17.10.2008

Ný sjálfstæðisbarátta er óhjákvæmileg.

Lagakennsla á Íslandi í 100 ár. Háskóla Íslands, 17. október, 2008.

Sumarið 1907 samþykkti alþingi tillögu Hannesar Hafstein ráðherra um að hækka fjárveitingar til væntanlegs lagaskóla, svo að unnt yrði að ráða fleiri en Lárus H. Bjarnason til starfa við skólann og falla frá því, að dómurum við landsyfirréttinn yrði gert skylt að kenna laganemum.

Lárus sat á þingi auk þess að undirbúa stofnun lagaskólans. Í umræðum 1907 um hærri fjárveitingar, svo að unnt yrði að koma skólanum af stað, minnti hann samþingmenn sína á, að aðdragandi að stofnun skólans hefði verið langur. Fyrsta tillagan hefði komið fram á þingi 1845, strax eftir að alþingi var endurreist. Málinu hefði oft verið hreyft á þingum eftir það, þar til lög um lagaskóla voru loks samþykkt 1903 og tóku þau gildi 4. mars 1904.

Lárus H. Bjarnason taldi, að þessi látlausa 50 ára krafa um lagaskóla væri næg sönnun fyrir því, að þjóðinni hefði þótt stofnun skólans brýn nauðsyn. Íslensk löggjöf væri um 1000 ára gömul. Hún stæði að miklu leyti á íslenskum grundvelli, að nokkru leyti á norskum, en kæmi miklu síðar við dönsk lög, og ekki fyrr en nokkru eftir að einveldi kom til sögunnar. Í Kaupmannahafnarháskóla væri kennsla því sem næst engin í íslenskum lögum, það vissu þeir allir, sem lesið hefðu lög – það færi tæplega fram úr 10 blaðsíðum að öllu samantöldu, sem snerist um Ísland.

Í umræðunum sagði Guðlaugur Guðmundsson, þingmaður Vestur-Skaftfellinga, að felldu þingmenn tillöguna um auknar fjárveitingar til lagaskólans, myndi Kaupmannahafnarháskóli stofna kennsludeild í íslenskum lögum.  Hann taldi sjálfstæði Íslands í voða, ef íslenskir menn ættu að fara nema íslensk lög við danskan háskóla á dönsku máli og frá dönsku sjónarmiði.

Tillaga ráðherra um auknar fjárveitingar var samþykkt og lagakennsla hófst á Íslandi árið 1908 eins og við minnumst hér í dag. Enginn dregur nú í efa, að með stofnun lagaskólans hafi verið stigið heillaspor.

Íslensk lagahefð stendur á skýrum grunni og hefði ekki verið lögð rækt við hana af íslenskum lögvísindamönnum hefðu íslensk lög orðið að sögulegum forngrip í stað þess að vera lifandi tæki, þegar tekist er á við viðfangsefni í samtímanum.

Íslenska þjóðfélagið og landslögin hafa tekið miklum breytingum á öldinni, sem liðin er, frá því að lagaskólinn kom til sögunnar. Tvær heimsstyrjaldir, fullveldi þjóðarinnar í lok hinnar fyrri og sjálfstæði undir lok hinnar síðari, marka söguleg þáttaskil. Þáttaskil, sem hafa krafist mikils af þeim, sem móta þjóðinni réttarreglur og marka henni stöðu í samfélagi þjóðanna.

Enn erum við stödd á sögulegum tímamótum og enn mun reyna á þá, sem standa vörð um íslenska réttarríkið.

Síðastliðinn sunnudag birtist grein í The Washington Post undir fyrirsögninni. Næsta heimsstyrjöldin? Hún gæti orðið fjármálaleg. Þar vísa höfundar til ákvarðana íslenskra stjórnvalda um að vernda innlendan hluta bankakerfis síns en láta lánardrottna erlenda hlutans bera áhættu af lánveitingum sínum. Þeir segja, að þessar ákvarðanir kunni aðeins að vera fyrsta skref. Ákvörðun bresku ríkisstjórnarinnar um að beita hryðjuverkalögum til að sölsa undir sig eignir íslenskra banka og starfsemi í Bretlandi hafi hugsanlega dramatískt, táknrænt gildi.

Greinarhöfundar líkja ástandinu í banka- og fjármálaheiminum við heimsstríð og Ísland hefur að margra áliti orðið fyrst ríkja til að lúta í lægra haldi í þeim átökum.  Umræður á innlendum stjórnmálavettvangi hafa réttilega snúist um það undanfarið, hvar Íslendingar geti leitað stuðnings og skjóls, þegar hvarvetna ríkir uppnám.

Við allar venjulegar aðstæður er litið á alþjóðasamninga sem skjól smáríkja gagnvart stærri ríkjum.  Atburðarás síðustu daga vekur spurningar um, hvort nú sé jafnvel ástæða til að draga slíka vörn í efa.

Bresk stjórnvöld beita hrammi hryðjuverkalaga gegn íslenskum fyrirtækjum. Hollendingar hóta með aðgerðum á vettangi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, fallist Íslendingar ekki á kröfur þeirra.

Góðir áheyrendur!

Ég leyfi mér að kveða svo fast að orði, að ný sjálfstæðisbarátta sé óhjákvæmileg til að endurheimta og treysta fjárhagslegan styrk þjóðarinnar. Í þeirri baráttu mun örugglega reyna mjög á lög og lögfræðinga, eins og jafnan áður, þegar Íslendingar hafa leitast við að treysta stöðu sína í samfélagi þjóðanna.

Hin síðari ár hefur lagakennsla við íslenska háskóla tekið æ meira mið af Evrópurétti og nú skiptir miklu, að nýta þá þekkingu til hlítar í því skyni að treysta stöðu þjóðarinnar og koma í veg fyrir, að óbærilegir skuldaklafar verði lagðir á íslenska skattgreiðendur.

Sú breyting hefur orðið á lagakennslu í landinu, að hún er nú boðin við fleiri háskóla en Háskóla Íslands. Hefur verið næsta ævintýralegt að fylgjast með því, hve stór hópur karla og kvenna hefur lagt stund á lögfræði undanfarin ár.

Hin mikla alhliða menntasókn þjóðarinnar hefur stuðlað að meiri og betri lífskjörum á skemmri tíma en nokkru sinni fyrr í sögu hennar. Við nýjar og gjörbreyttar aðstæður býr þjóðin enn að þessum auði, því að menntun verður aldrei frá neinum tekin.

Hitt er síðan dapurleg staðreynd, að þrátt fyrir meiri og betri menntun hefur verið færst meira í fang, en íslenska bankakerfið þolir, þegar allur fjármálaheimurinn leikur á reiðiskjálfi.

Nú skiptir öllu, að lög og reglur séu hafðar sem leiðarljós, þegar hafist er handa við að vinna sig út úr rústunum. Til réttarvörslukerfisins eru ætíð gerðar miklar kröfur en aldrei meiri en þegar vegið er að innviðum þjóðfélaga, eins og hér hefur gerst.

Um nokkurt árabil hefur markvisst verið reynt að grafa undan trausti í garð þeirra, sem unnið hafa ötullega að rannsókn og ákærum vegna efnahagsbrota. Til þessarar hörðu atlögu var stofnað vegna rannsókna og ákæru gegn einu af viðskiptaveldum landsins, sem berst nú fyrir lífi sínu.

Ákæruvald og lögregla hafa að sjálfsögðu staðið þessa hrynu af sér. Þrátt fyrir það  má ætla, að núverandi stofnanir á sviði rannsóknar og saksóknar og jafnvel dómstólar eigi fullt í fangi með mál, sem kunna að spretta af falli bankanna. Fyrir hafa þessar stofnanir næg verkefni á sinni könnu, auk þess ráða þær tæplega hvorki yfir nægum mannafla né nægilegri sérþekkingu á þeim atriðum, sem hér koma til álita.

Rannsókn flókinna efnahagsbrota, saksókn og dómsmeðferð er tímafrek og kostnaðarsöm í samanburði við önnur sakamál. Alrangt er hins vegar, að slíkar rannsóknir auki aðeins kostnað ríkissjóðs. Uppljóstrun skatta- og efnahagsbrota leiðir oft til þess, að skatttekjur ríkissjóðs aukast mikið, auk þess sem ólöglegur ávinningur efnahagsbrota getur sætt upptöku.

Skilvirk og árangursrík rannsókn og dómsmeðferð brota, sem kunna að koma í ljós við fall bankanna, ætti að sefa reiði, efla réttlætiskennd og auka trú borgaranna á réttarríkið auk þess að gegna varnaðar- og uppeldishlutverki til framtíðar. Þá er skilvirk og réttlát meðferð slíkra mála til þess fallin að efla lífsnauðsynlegt traust umheimsins í garð íslensks fjármálakerfis.

Á þessari stundu er ekki unnt að fullyrða neitt um það, hvort og hvernig fall bankanna kemur inn á borð þeirra, sem gæta laga og réttar. Þegar hefur verið leitað til breskra lögmanna til að huga að málaferlum gegn bresku ríkisstjórninni vegna ótrúlegrar framgöngu hennar í garð Íslendinga og íslenskra fyrirtækja. Þrátt fyrir að breska ríkisstjórnin hafi kosið að beita hnefarétti, hljótum við enn að vona, að unnt sé að leita lögvarins réttar fyrir dómstólum í Bretlandi.

Að fleiru er að hyggja og á fundi alþingis miðvikudaginn 15. október skýrði ég frá bréfi, sem ég ritaði ríkissaksóknara til að styðja ákvörðun hans um gerð skýrslu um stöðu og starfsemi íslenskra peninga- og fjármálastofnana á þessum tímamótum í rekstri þeirra og eignarhaldi auk aðdraganda hinna miklu umskipta, sem orðið hafa í rekstri þeirra og leita við það liðsinnis frá embætti skattrannsóknarstjóra, fjármálaeftirliti og ríkisendurskoðun.

Þá skýrði ég þingmönnum frá því, að jafnframt væri unnið að því á vegum dóms- og kirkjumálaráðuneytisins að semja frumvarp að sérstakri löggjöf um tímabundið rannsóknar- og saksóknaraembætti, sem tæki við rannsókn á kærum um meinta refsiverða verknaði, sem kynnu að tengjast falli bankanna.

Ef alþingi samþykkti slíkt frumvarp, yrði ráðinn sérstakur forstöðumaður þessa embættis, sem starfaði í nánu samstarfi við hverja þá opinbera stofnun, innan lands og utan, sem gæti aðstoðað við að upplýsa mál og greiða fyrir rannsókn þeirra. Embættið starfaði undir forræði ríkissaksóknara, sem gæti ásamt forstöðumanni, ákvarðað, hvaða rannsóknarefni féllu til þess.

Þeir, sem annast rannsókn og saksókn sakamála, eru fyrst og síðast viðbragðsaðilar. Æskilegast er, að þeir séu með öllu verkefnalausir. Þessar stofnanir þurfa engu að síður að vera til staðar og svo öflugar og viðbragðsfljótar, að þær geti fumlaust gegnt þjóðfélagslegu hlutverki sínu, þegar á reynir. Tillaga mín um sérstaka stofnun til að sinna rannsóknum og hugsanlegum refsimálum vegna bankakreppunnar byggist á viðleitni til að tryggja í senn öryggi og skjót viðbrögð við meðferð stórra og flókinna mála.

Hér skal engum getum leitt að framvindu þessara mála innan réttarkerfisins, en svo getur farið, að ekki reynist aðeins nauðsynlegt að setja sérstök lög um nýja stofnun til rannsókna og saksóknar heldur einnig um fjölgun dómara. Raunar kann þegar að vera tímabært fyrir stjórnendur héraðsdóms Reykjavíkur að setja á stofn sérstaka deild innan dómsins, þar sem menn glími við svonefnd efnahagsbrot.

Við meðferð sakamálalaga, sem alþingi samþykkti síðastliðið vor og taka eiga gildi 1. janúar 2009, var rætt, hvernig best yrði staðið að milliliðalausri sönnunarfærslu í sakamálum. Í stað þess að taka á því máli við smíði sakamálafrumvarpsins, ákvað ég að skipa nefnd um málið, og skyldi hún einkum segja álit sitt á því, hvort setja ætti á fót millidómstig hér á landi, þar sem eingöngu yrði leyst úr sakamálum.

Álit nefndarinnar er gefið út í dag og er unnt að nálgast það hér á fundinum og á vefsíðu dóms- og kirkjumálaráðuneytisins.

Í stuttu máli er það niðurstaða nefndarinnar, að hér skuli stofna millidómstig í sakamálum og beri það heitið landsyfirréttur. Hér starfaði dómstóll undir því nafni frá 1800 til 1919, þegar Hæstiréttur Íslands kom til sögunnar.

Nefndin leggur til að við dómstólinn starfi að lágmarki sex dómarar auk annars starfsfólks og að dómstóllinn starfi í tveimur þriggja manna deildum. Þá verði almennt  fallið frá fjölskipuðum dómi í héraði. Mál fyrir dóminum flytji ríkissaksóknari og saksóknarar við embætti hans, og hæstaréttarlögmenn.

Ég hef ekki tekið afstöðu til þessara tillagna, en tel vel við hæfi að segja frá þeim og þakka nefndinni gott starf hér við þessa hátíðlegu athöfn.

Góðir áheyrendur!

Æ fleiri átta sig á því, að menntun þeirra í háskóla eða annars staðar, er því marki brennd, að hún heldur ekki endilega í við miklar breytingar og umskipti á öllum sviðum. Til marks um þetta er víðtækt framboð á tækifærum til endurmenntunar í flestum greinum. Við lögfræðingar getum að sjálfsögðu hreykt okkur af því, að þjálfun í júrídískum þankagangi megi líkja við að læra sundtökin, við grípum næsta ósjálfrátt til þeirra vinnubragða, sem við lærðum í lagaskólanum, þegar á þarf að halda.

Vitneskja um þetta gildi menntunar okkar breytir þó ekki hinu, að ör þróun í lagasmíð og á öllum sviðum þjóðlífsins, ekki síst í heimi viðskipta, kallar á, að lögfræðingar gæti þess að viðhalda ávallt þekkingu sinni.

Einmitt þess vegna skiptir miklu, að kennsla, rannsóknir og vísindi séu í tengslum við íslenskt samfélag og á íslenskum grunni. Hin sömu sjónarmið eiga við enn þann dag í dag og við upphaf lagakennslu á Íslandi, að heimilsfesti hennar hér á landi ræður úrslitum um sjónarhornið og þar með inntakið.

Það er til marks um mikinn metnað og sjálfsagða ræktarsemi, hve veglega lagadeild Háskóla Íslands fagnar aldarafmæli lagaskólans. Megi lögvísindi og lagakennsla halda áfram að dafna landi og þjóð til heilla.