17.12.2020

Sjálfsmynd að baki svipmynda

Bækur - Minningabrot, Morgunblaðið 17. desember 2020.

Sögur handa Kára

Eft­ir Ólaf Ragn­ar Gríms­son. For­lagið, 2020. Kilja, 208 bls., með lit­mynd­um og nafna­skrá.
Ólaf­ur Ragn­ar Gríms­son seg­ir bók sína Sög­ur handa Kára hafa orðið til „óvart“. Hann hafi vegna far­sótt­ar­inn­ar sest við skrift­ir sér til skemmt­un­ar og dund­urs. Eft­ir að hafa skráð 34 sög­ur á sjó­mannadag­inn velti hann næsta skrefi fyr­ir sér. Bók væri „of hátíðleg“. Valdi hann þann kost að „lesa þetta sjálf­ur í hlaðvarpi, eins og ég sæti fyr­ir fram­an ar­in­eld að segja góðum vini skemmti­lega sögu“, sagði hann í DV og einnig: „Viðtök­urn­ar fóru fram úr mín­um vænt­ing­um. For­lagið hafði síðan sam­band og vildi endi­lega gefa sög­urn­ar út með nafna­skrá og mynd­um. Það er nú orðið að veru­leika.“

Glögg­ur hlust­andi hlaðvarps­ins lýsti góðum hug­hrif­um sín­um af frá­sagn­arlist for­set­ans fyrr­ver­andi. Marg­ir sjá Ólaf Ragn­ar lík­lega ljós­lif­andi fyr­ir sér og heyra þegar þeir lesa text­ann á bók. Það er reynsla þess sem þetta skrif­ar.

Sögukafl­arn­ir snú­ast einkum um óhefðbundið alþjóðastarf Ólafs Ragn­ars. Það hófst þegar hann var þingmaður og formaður Alþýðubanda­lags­ins og starfaði í þing­manna­sam­tök­un­um Parlia­ment­ari­ans for Global Acti­on (PGA), alþjóðleg­um þrýsti­hópi gegn kjarn­orku­vopn­um. Með sam­tök­un­um varð til tengslanet stjórn­mála­manna og aðgerðarsinna sem nýst hef­ur Ólafi Ragn­ari allt til þessa dags. Hann not­ar nýyrðið „tengslajarl“ um þá sem ná langt við mynd­un tengslanets (e. network­ing). Í bók­inni eru mörg dæmi um hve þéttriðið þetta net Ólafs Ragn­ars sjálfs er. Til að nýta sér það til fulls varð hann oft að starfa „utan prótokolls“ eins og hann sjálf­ur orðar það.

Hann nýt­ur sín í glímu við áskor­an­ir. Hún fer ekki alltaf fram „inn­an prótó­kolls“. Hann ritaði t.d. árið 1998 Jiang Zem­in, þáver­andi for­seta Kína, bréf frá Seattle í Banda­ríkj­un­um til að „leggja grunn að aukn­um tengsl­um við Kína og reifa helstu svið sem gætu orðið væn­leg til sam­vinnu“, seg­ir hann (22) og einnig: „Það gæti skipt Ísland veru­legu máli að vera á und­an öðrum í Evr­ópu. Of seint yrði að mæta á vett­vang þegar all­ir vildu verða vin­ir Kína.“ (23)

Með bréf­inu lagði hann grunn að eig­in stefnu gagn­vart Kína sem hann hef­ur síðan fylgt mark­visst.

Bók­in sýn­ir að stund­um reyndi á þolrif­in í sam­skipt­um Ólafs Ragn­ars við Davíð Odds­son og Hall­dór Ásgríms­son. Hann tel­ur að þeir hefðu með sam­töl­um við banda­ríska þing­menn getað leikið á Don­ald Rums­feld, varn­ar­málaráðherra Banda­ríkj­anna, sem lokaði Kefla­vík­ur­stöðinni. Til marks um það nefn­ir hann eigið sam­tal við John Warner, öld­unga­deild­arþing­mann re­públi­kana, formann her­mála­nefnd­ar deild­ar­inn­ar. Eng­inn ís­lensk­ur ráðamaður hefði rætt við hann. Þá seg­ir:

„Mig rak í rogastans. Gat það verið að Davíð og Hall­dór hefðu ekk­ert hirt um að flytja málið í þing­inu, haldið sig við rang­hug­mynd­ir um að for­set­inn og hans menn réðu öllu í Washingt­on? Ég hafði í sam­töl­um við þá á Bessa­stöðum áréttað þá reynslu mína að leiðin til var­an­legra áhrifa í Washingt­on lægi í gegn­um þingið. Þeir höfðu greini­lega ekki gert mikið með þau ráð.“ (113)

Í sam­tal­inu við Warner ákvað Ólaf­ur Ragn­ar að halda sig við prótokoll­inn og ræða ekki efn­is­lega um varn­ar­mál­in. Ekki kem­ur fram hvort sendi­herra Íslands í Washingt­on var með hon­um á þess­um fundi eða hvaða frá­sögn hann eða for­seti sendi um sam­talið inn í ís­lenska stjórn­kerfið.

GV2163THHInn­an fá­menns ís­lensks stjórn­kerf­is verða ráðamenn að stilla sam­an strengi og miðla upp­lýs­ing­um sem nauðsyn­leg­ar eru við töku mik­il­vægra ákv­arðana. Sam­hliða ut­an­rík­is­stefna for­seta ann­ars veg­ar og rík­is­stjórn­ar hins veg­ar skap­ar aðeins glundroða.

Af bók­inni má ráða að ákvörðun Ólafs Ragn­ars um að skjóta lög­um um Ices­a­ve-samn­ing­ana til þjóðar­inn­ar í árs­byrj­un 2010 hafi rofið stjórn­mála­sam­band hans og Jó­hönnu Sig­urðardótt­ur for­sæt­is­ráðherra. Þá var und­ir­bún­ing­ur vegna op­in­berr­ar heim­sókn­ar for­seta Íslands til Ind­lands á loka­stigi en vegna Ices­a­ve-þjóðar­at­kvæðagreiðslunn­ar „fór rík­is­stjórn Jó­hönnu í harðan baklás. Vin­ur minn ut­an­rík­is­ráðherr­ann [Össur Skarp­héðins­son] neitaði að fara með. Hann sagði að mig minn­ir í frétt­um að aðrir gætu verið „tösku­ber­ar for­set­ans“.“ (61)

Ólaf­ur Ragn­ar seg­ist hafa hringt í Jó­hönnu, hann gæti „klárað þessa heim­sókn einn“ en hún væri að móðga „eitt af áhrifa­mestu ríkj­un­um í efna­hags­lífi heims“ með því að senda eng­an ráðherra þegar þetta ríki vildi sýna Íslandi vináttu eft­ir hrun bank­anna. (61)

Þetta hefði Davíð aldrei gert, seg­ir Ólaf­ur Ragn­ar, að skapa for­dæmi um að for­set­inn gæti farið einn til form­legra viðræðna við önn­ur ríki án þess að hafa ráðherra með sér.

Síðsum­ars árið 2012 ekur Ólaf­ur Ragn­ar norður að Hól­um í Hjalta­dal vegna bisk­upsvígslu. Dag­finn­ur Svein­björns­son, norður­slóða-aðstoðarmaður hans, er með hon­um. Þeir nota bíl­ferðina til að rita Bút­an-kon­ungi bréf um lofts­lags­mál og Himalaja­fjöll­in, þriðja pól­inn. Bréfið gat af sér ráðstefnuröð og styrkti stoðir und­ir Hring­borð norður­slóða sem boðað var til í Hörpu 2013.

Bók Ólafs Ragn­ars snýst um fjöl­skrúðugan hóp ein­stak­linga. Þar kenn­ir margra grasa og hlýt­ur oft að hafa verið erfitt fyr­ir höf­und að vega og meta hve ít­ar­lega ætti að kynna þá sem nefnd­ir eru til sög­unn­ar. Stund­um virðist hann ganga að því sem vísu að les­and­inn (eða hlust­and­inn) viti um hvern er rætt. Föður­nafns Dag­finns sem síðar varð for­stjóri Hring­borðs norður­slóða er til dæm­is ekki getið nema í nafna­skránni.

Text­inn er lip­ur­lega sam­inn og læsi­leg­ur. Fjöldi lit­mynda prýðir bók­ina. Hún er fal­lega hönnuð og í henni er nafna­skrá sem auðveld­ar að sjá á auga­bragði hverj­ir koma við sögu.

Ólaf­ur Ragn­ar sagði um út­gáfu bók­ar­inn­ar að hann hefði ákveðið að „láta vaða“, það er taka áhættu. Annað hefði raun­ar verið stíl­brot af hans hálfu. Að baki svip­mynd­anna af fólki í bók­inni birt­ist mynd af höf­undi sjálf­um sem auðveld­ar og dýpk­ar skiln­ing á ár­angri hans. Það eyk­ur gildi bók­ar­inn­ar.