23.3.2024

Stjórnmálaátök vegna banka

Morgunblaðið, laugardagur, 23. mars 2024

Rekst­ur banka hef­ur reynt á ís­lenska stjórn­mála­menn. Á árum áður voru full­trú­ar stjórn­mála­flokk­anna inni á gafli í bönk­un­um. Eft­ir að fjár­mála­fyr­ir­tæki komust í hend­ur einkaaðila uxu bank­arn­ir stjórn­mála­mönn­um yfir höfuð og hrundu síðan þegar þeir nutu ekki leng­ur láns­trausts í út­lönd­um. Stjórn­mála­menn tóku við rúst­um bank­anna haustið 2008 og samþykktu neyðarlög til að koma und­ir þá fót­un­um að nýju. Það tókst vel.

Eina hreina vinstri­stjórn lýðveld­is­ins (2009-2013) beitti sér fyr­ir setn­ingu laga um Banka­sýslu rík­is­ins sem skyldi tryggja „arms­lengd“ milli rík­is­banka og stjórn­mála­manna.

Í upp­hafi grein­ar­gerðar með frum­varp­inu um banka­sýsl­una frá júní 2009 seg­ir að vegna hremm­ing­anna á fjár­mála­markaði eigi ríkið eign­ar­hluti í flest­um stærstu fjár­mála­fyr­ir­tækj­um lands­ins. Það verði að vera trú­verðugur eig­andi fyr­ir­tækj­anna og hlut­verk þess hafið yfir vafa um póli­tísk af­skipti af dag­leg­um ákvörðunum þeirra. Banka­sýsl­unni er falið að rækja eig­enda­hlut­verkið af kost­gæfni.

Banka­sýsl­an átti einnig að und­ir­búa og vinna til­lög­ur um sölu á eign­ar­hlut­um rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um og gera til­lög­ur til fjár­málaráðherra um hvort og hvenær fýsi­legt væri að bjóða til­tekna eign­ar­hluti til sölu á al­menn­um markaði. Stofn­un­in skyldi hafa lokið störf­um eigi síðar en fimm árum frá því að hún væri sett á fót, sem var árið 2010, og yrði hún þá lögð niður.

Vefmyndastaerd-13-1080x675

Árið 2018 hafði banka­sýsl­an enn með hönd­um um­sýslu með öll­um eign­ar­hlut­um í Íslands­banka og 98,2% eign­ar­hluta rík­is­ins í Lands­bank­an­um, auk 49,5% stofn­fjár Spari­sjóðs Aust­ur­lands hf. Myndaðist þá víðtæk sátt á alþingi um að setja bráðabirgðaákvæði við banka­sýslu­lög­in þess efn­is að stofn­un­in yrði lögð niður þegar verk­efn­um henn­ar lyki.

Frá 2018 hef­ur banka­sýsl­an tvisvar komið að sölu á hlut­um rík­is­ins í Íslands­banka. Nú ligg­ur fyr­ir frum­varp um sölu á frek­ari hlut rík­is­ins í bank­an­um án milli­göngu banka­sýsl­unn­ar. Á hún fram­veg­is aðeins að fara með eign­ar­hluta rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um þar til hún verður lögð niður með lög­um.

Þessi saga banka­sýsl­unn­ar sýn­ir fyrst og fremst skort á póli­tískri sam­stöðu um sölu bank­anna frá end­ur­reisn þeirra. Stein­grím­ur J. Sig­fús­son, þáv. formaður VG og fjár­málaráðherra, flutti frum­varpið um banka­sýsl­una 2009 og fimm ára regl­una. Nú má Katrín Jak­obs­dótt­ir, formaður VG og for­sæt­is­ráðherra, ekki heyra á sölu Lands­bank­ans minnst.

Í hvert skipti sem stig­in eru skref til að minnka eign­ar­hlut rík­is­ins í fjár­mála­fyr­ir­tækj­um hef­ur orðið póli­tísk­ur jarðskjálfti. Ein­hverj­ir sjá sér þá hag af því að ala á tor­tryggni, einkum í garð fjár­málaráðherra. Hon­um ber þó að halda sig víðs fjarri viðskipt­un­um sam­kvæmt lög­un­um um banka­sýsl­una. Túlk­un á því er hins veg­ar ekki ein­föld eins og birt­ist óvænt í áliti umboðsmanns alþing­is vegna sölu á hlut í Íslands­banka í mars 2022.

Þá var Íslands­banka falið að fram­kvæma útboð banka­sýsl­unn­ar og selja 22,5% eign­ar­hluta rík­is­ins í bank­an­um. Fór það í handa­skol­um hjá bank­an­um sem valdi þann kost að þiggja sátt­ar­boð fjár­mála­eft­ir­lits­ins og greiða 1.160 millj­óna króna í sekt vegna þess hve illa var að verki var staðið.

Að fengnu áliti umboðsmanns alþing­is ákvað fjár­málaráðherra að víkja til hliðar og taka við embætti ut­an­rík­is­ráðherra.

Nú er svo komið að banka­stjóri Lands­bank­ans lít­ur ekki leng­ur á bank­ann sem rík­is­banka. Hann megi fara sínu fram hvað sem líði eig­enda­stefnu rík­is­ins. Þetta kom fram í umræðum í vik­unni vegna kaupa Lands­bank­ans á TM trygg­ing­um af Kviku banka fyr­ir tæpa 29 millj­arða króna í reiðufé eins og seg­ir í kaup­samn­ingi aðila sem sagt var frá sunnu­dag­inn 17. mars.

Afstaða Þór­dís­ar Kol­brún­ar Reyk­fjörð Gylfa­dótt­ur fjár­mála- og efna­hags­ráðherra varðandi hugs­an­leg kaup rík­is­banka á trygg­ing­ar­fé­lagi lá fyr­ir op­in­ber­lega 2. fe­brú­ar 2024. Þá svaraði hún spurn­ingu í hlaðvarpi Þjóðmála um þann mögu­leika að Lands­bank­inn festi kaup á TM sem væri í sölu­ferli hjá Kviku banka. Fjór­ir aðilar höfðu fengið gögn og voru þátt­tak­end­ur í sölu­ferl­inu. Lands­bank­inn var sagður einn af þeim aðilum. Ráðherr­ann svaraði:

„Ef þú ert að spyrja mig hvað mér finnst um að stórt trygg­inga­fyr­ir­tæki í einka­eigu verði rík­is­fyr­ir­tæki, þá veit ég al­veg að þú veist svarið við því hvað mér finnst um það.“

Í bréfi banka­sýsl­unn­ar til ráðherra nú 18. mars kem­ur fram að þessi yf­ir­lýs­ing ráðherr­ans fór ekki fram hjá stjórn banka­sýsl­unn­ar sem bókaði á fundi 8. fe­brú­ar „að ráðherra hugnaðist ekki að Lands­bank­inn kaupi TM“. Vegna þess­ar­ar af­stöðu ráðherr­ans taldi banka­sýsl­an jafn­framt „ein­sýnt að ekki yrði af viðskipt­un­um af hálfu Lands­bank­ans“.

Sama dag gaf stjórn banka­sýsl­unn­ar Lands­bank­an­um sjö daga frest til að lýsa aðdrag­anda til­boðs bank­ans í TM, fram­vindu máls­ins og ákv­arðana­töku, for­send­um og rök­um viðskipt­anna, skyld­um Lands­bank­ans gagn­vart banka­sýsl­unni sam­kvæmt samn­ingi aðila frá des­em­ber 2010 og ákvæðum eig­enda­stefnu rík­is­ins.

Nýr kafli í sögu rík­is­banka er í mót­un. Því miður minn­ir hann á aðdrag­anda hruns­ins þegar stjórn­end­ur bank­anna töldu sig færa um að bjóða stjórn­völd­um birg­inn og stýra land­inu. Eft­ir hrunið var kvartað und­an því að eft­ir­lit hefði ekki verið nóg og að stjórn­mála­menn hefðu ekki beitt banka­stjóra næg­um aga.

Þá var glímt við fjár­mála­menn í einka­fyr­ir­tækj­um sem nefnd­ir voru út­rás­ar­vík­ing­ar í lof­ræðum á æðstu stöðum. Nú er eft­ir­litsum­gjörðin allt önn­ur eins og eign­ar­haldið. Stjórn­mála­erfiði vegna bankaf­urst­anna lýk­ur aldrei.