25.9.2021

Rafræna fjölmiðlabyltingin

Morgunblaðið, laugardagur, 25. september 2021

Stórviðburðir hafa áhrif á fjöl­miðlun. Kosn­ing­ar eru viðburður af því tagi. Aug­ljóst er að þær hafa nú leitt til breyt­inga á miðlun stjórn­mála­frétta og kosn­inga­stefnu flokk­anna. Sam­fé­lags­miðlar skipta mun meira máli en til þessa, ekki aðeins við miðlun ritaðs máls held­ur einnig mynda og hljóðs. Litl­ar sjón­varps­stöðvar eins og N4 og Hring­braut vega þyngra en áður. Hlaðvörp, það er sam­talsþætt­ir í hljóðstofu eða mynd­veri, ryðja sér æ meira til rúms. Áhuga al­menn­ings á þessu efni er erfitt að meta. Sé tekið mið af gíf­ur­legri út­breiðslu hljóðbóka Stor­ytel hér – hún slær öll met – má ætla að hlaðvörp séu vin­sæl.

Sjón­varps-kosn­ingaþætt­ir Morg­un­blaðsins, þætt­irn­ir í Dag­mál­um, eru góð nýj­ung. Sam­töl­in fara úr leiðigjörnu, póli­tísku rétt­trúnaðarfari gam­al­grónu sjón­varps­stöðvanna.

Ein­stak­ling­ar, sam­tök þeirra, þar á meðal stjórn­mála­flokk­arn­ir, líta til nýju upp­lýs­inga­tækn­inn­ar sem öfl­ugs úrræðis til að boða skoðanir sín­ar. Sjálf­stæðis­flokk­ur­inn held­ur til dæm­is úti hlaðvarp­inu Hægri hliðin. Þar eru reglu­lega send­ir út þætt­ir um stjórn­mál með skoðunum sem falla und­ir heiti hlaðvarps­ins. Það sýn­ir fjöl­breyti­leika við leiðir efn­is af þessu tagi að Hægri hliðina má nálg­ast á Spotify, YouTu­be-rás Sjálf­stæðis­flokks­ins og Li­b­syn auk fleiri staða í net­heim­um.

Boðleiðirn­ar sem þarna eru nefnd­ar geta all­ir nýtt sem áhuga hafa. Tæki­fær­in til að segja hug sinn op­in­ber­lega eru orðin svo mörg að það er eitt helsta kapps­mál stjórn­lyndra stjórn­mála­afla að fækka þeim. Þetta sást ný­lega í kosn­inga­bar­átt­unni í Rússlandi og blas­ir við í und­ir­gefni stóru al­heims-tækn­iris­anna þegar þeir laga sig að rit­skoðun­ar­kröf­um kín­verska komm­ún­ista­flokks­ins.

Á kjör­tíma­bil­inu sem nú er að ljúka hef­ur hvað eft­ir annað verið deilt á alþingi um hvort og hvernig haga beri færslu á skatt­fé al­menn­ings til annarra fjöl­miðla en Rík­is­út­varps­ins. Op­in­ber fjár­stuðning­ur til þess rask­ar öllu jafn­vægi á al­menn­um fjöl­miðlamarkaði og er á skjön við þróun nýrra leiða við miðlun hvers kyns efn­is til al­menn­ings.

154250008_1961842053974171_3910093777397894419_nÞótt ekki sé rætt um þetta stór­mál fyr­ir kosn­ing­arn­ar verður bar­átt­an fyr­ir þær óhjá­kvæmi­lega til þess, eins og áður er sagt, að beina at­hygli að áhrifa­mætti ein­stakra miðla.

Líf­leg tök stjórn­enda í Dag­máls-þátt­um sjón­varps Morg­un­blaðsins leiða til skemmti­legri og efn­is­rík­ari umræðna um stjórn­mál en stöðluð fram­ganga þeirra sem stjórna sam­bæri­leg­um þátt­um ann­ars staðar í sjón­varpi. Þetta fell­ur að þeirri skoðun sem set­ur svip á umræður um vin­sæld­ir fjöl­miðla í ná­granna­lönd­un­um. Borg­ara­leg­ir sjón­varps­menn sem nálg­ast viðfangs­efnið frá hægri eru sagðir höfða al­mennt bet­ur til áhorf­enda en þeir sem hafa gam­al­grónu stofn­ana­sjón­ar­miðin.

Sósí­al­ista­flokk­ur Íslands stend­ur dygg­an vörð um Rík­is­út­varpið í stefnu­skrá sinni. Hug­mynda­fræðing­ur og frum­kvöðull flokks­ins, Gunn­ar Smári Eg­ils­son, álít­ur þó að ,„krumla rík­is­valds­ins með hót­un­um fjár­veit­inga­valds­ins“ lami all­an vilja starfs­manna Rík­is­út­varps­ins „til að segja al­menn­ingi frá sam­fé­lag­inu eins og það er“. Þess vegna eigi að breyta Rík­is­út­varp­inu í „sam­vinnu­fé­lag starfs­manna“ sem starfi í umboði „al­menns fé­lags lands­manna“ án tengsla við rík­is­valdið og stjórn­völd. Rík­is­út­varpið eigi að lifa sjálft af sjálf­stæðum tekju­stofni út­varps­gjalds, hér vanti „gott þjóðarút­varp“.

Stefna Sósí­al­ista­flokks­ins er skýr­asti flokks­legi stuðning­ur­inn við rík­is­út­varp fyr­ir kosn­ing­ar að þessu sinni. Stefna flokks­ins í þessu efni eins og öðrum stang­ast þó á við þró­un­ina sem orðið hef­ur í lýðræðisvæðingu skoðana­mynd­un­ar í krafti upp­lýs­inga­tækn­inn­ar.

Á kjör­tíma­bil­inu sem lýk­ur í dag mistókst að ná sátt á alþingi um fjöl­miðlastefnu. Þetta mistókst einnig á þingi vorið 2004 en þá um sum­arið lék allt á reiðiskjálfi vegna fjöl­miðlafrum­varps­ins svo­nefnda þegar auðugir eig­end­ur Frétta­blaðsins vörðu hags­muni sína með kjafti og klóm.

Hvað sem líður deil­um á þingi um hvernig fjöl­miðlun skuli háttað í land­inu eyk­ur tækn­in tæki­færi ein­stak­linga til að láta að sér kveða á heima­velli og áhorf á alþjóðleg­ar streym­isveit­ur eykst hvað sem líður áskrift­ar­gjöld­um. Boðað er að inn­an skamms komi til sög­unn­ar ný inn­lend streym­isveita, Upp­kast, þar sem unnt verði að kaupa aðgang að listviðburðum, tón­leik­um, leik­sýn­ing­um, list­d­ansi, uppist­andi eða öðrum sviðsviðburðum.

Þótt staða inn­lendra fjöl­miðla sé of viðkvæm til að ræða hana við kjós­end­ur nú fyr­ir kosn­ing­ar hverf­ur vandi þeirra ekki. Hann verður enn til umræðu á næsta kjör­tíma­bili og tek­ur á sig nýj­ar mynd­ir.

Ein af hætt­um sam­tím­ans er kennd við upp­lýs­inga­óreiðu. Það er að ra­f­ræn­ir miðlar séu notaðir til að ala á rang­hug­mynd­um eða afla stuðnings við sjón­ar­mið sem stang­ast á við al­manna­ör­yggi. Þjóðarör­ygg­is­ráð fól sér­fræðing­um á sín­um veg­um að rann­saka hætt­ur vegna upp­lýs­inga­óreiðu í tengsl­um við Covid-19-far­ald­ur­inn.

Tækn­in kall­ar á op­in­bera varðstöðu af þessu tagi vegna upp­lýs­inga­miðlun­ar frek­ar en að haldið sé úti rík­is­fjöl­miðli sem veik­ir grund­völl allra annarra fjöl­miðla í land­inu. Við blas­ir að þörf­in fyr­ir rík­is­rek­inn fjöl­miðil minnk­ar jafnt og þétt. Á hinn bóg­inn vex þörf­in fyr­ir vörn og stuðning gegn upp­lýs­inga­óreiðunni. Öflug­asti stuðning­ur­inn felst í að auðvelda fram­leiðslu á góðu efni, frétt­um eða menn­ing­ar­efni, sem standi þeim til boða sem fara inn á fjöl­breyttu hlaðvörp­in eða streym­isveiturn­ar.