9.3.2024

Vinsældir og verk VG og Katrínar

Morgunblaðið, laugardagur, 9. mars 2024

At­hygli vek­ur hve fylgi flokks for­sæt­is­ráðherra minnk­ar frá könn­un til könn­un­ar. Ráðherr­ann hef­ur þó leitt rík­is­stjórn Íslands með góðum ár­angri í glímu við stærri verk­efni en áður hafa þekkst: heims­far­ald­ur og ótíma­bundna jarðelda á Reykja­nesi. Þá hef­ur kaup­mátt­ar­aukn­ing og al­menn vel­sæld ekki áður verið meiri.

Katrín Jak­obs­dótt­ir hef­ur verið for­sæt­is­ráðherra frá 30. nóv­em­ber 2017 eða í sex ár og rúma þrjá mánuði. Það er dágóður sam­felld­ur tími. Á lýðveld­is­tím­an­um hafa aðeins Bjarni Bene­dikts­son eldri og Davíð Odds­son setið leng­ur sam­fellt sem for­sæt­is­ráðherr­ar. Þeir voru báðir for­menn stærsta stjórn­mála­flokks­ins, Sjálf­stæðis­flokks­ins, og höfðu sterk og mót­andi áhrif á stjórn­mál­in og þjóðlífið.

Katrín Jak­obs­dótt­ir leiðir Vinstri­hreyf­ing­una – grænt fram­boð (VG) sem varð til þegar hóp­ur alþýðubanda­lags­manna, arf­tak­ar gömlu komm­ún­ist­anna í þeim flokki, vildi ekki eiga sam­leið með þeim sem stofnuðu jafnaðarmanna­flokk­inn Sam­fylk­ing­una um alda­mót­in 2000.

Í VG söfnuðust and­stæðing­ar aðild­ar Íslands að Atlants­hafs­banda­lag­inu (NATO) og Evr­ópska efna­hags­svæðinu (EES) auk þess sem þeir fylgdu þröng­sýnni rík­is­rekstr­ar­stefnu á heima­velli. Þessi arf­ur veld­ur því lík­lega að nú er VG tíma­skekkja.

Á sín­um tíma sat Katrín Jak­obs­dótt­ir fyr­ir VG ásamt flokks­bróður sín­um Ragn­ari Arn­alds í allra flokka nefnd um stöðu Íslands gagn­vart EES og Evr­ópu­sam­band­inu. Nefnd­in skilaði áliti skömmu fyr­ir þing­kosn­ing­ar vorið 2007. Þar var lýst sam­eig­in­leg­um stuðningi við EES-aðild­ina. Það tók þannig rúm 13 ár fyr­ir VG að sætta sig form­lega við aðild Íslands að EES. All­ir þing­menn flokks­ins hafa þó ekki enn kyngt henni, eft­ir 30 ára aðild. Einn þeirra, Bjarni Jóns­son, var formaður ut­an­rík­is­mála­nefnd­ar alþing­is vorið 2023 og brá fæti fyr­ir af­greiðslu frum­varps ut­an­rík­is­ráðherra sem miðaði að því að bæta rétt­ar­stöðu al­mennra borg­ara inn­an ís­lenskr­ar lög­sögu á sam­eig­in­lega innri markaði Evr­ópu.

Í for­sæt­is­ráðherratíð Katrín­ar Jak­obs­dótt­ur hef­ur verið gert meira átak til að efla varn­ar­mátt NATO en nokkru sinni frá því að banda­lagið var stofnað fyr­ir 75 árum. Katrín styður all­ar þess­ar aðgerðir. Á heima­velli hef­ur rík­is­stjórn henn­ar staðið að meiri end­ur­nýj­un á ör­ygg­is­svæði Kefla­vík­ur­flug­vall­ar en frá því á ní­unda ára­tugn­um. Þó hef­ur VG ekki form­lega horfið frá and­stöðu sinni við NATO. Enn seg­ir í stefnu flokks­ins: „Ísland segi sig úr NATO. … Heræf­ing­ar á Íslandi, sem og her­skipa- og herflug­véla­kom­ur, verði óheim­il­ar.“ Í fram­kvæmd eru þetta mark­laus orð en samt standa þau þarna enn.

Holl­usta VG við rík­is­rekst­ur og andstaða við einkafram­tak breyt­ist ekki. Næg­ir að líta til heil­brigðismála. VG sleppti hendi af heil­brigðisráðuneyt­inu und­ir árs­lok 2021. Það ár var eng­in liðskiptaaðgerð kostuð af rík­inu í einka­reknu Klíník­inni. Fólk var frek­ar sent í skjóli EES-reglna til aðgerða er­lend­is með ærn­um kostnaði sjúkra­trygg­inga. Árið 2023 voru hins veg­ar 443 liðskiptaaðgerðir í Klíník­inni eft­ir að ráðherra Fram­sókn­ar­flokks­ins inn­leiddi nýja starfs­hætti. Flokks­ráðsfund­ur VG 1.-2. mars 2024 taldi að sjálf­sögðu aukna áherslu á einka­rekna heil­brigðisþjón­ustu frá 2021 „mjög al­var­lega“.

Í verki hef­ur stefnu VG verið vikið til hliðar í for­sæt­is­ráðherratíð for­manns flokks­ins. Tví­skinn­ung­ur­inn, bilið milli orða og at­hafna, er öll­um aug­ljós.

Við þetta bæt­ist síðan fjórða málið: afstaðan til út­lend­inga­mála. Þar seg­ist VG nú fylgja fyr­ir­vara­stefnu vegna stjórn­ar­frum­varps sem er í sam­ræmi við nýja heild­ar­stefnu rík­is­stjórn­ar­inn­ar í út­lend­inga­mál­um.

Hér skulu ekki nefnd fleiri dæmi um póli­tík VG. Hún rím­ar æ verr við sam­tím­ann. Þetta bitn­ar á flokkn­um, rík­is­stjórn­inni og hinum stjórn­ar­flokk­un­um tveim­ur. Á vinstri kant­in­um nær Sam­fylk­ing­in for­skoti. VG hef­ur ekki roð við henni.

Al­mennt er talið að Katrín Jak­obs­dótt­ir hafi meira per­sónu­fylgi en afstaðan til flokks henn­ar sýn­ir. Væri mál­um ekki háttað á þann veg hefði Guðmund­ur Ingi Krist­ins­son, þingmaður Flokks fólks­ins, ekki sagt á þingi 4. mars að á sér hefði dunið spurn­ing frá „al­veg ótrú­leg­um fjölda“ fólks varðandi fram­boð til for­seta Íslands í ný­legri kjör­dæm­a­viku. Það lægi í aug­um uppi að færi Katrín í fram­boð til for­seta Íslands hefði það veru­leg áhrif á sitj­andi rík­is­stjórn og framtíð henn­ar. Því spurði hann for­sæt­is­ráðherra: „Ætlar þú í fram­boð til for­seta Íslands? Nei eða já, af eða á.“

Katrín sagðist varla trúa því að í kjör­dæm­a­viku þing­manna Flokks fólks­ins hefði þetta verið aðal­spurn­ing­in. Hún væri hins veg­ar „bara enn“ for­sæt­is­ráðherra og yrði þar áfram um sinn og hefði ekki „leitt hug­ann að slíku fram­boði“ enda væru nóg verk­efni í for­sæt­is­ráðuneyt­inu.

1475014Katrín Jakobsdóttir á flokksráðsfundi VG 1. mars 2024. (mynd: mbl.is).

Katrín boðaði flokks­ráði sínu 1. mars að stjórn henn­ar ætti að vinna áfram að því sem boðað var á liðnu hausti og ná niður verðbólg­unni. Aðgerðir í tengsl­um við kjara­samn­inga væru lyk­ill að því fyr­ir utan að stjórn­ar­flokk­arn­ir semdu sín í milli um fjár­mála­áætl­un næstu ára.

Und­ir kvöld fimmtu­dags­ins 7. mars var ritað und­ir stöðug­leika­samn­ing um laun til fjög­urra ára, sam­flots­samn­ing sem á að skapa for­send­ur fyr­ir lækk­un verðbólgu og vaxta. Eft­ir und­ir­rit­un samn­ings­ins get­ur rík­is­stjórn­in gert fjár­mála­áætl­un sína.

Fram­boðsfrest­ur vegna for­seta­kosn­ing­anna 1. júní renn­ur út 26. apríl. Mánuði fyrr fara þing­menn í stutt páska­leyfi. Þá gefst þeim og öðrum tóm til að meta hvernig staðið skuli að vor­verk­un­um. Meðal þeirra er að taka af skarið um for­setafram­boð.