16.3.2006

Staðan í varnarmálunum.

Með þeim atburði sem gerðist í gær, þegar tilkynnt var af hálfu Bandaríkjastjórnar að þyrlur og þotur hyrfu af Keflavíkurflugvelli, lauk ferli sem hófst í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna árið 1994 þegar þáverandi utanríkisráðherra, Jón Baldvin Hannibalsson, skrifaði undir samning við William Perry um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli. Þetta samkomulag var síðan endurnýjað árið 1996 og átti að gilda til 2001, en frá 2001 hefur ekki tekist að ljúka viðræðum á milli ríkisstjórnar Íslands og Bandaríkjanna fyrr en á þennan veg sem gerðist í gær með þeim þáttaskilum að Bandaríkjastjórn segir: Við höfum ekki tök á því að hafa hér viðvarandi orrustuþotur á Keflavíkurflugvelli og munum flytja þær á brott og einnig þyrlusveitina. Þetta er ekkert ferli sem kemur á óvart. Þetta hefur staðið yfir frá 1994. Ég gagnrýndi það á sínum tíma að menn væru að skrifa undir samkomulag eins og þá var gert, tímabundið samkomulag um fyrirkomulag á Keflavíkurflugvelli, og taldi það brjóta í bága við varnarsamninginn og þær hefðir sem hefðu verið í samskiptum Íslands og Bandaríkjanna.

Þegar rætt er um þetta mál án þess að geta um varnarsamninginn, eins og formaður Samfylkingarinnar gerði, eða aðild okkar að Atlantshafsbandalaginu þá er verið að hlaupa fram hjá meginþættinum í samskiptum okkar og Bandaríkjanna. Það er rétt að lesa upp í þessum umræðum innganginn að varnarsamningnum frá 1951 þar sem segir, með leyfi forseta:

„Þar sem Íslendingar geta ekki sjálfir varið land sitt, en reynslan hefur sýnt, að varnarleysi lands stofnar öryggi þess sjálfs og friðsamra nágranna þess í voða, og þar sem tvísýnt er um alþjóðamál, hefur Norður-Atlantshafsbandalagið farið þess á leit við Ísland og Bandaríkin, að þau geri ráðstafanir til, að látin verði í té aðstaða á Íslandi til varnar landinu og þar með einnig til varnar svæði því, sem Norður-Atlantshafssamningurinn tekur til, með sameiginlega viðleitni aðila Norður-Atlantshafssamningsins til að varðveita frið og öryggi á því svæði fyrir augum.“

Þetta er grundvöllurinn að varnarsamningnum og er enn í gildi. Þetta grundvallarsjónarmið ræður enn í samskiptum okkar og Bandaríkjanna eins og fram kom í yfirlýsingu þeirra í gær og eins og staðfest hefur verið af hæstv. utanríkisráðherra og hæstv. forsætisráðherra. Það er þetta sem við verðum að leggja til grundvallar þegar við ræðum um okkar öryggismál, að þessi samningur er enn í gildi. Spurningin er nú hvernig á að framkvæma hann við núverandi aðstæður. Það má segja að samningurinn hafi leitt til mestu hernaðaruppbyggingar á Íslandi á árinu 1985. Þá var spennan mest á norðurslóðum og þá var viðbúnaðurinn mestur á Keflavíkurflugvelli. Frá 1985 tók sú uppbygging að dragast saman og síðan urðu náttúrlega þáttaskil þegar Sovétríkin hurfu af vettvangi og aðstaða í öryggismálum heimsins breyttist.

Það er rangt að halda því fram að íslensk stjórnvöld hafi frá þeim tíma látið reka á reiðanum og ekki mótað sér stefnu eða skoðanir á því hvað ætti að gera í utanríkis- og öryggismálum. Það hafa verið samdar tvær skýrslur. Fyrri skýrslan kom út í mars 1993, Öryggis- og varnarmál Íslands. Þar er lagt á ráðin um það hvað Íslendingar eiga að gera til að tryggja öryggi sitt við þær aðstæður sem skapast höfðu í heiminum. Þar eru tíunduð ákveðin grundvallaratriði sem þarf að taka mið af og þau atriði eru öll í fullu gildi enn þrátt fyrir að þessi breyting verði á fyrirkomulagi framkvæmdar varnarsamningsins á Keflavíkurflugvelli. Síðan var gerð greinargerð um öryggis- og varnarmál Íslands við aldamót á vegum utanríkisráðuneytisins, sem kom út árið 1999. Þar eru áréttuð þau sjónarmið sem komu í skýrslunni 1993 og síðan lagt á ráðin um það hvað gera þurfi til að tryggja öryggi Íslands við núverandi aðstæður. Ég tel að það hafi ekkert breyst í grundvallaratriðum frá 1999 að því er þetta varðar. Ef menn lesa þessa skýrslu, og þær niðurstöður sem þar eru kynntar, og sjá hvernig staðið hefur verið að framkvæmd stefnu Íslands í öryggis- og varnarmálum frá þeim tíma þá sjá þeir að í stórum dráttum hefur verið fylgt þeim meginsjónarmiðum sem kynnt voru þá og ríkisstjórnin hefur fylgt síðan. Að halda því fram að af hálfu stjórnvalda hafi ekki verið staðið að því að móta hér stefnu í samræmi við breyttar aðstæður er algerlega rangt. Síðan hefur það gerst, eins og þingmenn vita, að hér á þingi hefur á undanförnum missirum verið rætt um ýmis mál sem snerta okkar öryggisþætti og ég hef tekið þátt í þeim umræðum, m.a. vegna breytinga á skipulagi lögreglunnar með því að efla sérsveit lögreglunnar. Þá komu upp þingmenn og töldu að ég væri að leggja drög að því að stofna íslenskan her og töldu að það mál — það var í mars árið 2004, þá stóðu hér þingmenn, sérstaklega frá Samfylkingunni, og héldu því fram að með því að breyta skipulagi lögreglunnar á þann veg sem gert var með sérsveitinni væri ég að stíga fyrstu skrefin í því að stofna íslenskan her, sem að sjálfsögðu er rangt en sýnir að íslensk stjórnvöld hafa verið hér að laga öryggismál að þeim kröfum sem við stöndum frammi fyrir á hverjum tíma.

Ég mun koma fram með frumvarp, væntanlega á þessu þingi, um Landhelgisgæsluna, ný lög um Landhelgisgæsluna þar sem tekið verður á stöðu hennar miðað við núverandi aðstæður. Ég heyri það á hv. þingmönnum, sem hér taka til máls, að þeir telja að Landhelgisgæslan hafi nýju og meira hlutverki að gegna þegar litið er til þeirra breytinga sem eru að verða. Í þessari skýrslu frá 1999 segir, með leyfi forseta:

„Kanna þarf möguleika á hagnýtri þátttöku Íslands í norrænum friðargæslu- og björgunaræfingum með aðild Eystrasaltsríkjanna, en slíkar æfingar eiga sér nú stað undir merkjum Samstarfs í þágu friðar. Sérstaklega þyrfti að athuga hvort til greina kæmi að varðskip Landhelgisgæslunnar, eitt eða fleiri, tækju reglulega þátt í slíkum æfingum.“

Þetta er sett fram árið 1999 og þetta eru sjónarmið sem við þurfum að huga að nú ekki síður en þá. Það er fjallað um fleiri slík atriði þegar menn eru að ræða þessi mál og það er í þessum anda sem síðan hefur verið starfað og stefnunni hrundið í framkvæmd.

Það er líka verið að endurskoða lögin um almannavarnir. Almannavarnir skipta máli þegar litið er til þeirra aðstæðna sem við búum við núna og það munu koma fram tillögur um breytingar á skipulagi almannavarna, annaðhvort nú í vor eða næsta haust, þar sem tekið er mið af nýjum aðstæðum og lagt á ráðin um það hvernig við eigum að standa betur að okkar almannavörnum miðað við núverandi aðstæður. Alþingi er að fjalla núna um lög um nýskipan lögreglumála þar sem verið er að stækka liðsheildir lögreglunnar, verið að breyta skipulagi lögreglunnar, m.a. í kringum Keflavíkurflugvöll, styrkja lögreglustjórn á Suðurnesjum og efla lögreglustjórn þar til að takast á við ný verkefni í ljósi breyttra aðstæðna.