, 2004.

 

 

Að loknum forsetakosningum vekur athygli, hve óvandaður málflutningur stuðningsmanna Ólafs Ragnars Grímssonar er um úrslit kosninganna. Annaðhvort eru ímyndaðir andstæðingar í gervi Sjálfstæðisflokksins og Morgunblaðsins dregnir fram til að réttlæta útreið Ólafs Ragnars eða hlaupið er frá aðeins nokkurra daga gömlum heimasmíðuðum mælistikum áróðursmeistara á borð við ritstjóra Fréttablaðsins, af því að stikurnar sýna nú stórtap Ólafs Ragnars í stað sigurs. Meira að segja sá ritstjóri sjálfur metur úrslitin nú eftir einhverri allt annarri mælistiku en hann hafði gert í leiðurum, aðeins örfáum dögum fyrir kosningar. Allt sökum þess að fylgi Ólafs var fjarri því sem stuðningsmenn hans höfðu búist við.

Í umræðum næstu daga og vikna um væntanlega þjóðaratkvæðagreiðslu, sem stofnað er til af Ólafi Ragnari, er nauðsynlegt að hafa þessar umræðuaðferðir stuðningsmanna hans í huga.

Í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar um tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu skv. 26. gr. stjórnarskrárinnar er á fleiri en einum stað vikið að því, hve illa var staðið að gerð þessa ákvæðis í stjórnarskránni. Í skýrslunni segir, að um bráðabirgðaútfærslu hafi verið að ræða og hafi markmiðið verið að endurskoða og útfæra ákvæðið nánar í framhaldi af lýðveldisstofnuninni 17. júní 1944. Í skýrslunni segir einnig, að deilur um efnislegt inntak ákvæðisins dragi fram „ákveðinn óskýrleika og eftir atvikum skort á undirbúningi við setningu ákvæðisins með stjórnskipunarlögunum frá 1944.“

 Ég er sammála þessari ályktun starfshópsins. Eina haldbæra skýringin á því, að ekki hefur verið gengið til þess verks að bæta úr vanköntum á 26. gr., er, að öllum hefur þótt ósennilegt, ef ekki óhugsandi, að henni yrði nokkru sinni beitt, það er að forseti Íslands gerði þá aðför að þingræði og fulltrúalýðræði, sem nú er staðreynd. Talsmenn Ólafs Ragnars vegna synjunar hans fara álíka villur vegar í skýringu sinni á nauðsyn þess að grípa til synjunarvaldsins vegna fjölmiðlaganna og í skýringum sínum á því, að hann hafi ekki farið illa út úr kosningunum 26. júní.

Ólafur Ragnar lagði í upphafi aðfarar sinnar að þingræðinu áherslu á gjá milli þingvilja og þjóðarvilja. Eftir útreiðina 26. júní er málflutningur af þessum toga enn innantómari en áður. Fyrir forsetakosningar var Ólafur Ragnar raunar tekinn að hopa frá þessum rökum. Í umræðuþættinum Ísland í dag mánudaginn 21. júní leitaðist hann við að færa þau rök fyrir synjun sinni, að fjölmiðlalögin snerust í raun um stjórnskipulega stöðu fjölmiðla, þeirra væri ekki getið í stjórnarskránni en þyrftu að hafa stjórnskipulega fótfestu ekki síður en löggjafarvaldið, dómsvaldið og framkvæmdavaldið.

Gildistaka stjórnarskrárinnar árið 1944 var bundin því skilyrði, að meira en 50% atkvæðisbærra manna veittu henni stuðning í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Hvergi hliðstæða

Í skýrslu starfshóps ríkisstjórnarinnar er bent á, að 26. gr. stjórnarskrárinnar eigi sér hvergi hliðstæðu, hvergi sé einum manni veitt heimild til að synja lögum og vísa þeim til þjóðaratkvæðis. Annars staðar er þjóðaratkvæðagreiðsla stjórnarskrárbundin um ákveðin mál, hún er ákveðin af þjóðþingum eða tiltekinn fjöldi kjósenda getur krafist hennar.

Í leit að fyrirmynd við gerð laga um þjóðaratkvæðagreiðslu hér telur starfshópurinn nærtækast að leita til Danmerkur, þar sem þriðjungur danska þjóðþingsins getur krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um samþykkt lagafrumvarp, til að hafna frumvarpinu þarf meirihluti í atkvæðagreiðslunni, þó aldrei færri en 30% kosningabærra manna, að hafa greitt atkvæði gegn frumvarpinu.

Í Danmörku eru það þingmenn, sem ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu, eftir að þeir hafa fjallað um mál á þingi og rök með og á móti hafa verið reifuð þar. Sé máli vísað frá þingi til þjóðar er þess krafist, að 30% atkvæðisbærra manna segi nei, svo að frumvarpið sé fellt.

Hér er það einstaklingur utan þings, sem synjar ákvörðun alþingis og kallar þar með fram þjóðaratkvæðagreiðslu. Þessi einstaklingur hlaut þunga áminningu í kosningum hér hinn 26. júní sl.

Hér eins og í Danmörku er sjálfsagt og eðlilegt, að gerð sé krafa um að tiltekinn fjöldi kjósenda segi nei, svo að ákvörðun þings sé hafnað. Rétt er sem segir í skýrslu starfshópsins, að samkvæmt íslenskri stjórnskipun er það alþingi „sem á hverjum tíma markar stjórnarstefnu og stjórnarframkvæmdir í aðaldráttum“. Stjórnskipuleg og lögfræðileg rök eru fyrir því, að sett séu skilyrði um að stór hluti atkvæðisbærra manna hafni lögum. Krafa um þetta verður þyngri en ella, ef lögin eru talin ígildi stjórnarskrár, af þeim, sem synjaði þeim.

Andstaða við, að slík skilyrði séu sett byggist ekki á málefnalegum sjónarmiðum, heldur viðleitni til að grafa undan þingræðinu, ákvörðunarvaldi alþingis.