7.10.2023

Skólastarf í stefnuræðum

Morgunblaðið, laugardagur 7. október 2023.

Tveir for­sæt­is­ráðherr­ar fluttu stefnuræður í vik­unni, Mette Frederik­sen við þing­setn­ingu í Kaup­manna­höfn og Ris­hi Sunak á flokksþingi Íhalds­flokks­ins í Manchester. Þau ræddu bæði um skóla­mál og nauðsyn breyt­inga á sviði þeirra.

Kjarn­inn í máli danska for­sæt­is­ráðherr­ans var að veita ætti grunn­skóla­kenn­ur­um meira fag­legt svig­rúm við starf sitt. Kröf­ur til nem­enda ættu að verða sveigj­an­legri. Í stað þess að gefa op­in­ber fyr­ir­mæli um smæstu atriði ættu yf­ir­völd að þora að færa kenn­ar­an­um að nýju völd í kennslu­stof­unni, hann hefði hlotið mennt­un til að stjórna þar.

For­sæt­is­ráðherr­ann nefndi að í íþrótta­kennslu væri mælt fyr­ir um 250 bind­andi viðmið sam­kvæmt stjórn­valdsákvörðun en þessi bind­andi viðmið væru alls 1.081 í grunn­skól­an­um.

Hún las eina viðmiðun­ar­grein um að nem­andi ætti að geta sett gildi íþrótta­menn­ing­ar í sam­fé­lags­legt sam­hengi og velti fyr­ir sér hvort þing­menn teldu nauðsyn­legt að setja fram kröf­ur af þessu tagi til að stuðla að íþróttaiðkun ungs fólks.

Ráðherr­ann benti á að við hliðina á þess­um viðmiðun­ar­regl­um væru svo sett­ar 3.170 svo­nefnd­ar leiðbein­andi regl­ur um nám í grunn­skóla.

Boðskap­ur­inn var með öðrum orðum að nóg væri komið af of­stjórn í grunn­skól­an­um. Reglu­verkið og mikl­ir fjár­mun­ir skiluðu ekki betri náms­ár­angri. Það yrði að huga að nýj­um leiðum, leggja áherslu á að kenna lest­ur, skrift, reikn­ing og móður­málið. Það gæti eng­inn orðið góður hand­verksmaður án þess að kunna að lesa, skrifa og reikna.

Hér gef­ur mennta­málaráðherra út nám­skrá fyr­ir grunn­skóla en sveit­ar­fé­lög­in standa straum af kostnaði við að fram­kvæma hana. Katrín Jak­obs­dótt­ir gaf nú­gild­andi aðal­nám­skrá út sem mennta­málaráðherra árið 2013. Síðan hafa umræður um skólastarf og kennslu­efni tekið breyt­ing­um eins og birt­ist meðal ann­ars nú þegar rætt er um kyn­fræðslu. Staðreynd er að þeir sem utan skól­anna eru láta sig al­mennt litlu varða gerð grunn­gagna á borð við nám­skrár, þar geta þeir þó haft áhrif á stjórn­mála­menn, kjörna full­trúa sína.

Þeir sem lesa aðal­nám­skrá grunn­skóla hér kom­ast fljótt að því að þar birt­ast ná­kvæm fyr­ir­mæli til kenn­ara um getu nem­enda að lokn­um ákveðnum ára­fjölda.

Und­an­farna ára­tugi hafa umræður um skóla­mál þró­ast í þá átt að þar ráði vís­inda­leg fag­mennska sem sé lítt skilj­an­leg öðrum en þeim sem hafi til­einkað sér hana. Þetta hef­ur stuðlað að því að breikka bilið á milli skóla og sam­fé­lags. All­ir hafa þó ein­hvern tíma á lífs­leiðinni kynnst skóla­starfi og vita hvað þar ber hæst.

Niðurstaða danska for­sæt­is­ráðherr­ans var að fyr­ir­mæli stjórn­valda til kenn­ara væru allt of mik­il. Þeim yrði að fækka en auknu frelsi kenn­ara fylgdu meiri vænt­ing­ar og kröf­ur til þeirra. Á átt­unda ára­tugn­um hefðu kenn­ar­ar fært sig frá púlt­inu og inn í bekk­inn. Það hefði verið gott skref því að fjar­lægðin á milli kenn­ara og nem­enda hefði verið orðin of mik­il. Hún gæti hins veg­ar einnig orðið of lít­il. Það er ekki síður þörf á að ræða fjar­lægðina milli skóla og for­eldra eða um­sjón­ar­manna barna.

Hér erum við ekki vön því að stjórn­mála­menn tali á þenn­an hátt um skólastarf eða láti sig innra starf skóla yf­ir­leitt miklu varða. Ytri um­gjörðin eins og lengd náms eða sam­ein­ing skóla er ofar á dag­skrá. Oft án viðun­andi sam­ráðs eins og skip­brot til­raun­ar­inn­ar til að sam­eina tvo fram­halds­skóla á Ak­ur­eyri sýn­ir.

Fjarmognun-haskolaÁslaug Arna Sigurbjörnsdóttir kynnir nýtt reiknilíkan háskóla.

Áslaug Arna Sig­ur­björns­dótt­ir, ráðherra há­skóla­mála, kynnti 18. sept­em­ber sl. nýtt ár­ang­ur­s­tengt fjár­mögn­un­ar­lík­an há­skóla sem tek­ur við af reiknilíkani há­skóla frá ár­inu 1999. Á nýja fjár­mögn­un­ar­líkanið að verða að fullu inn­leitt árið 2025.

Meg­in­breyt­ing­in frá því sem áður var felst í því að nú renn­ur fé með hverj­um nem­anda til há­skóla í meira mæli en áður miðað við að nem­end­ur ljúki náms­ein­ing­um og út­skrif­ist. Áslaug Arna sagði að skól­arn­ir hefðu um langt ára­bil kallað eft­ir end­ur­skoðun á nú­ver­andi fyr­ir­komu­lagi sem var reist á reiknilíkani frá ár­inu 1999. Ráðherra sagði reiknilíkanið hafa verið mikla fram­för á sín­um tíma en það hefði tekið óveru­leg­um breyt­ing­um á ald­ar­fjórðungi á meðan sam­fé­lagið og vænt­ing­ar nem­enda hefðu tekið stakka­skipt­um.

Reiknilíkanið frá 1999 stóð ekki aðeins að baki breyt­ing­um á fjár­mögn­un há­skóla­náms held­ur á skipu­lagi þess með sjálf­stæðum há­skól­um, Há­skól­an­um í Reykja­vík, Lista­há­skóla Íslands auk Há­skól­ans á Bif­röst sem nú geng­ur til sam­starfs við Há­skól­ann á Ak­ur­eyri.

Það er tíma­bært að nýtt skref sé stigið til að efla há­skól­ana því að um nokk­urra ára skeið hef­ur ríkt ákveðin stöðnun í fjár­streymi til þeirra og má jafn­vel segja að risið hafi lækkað á þeim. Í eðli sínu er þetta rót­tæk breyt­ing í sam­ræmi við nor­ræna og alþjóðlega þróun. Viðbrögðin við henni gefa til kynna að vel hafi verið staðið að öll­um und­ir­bún­ingi af hálfu ráðherr­ans og ráðuneyt­is hans.

Stjórn­mála­menn verða að hafa skoðun á inn­taki mennt­un­ar og innra starfi skóla sé þeim í raun annt um að leggja góðan grunn að framtíð þjóða sinna. Hvert skref sem stigið er verður að vera vel und­ir­búið og ígrundað. Mette Frederik­sen boðaði breyt­ingu á grunn­skól­an­um í ræðu sinni en Ris­hi Sunak fjallaði um bresku fram­halds­skól­ana og leiðina þaðan inn í há­skóla eða til annarr­ar æðri mennt­un­ar. Hann vildi leggja áherslu á ensku og stærðfræði.

Í sama anda og há­skólaráðherra hef­ur með vönduðum vinnu­brögðum lagt grunn að end­ur­nýj­un há­skól­anna er óhjá­kvæmi­legt að líta hér til annarra skóla­stiga. Stjórn­mála­menn geta ekki vikið sér und­an því að hafa skoðun á skóla­starfi.