27.3.2002

Stefnuskrá vegna borgarstjórnakosninga

STEFNUSKRÁ D-LISTA

BORGARSTJÓRNARKOSNINGAR 2002

Reykjavík er góð borg – en hún gæti verið betri! Hvar gæti verið hagstæðara, öruggara og skemmtilegra að búa en í Reykjavík? Hvar gæti uppbygging atvinnulífs verið öflugri? Hvar gæti verið meira úrval af byggingaralóðum? Hvar gætu dagvistar- og skólamál verið í betra lagi? Hvar gæti öryggi borgaranna verið meira? Hvar gætu skattar og álögur verið lægri? Hvar gæti rekstur sveitarfélags verið hagkvæmari? Hvar gæti verið búið betur að eldri borgurum eða
þeim sem minna mega sín? Hvar gætu framkvæmdir til eflingar menningarlífs verið meiri?

Svarið við þessum spurningum er einfalt. Það ætti hvergi að vera betra að búa en í Reykjavík.

Reykjavík á að vera í fyrsta sæti en hefur um stundarsakir tapað forystuhlutverki sínu. Því vilja allir Reykvíkingar breyta. Við ætlum að setja nýjan kraft í borgarlífið. Við ætlum að gera borgina aftur að miðstöð menningar og þjónustu, höfuðborg, sem vekur stolt borgarbúa og allra Íslendinga. Borg sem stenst alþjóðlegan samanburð og styrkir samkeppnisstöðu þjóðarinnar. Við ætlum að treysta fjárhagsstöðu Reykjavíkur með hagræðingu og sparnað í rekstri að leiðarljósi. Við ætlum tryggja öryggi íbúanna og stuðla að því að þeim líði vel í borginni sinni. Við ætlum að lækka skatta, sérstaklega á eldri borgara. Við ætlum að bjóða reykvískum börnum bestu menntun. Við ætlum að gera miðborgina fjölskylduvæna og fallega. Við ætlum að setja Reykjavík í fyrsta sæti.

Betri menntun fyrir börnin okkar

Sjálfstæðisflokkurinn mun efna til stórátaks í menntamálum með því að tryggja reykvískum börnum í leik- og grunnskólum bestu menntun sem völ er á. Skólinn er hjartað í hverju hverfi borgarinnar, miðstöð mennta og menningar.

Við ætlum að eyða biðlistum við leikskóla.

Við ætlum að veita öllum börnum 18 mánaða og eldri rétt á leikskólaplássi.

Við ætlum að styrkja fleiri úrræði í leikskólarekstri, meðal annars með því að tryggja öllum leikskólabörnum sama styrk frá borginni hvort sem þau dvelja á einkareknum eða borgarreknum leikskólum.

Við ætlum að efla dagforeldrakerfið fyrir yngstu börnin með auknum sveigjanleika og skilvirkara eftirliti.

Við ætlum að efla innra starf leikskólanna með því að bjóða þar valfög sem tengjast listsköpun, hreyfingu, tjáningu eða öðru og með því að hefja undirbúningskennslu í grunnfögum á síðasta ári leikskólans.

Við ætlum að tryggja öflugt, sjálfstætt eftirlit með starfi leik- og grunnskóla. Rekstrarskrifstofur leik- og grunnskóla verða sameinaðar og fagleg ráðgjöf tryggð, meðal annars í samvinnu við háskóla- og vísindastofnanir og með heimsóknum fremstu sérfræðinga á alþjóðamælikvarða.

Við ætlum að tryggja faglega samfellu á milli leik- og grunnskólastigsins í þeim tilgangi að upplýsingar um sértæka námsörðugleika nemenda flytjist með nemendum á milli skólastiga.

Við ætlum að þróa betur samstarf leik- og grunnskóla og hefja tilraun með það að heimila 5 ára börnum að fara ígrunnskóla.

Við ætlum að efla samstarf skólastjórnenda, kennara, foreldra og nemenda með því að skipta borginni ískólahverfi. Við ætlum að skipa 4-5 skólaráð með fulltrúum þessara aðila í stað fræðslu- og leikskólaráða ummálefni leik- og grunnskóla.

Við ætlum að gefa foreldrum tækifæri til að velja grunnskóla fyrir börnin sín, án tillits til búsetu.

Við ætlum að tryggja samfellu á milli skólastarfs og þátttöku nemenda í íþrótta- og tónlistarlífi.

Við ætlum að gefa öllum grunnskólabörnum kost á heitum máltíðum í hádeginu.

Við ætlum að koma betur til móts við afburðanemendur og útfæra stefnu um sérkennslu í samráði við skólafólkog foreldra.

Við viljum að komið verði upp samræmdum mælikvörðum til að kanna líðan grunnskólanemenda.

Við ætlum að efla upplýsingatækni í skólum, til dæmis með því að tryggja öllum kennurum afnot af fartölvum.

Við ætlum að jafna samkeppnisstöðu einkarekinna og borgarrekinna grunnskóla.

Við ætlum að auka öryggi barna í skólum og á skólalóðum.

Við ætlum að gæta hagkvæmni við byggingu nýrra skóla og efla samstarf við einkaaðila í því skyni að styrkja alla þætti skólastarfsins.

Við ætlum að jafna samkeppnisaðstöðu tónlistarskólanna og taka skipulega á málefnum tónlistarfræðslunnar,bæði innan grunnskólans og tónlistarskólanna.

Við ætlum að efla samstarf á milli grunnskóla og íþróttahreyfingarinnar og auka samvinnu á milli grunnskóla og ÍTR þegar skóla lýkur á vorin.

Við ætlum að nýta svigrúmið innan núgildandi kjarasamnings kennara til að útfæra ákvæði um árangurstengingu launa og leggja áherslu á að skólar setji mælikvarða á það hvernig meta megi hæfni kennara í starfi.

Við ætlum að tryggja að öllum nemendum í Reykjavík, án tillits til uppruna, trúarbragða eða litarháttar, sé sköpuð sem best aðstaða og öryggi.

Við ætlum að efla frumkvæði borgarinnar í málefnum framhaldsskólanna í Reykjavík og finna sem fyrst lóðir undir Menntaskólann við Sund og Kvennaskólann í Reykjavík.

Við ætlum að búa vel að háskólum í Reykjavík og hlúa að vísindastarfsemi með stuðningi við þekkingarþorp.

Betra líf fyrir eldri borgara

Sjálfstæðisflokkurinn vill hlúa vel að eldri borgurum og tryggja að hag þeirra verði sem bestborgið.

Við ætlum að stórlækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði 67 ára og eldri, sem þeir eiga og búa í. Við ætlum að hækka tekjuviðmið vegna niðurfellingar um 50%. Þannig fjölgar þeim verulega sem greiða enga fasteignaskatta og holræsaskatta og einnig þeim sem fá 80% eða 50% niðurfellingu.

Við ætlum að eyða biðlistum eftir hjúkrunarrýmum fyrir eldri borgara. Við ætlum að efna til sérstaks átaks íþessum málaflokki á kjörtímabilinu í samvinnu við ríkisvaldið, lífeyrissjóði og sjúkrasjóði og verja milljarði til að mæta brýnni þörf þessa hóps.

Við ætlum að auka samráð og samstarf við félög og samtök eldri borgara.

Betri úrræði í félagsmálum

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja afkomu þeirra sem þurfa á aðstoð borgarinnar að halda.

Við ætlum að stórlækka fasteignaskatta á íbúðarhúsnæði öryrkja, sem þeir eiga og búa í. Við ætlum að hækka tekjuviðmið vegna niðurfellingar um 50%. Þannig fjölgar þeim verulega sem greiða enga fasteignaskatta og holræsagjöld og einnig þeim sem fá 80% eða 50% niðurfellingu. Þetta mun auðvelda öryrkjum að búa sem lengst í eigin húsnæði, stuðla að öryggi þeirra og koma til móts við óskir þeirra og þarfir.

Við ætlum að leysa húsnæðisvanda þeirra fjölskyldna sem búa í dag við óviðunandi aðstæður og eru á biðlistum eftir félagslegu húsnæði.

Við ætlum áfram að beita okkur fyrir því að Alþingi samþykki breytingar á húsnæðislöggjöfinni sem heimila sölu á félagslegum eignaríbúðum með kaupskylduákvæðum.

Betri staða í fjármálum

Sjálfstæðisflokkurinn mun treysta fjárhagsstöðu Reykjavíkur með hagræðingu og sparnað í rekstri að leiðarljósi.

Við ætlum að lækka fasteignagjöld verulega, bæði á fólk og fyrirtæki, með því að afnema holræsaskattinn.

Við ætlum að draga úr skuldasöfnun með hagræðingu og sparnaði í rekstri og tilfærslu verkefna frá borg til einkaaðila og félagasamtaka.

Við ætlum að bjóða út þjónustu borgarinnar til að auka hagkvæmni. Við ætlum að selja fyrirtæki í eigu borgarinnar sem standa í samkeppnisrekstri við einkafyrirtæki. Við ætlum að selja hlut Reykjavíkurborgar í Línu.net.

Við ætlum að leggja áherslu á nútímalega stjórnunarhætti með því að einfalda stjórnsýslu og minnka miðstýringu.

Við ætlum að stytta boðleiðir og fækka milliliðum.

Við ætlum að auðvelda borgarbúum aðgengi að þjónustu borgarinnar og efla alla upplýsingagjöf til borgarbúa.

Við ætlum að framkvæma reglubundið og sjálfstætt eftirlit með fjárreiðum og stjórnsýslu borgarsjóðs og stofnana þar sem eignaraðild Reykjavíkurborgar er meiri en 50%.

Betri kostir í skipulagsmálum

Sjálfstæðisflokkurinn mun treysta byggð í borginni og tryggja að fólk og fyrirtæki sem vilja búa þar og starfa eigi þess kost.

Við ætlum að tryggja nægar lóðir í borginni, bæði fyrir fólk og fyrirtæki og afnema lóðauppboð.

Við ætlum beita okkur fyrir varanlegri niðurstöðu um flugvallarmálið með viðræðum við ríkisvaldið og aðra hagsmunaaðila um skipulag í Vatnsmýrinni og fá þar aukið landrými undir blandaða byggð, án þess að vegið verði að flugöryggi eða gengið gegn hagsmunum Reykjavíkur og landsbyggðarinnar í samgöngumálum.

Við ætlum að haga gatnagerðargjöldum eða söluverði lóða í samræmi við kostnað borgarinnar við gerð nýrra byggingarsvæða.

Við ætlum að leggja áherslu á strandbyggð og að skipuleggja blandaða byggð á Geldinganesi, Gufunesi og Gunnunesi, auk íbúðabyggðar á landsvæði Keldna. Við ætlum að skipuleggja íbúðabyggð á Kjalarnesi og viljum blandaða byggð í Norðlingaholti. Við ætlum að nýta SVR-lóðina við Kirkjusand undir íbúðabyggð og heimila blandaða byggð við Dugguvog.

Við ætlum ekki að styðja landfyllingu á Eiðisgranda.

Betri miðborg

Sjálfstæðisflokkurinn vill með öflugu átaki treysta mannlíf í miðborginni og gera hana fjölskylduvæna á ný.

Við ætlum með öflugu átaki að treysta mannlíf í miðborginni og gera hana fjölskylduvæna á ný.

Við ætlum að hreinsa til í miðborginni.

Við ætlum að hefja markvisst uppbyggingarstarf í miðborginni, t.d. með því að tryggja að friðunaráform komi ekki í veg fyrir eðlilega uppbyggingu og þróun.

Við ætlum að sætta sjónarmið friðunar og uppbyggingar í gamla miðbænum á raunhæfan og markvissan hátt með samhæfðri heildarskipulagningu svæðisins.

Við ætlum að leggja áherslu á að fjölga íbúum í miðborginni og treysta forsendur verslunar og annarrar atvinnustarfsemi.

Við ætlum að treysta stoðir miðborgarinnar með þekkingarþorpi á suðurvæng hennar í Vatnsmýrinni og ráðstefnu- og tónlistarhúsi á norðurvæng hennar við höfnina.

Við ætlum að tryggja öryggi borgaranna með þjónustusamningi við lögregluyfirvöld eða öðrum nauðsynlegum aðgerðum. Við ætlum að setja á laggirnar miðborgardeild í samvinnu við lögregluyfirvöld, félagasamtök og hagsmunaaðila.

Við ætlum ekki að raska Víkurkirkjugarði til að tryggja aðgang að fornminjum við Aðalstræti.

Við ætlum að tryggja næg bílastæði í miðborginni og afnema stöðumælagjöld þegar bílum er lagt í skamman tíma.

Við ætlum að endurskilgreina samstarf við hagsmunaaðila og hugsanlega fjárfesta í tengslum við framtíðaruppbyggingu miðborgarinnar. Við ætlum að setja á laggirnar nýtt miðborgarfélag með nýju umboði og ábyrgð.

Við ætlum að koma á fót betri hreinlætis- og salernisaðstöðu fyrir almenning í miðborginni og auka lýsingu gatna og mannvirkja.

Við ætlum í samráði við rekstraraðila að flytja nektardansstaðina út fyrir miðborgarmörkin.

Við ætlum að kanna forsendur fyrir rekstri miðborgarstrætós sem tekur 20-25 manns í sæti.

Betri skilyrði í atvinnumálum

Sjálfstæðisflokkurinn vill tryggja að Reykjavík verði á ný í forystu í þjónustu, verslun og viðskipti.

Við ætlum að laða fyrirtæki til borgarinnar með því að skapa þeim góðar aðstæður, góð rekstrarskilyrði og bjóða þeim hentugar lóðir fyrir starfsemi sína.

Við ætlum að treysta forsendur verslunar, þjónustu og viðskipta, sérstaklega í miðborg Reykjavíkur.

Við ætlum að skapa kjöraðstæður fyrir sprotafyrirtæki og nýsköpun á öllum sviðum.

Við ætlum að gera Reykjavík að þekkingarborg þar sem vel er búið að háskólum og fyrirtækjum á sviði rannsókna og vísinda. Við ætlum að skapa sjálfstætt starfandi vísindamönnum góða starfsaðstöðu í Reykjavík.

Við ætlum að stækka athafnasvæði á Esjumelum og við Hallir.

Við ætlum að efla starfsmenntun fyrir ungt fólk á aldrinum 15-18 ára í samstarfi við atvinnufyrirtæki í borginni og efla starfsemi Vinnuskólans fyrir grunnskólanema.

Við ætlum að skapa aðstæður fyrir gróskumikið alhliða menningarlíf og -starf.

Við ætlum að skipa Reykjavík í fremstu röð borga við nýtingu upplýsingatækni á öllum sviðum og auka þar með samkeppnishæfni hennar.

Betra lista- og menningarlíf

Sjálfstæðisflokkurinn vill beita sér fyrir því að Reykjavík verði í orði og verki alþjóðleg höfuðborg menningar í fremstu röð.

Við ætlum að ýta undir starfsemi sjálfstæðra menningarhópa í sviðslistum og tónlist og stuðla að því að verk myndlistarmanna njóti sín í borginni.

Við ætlum að tryggja öflug bókasöfn sem nýti upplýsingatækni með virkum hætti og veiti fjölþætta þjónustu.

Við ætlum að efla safnastarf í borginni með því að nýta sem best aðstöðu og eignir borgarinnar, til dæmis með sjóminjasafni á svæðinu í kringum Slippinn, náttúruminjasafni í Perlunni og aðstöðu til listastarfsemi að Korpúlfsstöðum.

Við ætlum að efla Miklatúnið sem útivistar- og menningarsvæði fyrir fjölskyldur og tengja það Kjarvalsstöðum og lista- og menningarstarfsemi þar.

Við ætlum að fjölga tækifærum menningarstofnana til að afla sértekna og hvetja til aukins samstarfs við skóla og fyrirtæki.

Við ætlum að setja skýrari leikreglur í styrkveitingum til menningarmála. Við ætlum að leggja áherslu á að styrkja listamenn beint og milliðalaust.

Við ætlum að leggja rækt við gróskumikið starf í listum og menningu og skapa starfsaðstöðu fyrir einstaka listamenn og hópa, til dæmis á svæðinu í kringum gamla Slippinn og í Dugguvogi.

Við ætlum að virkja krafta listamanna í þágu leik- og grunnskóla, auk þess sem skipulega verði staðið að listskreytingum í skólum.

Við ætlum að nýta menningarsögulega arfleifð Reykjavíkur sem best með góðu aðgengi að fornleifum við Aðalstræti, öflugu starfi í Viðey undir forystu staðarhaldara og áherslu á menningartengda ferðaþjónustu. Við ætlum að gera átak í að merkja sögulega staði og örnefni í öllum hverfum borgarinnar. Við ætlum að vinna að nýrri heildarstefnumótun í málefnum Árbæjarsafns.

Við ætlum að halda menningarnótt sem árvissum viðburði.

Betra íþrótta- og æskulýðsstarf

Sjálfstæðisflokkurinn vill efla íþróttastarf í Reykjavík og virkja sem flesta til þátttöku með aukinni samvinnu við íþóttafélögin í borginni.
Við ætlum að koma á laggirnar árlegum Reykjavíkurleikum í frjálsum íþróttum.

Við ætlum að leggja mikla áherslu á eflingu grasrótarstarfs íþróttafélaganna í borginni.

Við ætlum að tryggja að starf þeirra verði sambærilegt við það sem best gerist í öðrum sveitarfélögum og ennfremur viljum við bæta fræðslukerfi þeirra.

Við ætlum að auðvelda íþróttafélögum að ráða menntað fólk til að þjálfa börn og unglinga og ætlum að koma á fót íþróttaskólum í hverfum borgarinnar í samstarfi við grunnskólana.

Við ætlum að vinna að því að kraftar íþróttahreyfingarinnar verði sameinaðir og forvarnir verði efldar í því sambandi.

Við ætlum að leggja áherslu á að starf félagsmiðstöðva og íþróttafélaga verði samtvinnað í ríkari mæli og að samið verði við einstaka íþróttafélög um að taka að sér rekstur félagsmiðstöðva.

Við ætlum að byggja upp fullkomin keppnissvæði á 4-5 stöðum í borginni, sem verða samnýtt af hverfafélögunumog móta heildarstefnu í uppbyggingu sundlauga borgarinnar.

Við ætlum að fjölga opnum svæðum í borginni fyrir íþróttaiðkun barna og unglinga, ekki síst á auðum svæðum eldri hverfum borgarinnar.

Við ætlum að láta styrki til íþrótta taka mið af fyrirfram ákveðnum gæðastöðlum og íþróttafélög sem setja upp slíka staðla njóti þess með sérstökum stuðningi.

Við ætlum að tryggja að í Laugardal verði 50 metra innisundlaug og aðstaða til knattspyrnuiðkunar, sem stenst alþjóðlegar kröfur.

Betri löggæslu og öryggi

Sjálfstæðisflokkurinn vill gera Reykjavík að öruggri borg fyrir alla íbúa hennar.

Við ætlum að tryggja öryggi borgaranna og gera löggæsluna sýnilegri, meðal annars með þjónustusamningi við ríkið um löggæslu í borginni.

Við ætlum að setja á laggirnar miðborgardeild í samvinnu við lögregluyfirvöld, félagasamtök og hagsmunaaðila.

Við ætlum að efla löggæslu í úthverfum borgarinnar í samvinnu við lögregluyfirvöld, íbúa og aðra hagsmunaaðila í hverfunum.

Við ætlum að leggja sérstaka áherslu á að uppræta fíkniefnavandann.

Betri samgöngur og greiðari umferð
Sjálfstæðisflokkurinn vill að umferð í borginni sé greið og borgararnir geti ferðast innan hennar með þeim hætti sem þeir helst kjósa.

Við ætlum að beita okkur fyrir því að fyrsta áfanga Sundabrautar ljúki.

Við ætlum að láta umferðaröryggi ráða ferðinni þegar fjármagni er ráðstafað til vegamála og leggja áherslu á mislæg gatnamót á fjölförnum stöðum, svo sem við Stekkjarbakka og á gatnamótum Miklubrautar og Kringlumýrarbrautar.

Við ætlum að beita okkur fyrir lagningu Skerjabrautar í framhaldi af Suðurgötu yfir á Álftanes um göng eða brú eftir því hvort reynist hagkvæmari kostur.

Við ætlum að kanna hagkvæmni þess að tengja Sæbraut við Örfirisey með brú.

Betra ástand umhverfismála

Sjálfstæðisflokkurinn vill hlúa að umhverfi borgarinnar og tryggja að íbúarnir geti notið náttúru hennar sem víðast.

Við ætlum að hreinsa til í borginni og bæta umhirðu í hverfum hennar með markvissu hreinsunarstarfi.

Við ætlum að styrkja og efla útivistarsvæði borgarinnar og stuðla að því að borgarbúar njóti þeirra.

Við ætlum að vernda og endurlífga lífríki Elliðaánna og skipa sérstaka stjórn um þær.

Við ætlum að leggja grunn að heilsteyptu samgöngukerfi göngu-, hjólreiða- og hestastíga.

Við ætlum að ljúka hreinsun strandlengjunnar, þvi verki sem við hófum.

Við ætlum að vernda Laugardalinn og tryggja að hann verði áfram gott útivistarsvæði.