16.11.2001

Dagur íslenskrar tungu



Dagur íslenskrar
tungu,
Reykholti í Borgarfirði,
16. nóvember, 2001.



Dagur íslenskrar tungu er nú haldinn hátíðlegur í sjötta sinn á afmælisdegi Jónasar Hallgrímssonar. Markmið dagsins er að auka veg móðurmálsins á allan hátt. Að þessu sinni er dagurinn jafnframt hluti íslenskrar dagskrár á Evrópska tungumálaárinu, sem er haldið undir kjörorðinu: Tungumál opna dyr, en Evrópuráðið og Evrópusambandið eru frumkvöðlar að því, að ný öld hefst með því að leggja áherslu á tungumálið og gildi þess. Tvær ástæður búa þar að baki: Í fyrsta lagi að stuðla að því að menn læri og kenni tungumál og í öðru lagi að minna Evrópubúa á fjölda tungumálanna í álfu þeirra.

Er vel við hæfi að efna til hátíðar á degi íslenskrar tungu hér í Reykholti á tungumálaárinu, því að enginn hefur borið hróður íslenskrar bókmenningar víðar en Snorri Sturluson með Eddu, og enginn hefur heldur staðfest það betur fyrir Íslendingum en Snorri, að þeir geta látið verulega að sér kveða í heimsmenningunni með því, sem þeir færa fram á tungu sinni, þótti fáir eigi hana að móðurmáli.

Þá má nefna það til gamans, að árið 1839 sótti Jónas Hallgrímsson árangurslaust um að verða prestur hér í Reykholti við andlát vinar síns séra Þorsteins Helgasonar. Hingað kom Jónas oftar en einu sinni á rannsóknarferðum sínum um landið, meðal annars með Japetus Steenstrup náttúrufræðiprófessor sumarið 1840 og skoðaði þá rúnastein að ósk Finns Magnússonar, en séra Þorsteinn hafði álitið hann vera legstein Snorra Sturlusonar, efaðist Jónas ekki um að það væri rétt og taldi sig geta lesið nafnið „Snori“ á honum.

Sumarið 1841 rannsakaði Jónas Snorralaug og bunustokkinn úr Skriflu, sem lá í jörð og segir í skýrslu sinni: „Þótt vatnið úr Skriflu hafi runnið gegnum lokaðan stokkinn til laugarinnar, er það allt of heitt til þess hægt sé að drepa í það fæti; það fer að minnsta kosti yfir 40º C, úr því það sprengdi fyrir mér einn mæli sem gat ekki stigið hærra. Hvað um það, rangt er að nokkru sinni hafi verið unnt að leiða kalt vatn eftir öðrum stokki til laugarinnar, því engin slík uppspretta, köld eða lækur er þar í grennd. Þegar brúka átti laugina hafa menn því sjálfsagt haft þann hátt á að stífla bunustokkinn nokkra stund áður og látið laugarvatnið bíða meðan það kólnaði. Mjög auðvelt er að koma vatninu burt þegar tekin hefur verið laug, því gat sem í er tappi, hæfilega stór, er niðri við botn á múrnum að framanverðu og fellur allt vatn þar út þegar tappinn er tekinn.“

Og Reykholt varð Jónasi ekki aðeins uppspretta náttúrufræðilegra rannsókna, því að sviplegur dauði séra Þorsteins Helgasonar varð kveikjan að fögru minningarljóði, sem jafnframt er hvöt til þjóðarinnar í frelsisbaráttu hennar og þar er að finna þetta erindi:

Veit þá engi að eyjan hvíta
á sér enn vor, ef fólkið þorir
guði að treysta, hlekki hrista,
hlýða réttu, góðs að bíða;
fagur er dalur og fyllist skógi
og frjálsir menn, þegar aldir renna;
skáldið hnígur og margir í moldu
með honum búa – en þessu trúið!

Kvæðið um séra Þorstein varð Matthíasi Johannessen, sem hlaut verðlaun Jónasar Hallgrímssonar árið 1999, hugstætt, eins og sést af því, að árið 1966 gaf hann ljóðabók sinni heitið: Fagur er dalur og þar er að finna þetta ljóð:


Sólin er farin að spegla sig í tjörninni
og endurnar kljúfa vatnið eins og rauðmagabátur.
Í herbergi við kirkjuna er píreyg stúlka
og speglar sig. Vorið guðar á glugga hennar.
Ég geng einn um garðinn og hlusta á fugl
syngja í brjósti mínu, lóu sem ég kvaddi
í fyrrahaust á gömlu túni austur í sveitum.

Í birkilundi standa óútsprungin tré,
ég sé á þresti í hári þeirra að þau hlakka til vorsins,
nakin skýla þau grænni myndastyttu fyrir norðankulinu,
jafnvel hún bíður eftir vori, ég sé það í augum hennar,
en þau horfa ekki á mig, horfa ekki lengur
á tré vatn og fugla.

Ég rýni í máða stafi á grænveðruðum fótstallinum,
les: Jónas. Það er eins og einhver segi eftir ísavetur:

„Fagur er dalur...“

Já, góðir áheyrendur, við erum hér í fögrum dal til að halda hátíð og heiðra þá, sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn. Á leið minni hingað fór ég í fjóra grunnskóla og var ánægjulegt þar ekki síður en hér að kynnast áhuga skólabarnanna á verkefnum í tilefni dagsins. Stóra upplestrarkeppnin, sem hefst í dag, er skemmtilegur vitnisburður um það, hvernig virkja má skólabörn til að leggja aukna rækt við móðurmálið. Færi ég ykkur öllum þakkir og ekki síst þeim, sem koma hér fram, lesa og syngja.

Við stöndum sterk að vígi með því að leggja rækt við það, sem er okkur sérstakt og sameinar. Ekkert gerir það betur en íslensk tunga, þess vegna er rækt við hana leið til að styrkja innviði íslenska þjóðfélagsins og sókn út á við. Að þessu leyti stöndum við í sömu sporum og Snorri Sturluson og Jónas Hallgrímsson gerðu á sínum tíma og eigum eins og þeir að leggja þann skerf af mörkum, sem kraftarnir leyfa. Til hamingju með dag íslenskrar tungu!






Ingibjörg Haraldsdóttir.

Frá því að þessi dagur var haldinn hátíðlegur í fyrsta sinn hafa Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar verið veitt þeim, sem hafa með sérstökum hætti unnið íslenskri tungu gagn í ræðu og riti, með skáldskap, fræðistörfum eða kennslu og stuðlað að eflingu hennar, framgangi eða miðlun til nýrrar kynslóðar. Byggist ákvörðun um val á verðlaunahafa á tillögum ráðgjafarnefndar en Kristján Árnason, Kolbrún Bergþórsdóttir og Guðrún Nordal sátu í henni að þessu sinni og varð það einróma niðurstaða, að í ár skyldi Ingibjörg Haraldsdóttir, skáld og þýðandi, fá verðlaunin.

Í rökstuðningi nefndarinnar segir:

Ingibjörg Haraldsdóttir er löngu landskunn fyrir skáldskap sinn. Ljóðform hennar er knappt og fágað, þar er engu orði ofaukið. Í ljóðum sínum laðar hún fram eftirminnilegar stemmningar og sýn hennar er frumleg og snörp - og iðulega gagnrýnin. Einnig hefur Ingibjörg verið mikilvirkur þýðandi. Starf þýðandans er gjarna vanmetið en er þegar best tekst til mikilvægt sköpunarstarf. Þýðingar hafa allt frá upphafi hleypt nýjum hugmyndum og lífskrafti inn í íslenska menningu. Án framlags þýðenda væri hugmyndaheimur okkar og bókmenntir fátækari. Á því sviði hefur Ingibjörg unnið alveg sérstakt verk og þýtt mörg af helstu bókmenntaverkum heims.

Íslensk tunga þrífst ekki í einangrun heldur nærist á samspili við aðrar tungur og sækir afl í erlenda strauma. Þegar verk er þýtt frá einu tungumáli til annars er það umskapað; til verður nýtt listaverk. Finna þarf ný orð fyrir framandi hugsanir, og þannig víkkar sjóndeildarhringur tungumálsins. Þýðendur eru því orðsmiðir tungunnar. Þýðingar brúa auk þess bil milli ólíkra menningarsvæða, og stuðla að aukinni þekkingu og umburðarlyndi milli þjóða. Starf þýðandans hefur því öðlast nýtt vægi í fjölmenningarsamfélagi nútímans. Vandvirkni Ingibjargar og listfengi í þýðingum hefur auðgað íslenska tungu og þar með íslenskt menningarlíf.

Vil ég biðja Ingibjörgu að koma hingað og taka við verðlaununum, 500.000 krónum og Ritsafni Jónasar Hallgrímssonar í hátíðarbandi, en Menningarsjóður Íslandsbanka leggur þessi verðlaun til eins og áður og færi ég stjórnendum bankans hugheilar þakkir fyrir velvilja þeirra í garð þessa góða málstaðar.






Á degi íslenskrar tungu er einnig heimilt að veita stofnunum og félagasamtökum sérstaka viðurkenningu fyrir stuðning við íslenska tungu. Má minnast þess, að árið 1999 fékk Félag aldraðra í Borgarfjarðardölum þessa viðurkenningu. Að þessu sinni má segja, að verðlaunagripur vegna þessarar viðurkenningar komi úr Borgarfjarðardölum í orðsins fyllstu merkingu, því að Páll Guðmundsson í Húsafelli hefur gert hann af sinni alkunnu snilld og þeir, sem gripinn og viðurkenninguna hljóta að þessu sinni, eru Námsflokkar Reykjavíkur og Félag framhaldsskólanema.

Námsflokkar Reykjavíkur hófu starfsemi sína í byrjun árs 1939. Fyrstu árin var kennslan nær eingöngu miðuð við þarfir íslenskra nemenda. Íslenskukennsla fyrir útlendinga hófst að marki hjá Námsflokkunum árið 1956, þegar hópur ungverskra flóttamanna kom til Íslands. Frá árinu 1979 hefur meirihluti nemenda verið útlendingar.

Mikilvægi þjálfunar og kennslu á vegum Námsflokkanna hefur aukist með árunum. Árið 2001 munu 1700 manns af hundrað þjóðernum sækja íslenskunám í Námsflokkum Reykjavíkur. Á evrópsku tungumálaári með veg og virðingu íslenskrar tungu að leiðarljósi er mér mikil ánægja að veita Guðrúnu Halldórsdóttur, forstöðumanni Námsflokka Reykjavíkur, þessa viðurkenningu.

Félag Framhaldsskólanema hefur starfað sem hagsmunafélag framhaldsskólanema frá árinu 1987. Auk þessa að vera tengiliður milli skóla og stjórnvalda hefur það gengist fyrir ýmsum skemmtunum og menningarstarfi. Þar ber hæst Söngvakeppni framhaldsskólanna sem haldin hefur verið árlega í um það bil áratug. Keppendum eru sett ýmis skilyrði fyrir þátttöku og eitt af þeim, það allra mikilvægasta, er að allir skuli syngja á íslensku. Þessi regla er ófrávíkjanleg og hefur verið í heiðri höfð allt frá upphafi, þótt nær árlega hafi verið borin upp á landsþingi fyrirspurn um hvort ekki skuli leyfa að syngja á útlensku. Það hefur alltaf verið fellt einróma og litið svo á að þetta þátttökuskilyrði sé framlag framhaldsskólanema til að rækta og efla íslensku tungu.

Fyrir þessa ræktarsemi er Félagi framhaldsskólanemenda veitt sérstök viðurkenning.