Hannes Hólmsteinn 60 ára, 19. febrúar 2013
Nýlega hitti ég mann á förnum vegi sem spurði: Þú þekkir Hannes Hólmstein, er það ekki? Jú, svaraði ég. Já, ég hlustaði á hann í fyrsta sinn í gær, sagði maðurinn. Hann flutti erindi á fundi í Neskirkju með fyrrverandi starfsmönnum háskólans. Hannes kom bara vel fyrir og var stórskemmtilegur, sagði maðurinn. Nú, sagði ég, kom það þér á óvart. Ja, svona frekar miðað við hvernig um hann er talað.
Frá hverju sagði hann, spurði ég. Hann var að tala um Hayek og Friedman, þessa útlendu vini sína og sagði frá veislum með þeim. Hann er fljúgandi mælskur og hefur frá mörgu að segja, sagði maðurinn. Ég tók undir það og þá spurði hann: Er hann ekki örugglega bindindismaður? Mig rak í vörðunar: Ekki segi ég það nú, svaraði ég, en hann fer vel með vín. Jæja, þá er þetta svo sem í lagi, sagði maðurinn.
Ég vissi ekki þá að hann hefur helgað sig bindindismálum alla sína starfsævi.
Þetta litla, sanna atvik er gott dæmi um stöðu Hannesar Hólmsteins í huga þeirra sem þekkja hann ekki. Af honum er oft dregin allt önnur mynd opinberlega en blasir við þeim sem kynnast honum af eigin raun svo að ekki sé talað um okkur sem fögnum því að eiga hann að vini.
Við Hannes höfum þekkst í tæpa fjóra áratugi. Þegar hann var við nám í Oxford bauð hann mér, Rut og börnum okkar að búa í húsi sem hann leigði í Summerville á meðan hann var í fríi. Árið áður, 1984, störfuðum við saman að Frjálsu útvarpi sem hóf útsendingar í verkfalli fréttamanna ríkisútvarpsins.
Þegar Hannes Hólmsteinn var að afla frétta fyrir Frjálst útvarp var frægasta ljósmyndin tekin af honum. Hann stóð undir vegg Dómkirkjunnar og fylgdist með útifundi verkfallsmanna á Austurvelli. Hann vildi ekki valda uppnámi á fundinum með því slást í hóp þeirra sem stóðu fyrir framan þinghúsið. Hinni frjálsu útvarpsstarfsemi var ekki vel tekið af öllum en hún varð hins vegar kveikjan að afnámi ríkiseinokunar á þessu sviði.
Myndin af Hannesi undir Dómkirkjuveggnum er til sanninda um að hann berst ekki aðeins með orðsins brandi og fræðilegum rökum sem samin eru í kyrrð og þögn bókasafnsins heldur bregður hann sér á vettvang og oft í fremstu víglínu. Hannes er óragur við að taka þátt í kappræðum. Honum leika orð á vörum og hann vitnar í bundið og óbundið mál af þekkingu og listfengi. Hann hefur yfirburðavald á íslensku máli og hefur ánægju af að slípa texta og snurfusa.
Best líður Hannesi við að grúska í söfnum. Hann unir sér vel við leitina að nýjum fróðleiksmola svo að ekki sé minnst á ótrúlega natni hans við að safna ljósmyndum eða filmubútum við gerð heimildarmynda.
Afköstin eru mikil og ritverk hans skipta tugum. Í þeim er að finna mikla breidd vegna lifandi áhuga höfundarins á menningu og stjórnmálum. Þar er einnig þýdda stórvirkið Svartbók kommúnismans, 828 blaðsíður. Þegar Hannes vann að þýðingu Svartbókarinnar kviknaði hugmyndin að sérstökum kafla um kommúnista á Íslandi, hún varð að undirstöðuritinu Íslenskir kommúnistar, 1918 til 1998, 624 blaðsíður, ríkulega myndskreyttar, sem birtust haustið 2011, aðeins tveimur árum eftir útgáfu Svartbókarinnar. Á milli þessara tveggja stóru bóka sendi hann árið 2010 frá sér 992 blaðsíðna tilvitnanasafn, Kjarna málsins. Að auki gaf hann árið 2009 út 160 blaðsíðna bók, Áhrif skattahækkana á hagvöxt og lífskjör.
Alls voru þetta 2.604 blaðsíður á tveimur árum. Þetta var fyrsta skref Hannesar frá alþjóðlegu lánsfjárkreppunni og bankahruninu íslenska. Í dag flutti hann okkur síðan frábæran fræðilegan fyrirlestur um málið í tilefni afmælisins.
Hannes bar fyrsta eintakið af Svartbókinni undir handleggnum í lok ágúst 2009 þegar hann átti leið um Austurvöll. Þar var hópur fólks að mótmæla fyrstu Icesave-samningunum og segir í frétt Morgunblaðsins að gerður hafi verið aðsúgur að Hannesi. Hann brá sér í gegnum Skála þinghússins, ræddi hiklaust við fréttamann í þinghúsgarðinum þar sem lögreglumenn voru á vakt og lýsti stuðningi við andstöðuna gegn Icesave.
Þetta atvik má sjá á netinu og þar með að Hannes flýr ekki af vettvangi þótt að honum sé veist jafnvel með ofbeldi eða hótunum um það.
Af kynnum við fjölmarga nemendur Hannesar ræð ég að hann sé einstakur og áhrifamikill kennari. Hann hefur kveikt lifandi áhuga hjá mörgum nemenda sinna sem láta að sér kveða á vettvangi stjórnmála og í þjóðfélagsumræðum.
Hannes er er í eðli sínu friðsamur fræðimaður, skarpgáfaður dugnaðarforkur sem bregst hvorki góðum málstað né vinum sínum. Hann er sanngjarn maður sem sækist ekki eftir illdeilum. Hann sættir sig hins vegar ekki við ranglæti og leitar réttar síns ef svo ber undir.
Í tilefni dagsins í dag segir Stefán Snævarr, hugmyndafræðilegur andstæðingur Hannesar, á vefsíðu sinni: „[H]ann hefur haft meiri áhrif á pólitíska umræðu á Íslandi en nokkur maður hefur haft síðan á dögum þeirra Jónasar frá Hriflu og Halldórs frá Laxnesi.“
Fyrir hönd vina Hannesar er mér heiður og ánægja að árna honum heilla á þessum tímamótum. Við þökkum honum samfylgdina, vináttu hans og ómetanlegt framlag í þágu góðs málstaðar. Við vitum að hann hefur ekki lagt árar í bát og hefur engan áhuga á að slást í hóp þeirra sem hafa það helst fyrir stafni á daginn að ákveða hvort þeir skuli fá sér martini-hanastél eða gin og tónik fyrir kvöldmatinn.
Innilega til hamingju með daginn!
Við skulum skála fyrir afmælisbarninu og hylla Hannes Hólmstein með ferföldu húrrahrópi.