23.11.2010

Evran yfir öllu - írska ríkis­stjórnin fallin

Evrópuvaktin 23. nóvember 2010 - leiðari





Evrunni hefur ekki verið komið í skjól, þótt írska ríkisstjórnin hafi verið neydd til þess að óska eftir alþjóðlegri aðstoð til að reisa vegg henni til varnar. Af ESB-fréttum og útlistunum hér á landi mætti helst ætla að þrýstingur framkvæmdastjórnar ESB, Seðlabanka Evrópu (SE) og fjármálaráðherra evru-ríkjanna á írsk stjórnvöld hafi stafað af góðmennsku í garð Íra. Þessir aðilar hafi af einskærri fórnfýsi viljað leggja Írum lið til að komast út úr hremmingum þeirra.

Ekkert slíkt hangir á spýtunni. Embættismenn ESB hugsa aðeins um líf sambandsins, evrópsku seðlabankamennirnir láta stjórnast af hagsmunum bankans og fjármálaráðherrarnir óttast að röðin komi næst að þeirra eigin ríkissjóði og bankakerfi. Breska ríkisstjórnin ákvað að veita Írum stórt lán til að gæta breskra þjóðarhagsmuna.

Þjóðverjar sjá ofsjónum yfir því að Írar ákváðu á sínum tíma að leggja 12,5% tekjuskatt á fyrirtæki en hann er að meðaltali 25,7% í evru-löndunum 16. Bild Zeitung, fjöldablað Þýskalands, segir „hneyksli“ að Írum líðist þessi lága skattheimta. Setja verði sem skilyrði fyrir því að þýskt skattfé renni til bjargar Írum, að þessi fyrirtækjaskattur verði hækkaður á Írlandi. Þjóðverjar eigi ekki að þurfa að sætta sig við að Írum takist á þennan hátt að fá Microsoft eða Google til að festa fé í landi sínu og skapa þar atvinnu.

Írska ríkisstjórnin segist ekki munu fallast á neina hækkun á fyrirtækjaskattinum. Hún er hins vegar öllu trausti rúin og spurning hvort hún lifir fram yfir afgreiðslu fjárlaga fyrir árið 2011 á írska þinginu 7. desember eða jafnvel fram yfir að samkomulag takist af hálfu Íra við ESB og Alþjóðagjaldeyrissjóðinn um neyðaraðstoðina.

Embættismenn ESB segja írska þingmenn sýna mikið ábyrgðarleysi felli þeir ríkisstjórnina, áður en samið verði um neyðarlánin. Þeir óttast að takist ekki að verjast á Írlandi sé Portúgal strax komið í skotlínu og þar með ný árás á evruna. Þeim er að öðru leyti sama um írsku ríkisstjórnina. Hún skiptir þá engu.

Árás á evruna í Portúgal jafngilti stjórnarkreppu þar í landi eins og á Írlandi. Í höfuðstöðvum ESB í Brussel og í evrópska seðlabankanum í Frankfurt láta menn sig líf ríkisstjórna og afstöðu kjósenda ekki varða. Þeir berjast fyrir lífi evrunnar og þar með lífi ESB. Herman Van Rompuy, forseti leiðtogaráðs ESB, sagði líf evrunnar jafngilda lífi ESB. Dominique Strauss-Kahn, forstjóri Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, hvatti til aukinnar miðstýringar, meira valds hjá embættismönnum ESB til að bjarga evrunni.

Írar voru þjóða tregastir til að samþykkja Lissabon-sáttmálann. Gerðu það í annarri atrennu þegar þeir voru fullvissaðir um að þar með tryggðu þeir efnahagslegan stöðugleika og öruggari framtíð. Hvernig halda menn að slík atkvæðagreiðsla færi á Írlandi nú? Er líklegt að ríkisstjórn sem tekur við af þeirri sem nú situr á Írlandi verði hallari undir ESB en sú sem er að hrökklast frá völdum?

Svörin við þessum spurningum liggja í augum uppi. Írska kreppan og viðbrögðin við henni sýna, að annað hvort verða þjóðir þvingaðar með skuldavöndinn á lofti til að beygja sig undir meiri miðstýringu eða þær slíta sig undan miðstýringarvaldinu og velja sér gjaldmiðil í samræmi við það. Um þetta munu pólitísk átök snúast í evru-löndunum á komandi misserum. Ráði þjóðarvilji er líklegt að evran tapi.

Hér á landi standa ESB-aðildarsinnar þó enn og hrópa: Ísland verður að ganga í ESB, annars kemst hún ekki inn á evru-svæðið. Blaðamenn hlógu að Össuri Skarphéðinssyni þegar hann talaði á þennan veg í Brussel 27. júlí sl. Hvað skyldu þeir segja, ef þeir áttuðu sig á því að Össur og íslenska ríkisstjórnin er enn við sama heygarðshornið?